FS alltaf á tánum

DSC00579.jpg
Valgerður Anna Einarsdóttir, eða Vala pepp eins og sumir þekkja hana, hefur starfað hjá Félagsstofnun stúdenta, FS, um nokkurra ára skeið, meðal annars sem sem dagskrárstjóri Stúdentakjallarans og hostelstýra á Student Hostel, en nú sem markaðsstjóri fyrirtækisins. Stúdentablaðið hitti hana og fékk að vita allt um afmælisár FS.

 

„Fyrsti afmælisviðburðurinn var náttúrulega The Iconic 50 króna bjór! Við byrjuðum þetta með trompi sem var rosalega skemmtilegt. Það var ekkert smá gaman að sjá hvað fólk tók vel í þetta, allt í einu sýndu 1.500 manns áhuga á viðburðinum á Facebook.“

Og mættu einhverjir í bjór klukkan ellefu þegar Stúdentakjallarinn opnaði?
„Já, já, það voru alveg einhverjir sem mættu klukkan ellefu í bjór. En það sýndi sig yfir daginn hvað stúdentar eru mikið sómafólk, það var engin ölvun í gangi eða fólk að hamstra á barnum. Fólk var bara að skemmta sér og njóta. Það kom okkur svo sem ekki á óvart, við þekkjum okkar fólk. Stúdentar eru upp til hópa fyrirmyndarfólk sem kann að skemmta sér innan velsæmismarka og vel það. Svo voru líka margir sem mættu bara til að vera með í stemmningunni og fengu sér kaffi eða kók, en öllum fannst það bara svo flippað og skemmtilegt að geta fengið sér bjór á 50 krónur. Mannskapurinn var farinn að reikna þetta allt saman út, meira að gamni auðvitað, og kom í ljós að tveir lítrar af bjór fengust fyrir sama verð og kókdós. Lagerinn af Tuborg Green kláraðist um klukkan sjö en það kom ekki að sök, allir héldu áfram að skemmta sér.“

Kaffi á 50 krónur
„Í framhaldi af þessu langar okkur að gera eitthvað sambærilegt í Hámu, eins og að bjóða upp á kaffi á 50 krónur. Þá verður afmælisveisla í boði Hámu á næstunni. Við verðum með risastóran kökufleka og ætlum að endurtaka það á haustmisseri svo enginn verði skilinn útundan. Afmælisdagur FS er 1. júní en þá eru fáir hér á svæðinu og nemendur og starfsmenn farnir að tínast í frí. Þannig að við dreifum viðburðum yfir árið á tímabil þar sem flestir eru á svæðinu. Við höfum þá fjölbreytta og í öllum deildum FS þannig að sem flestir geti notið.“

Eitthvað fyrir alla
„Við munum gefa út afmælisrit þar sem stiklað verður á stóru í sögunni og þar verða viðtöl við fólk sem hefur komið að starfsemi FS í gegnum árin. Leikskólarnir þrír munu standa að sameiginlegri leikskólahátíð á Stúdentagörðum, kór barna á leikskólanum Mánagarði verður með tónleika, við bjóðum í pylsupartí og fleira. Við leggjum áherslu á að stúdentar og fólkið á svæðinu njóti og taki þátt í að halda upp á þetta stóra afmæli stofnunarinnar sem allir stúdentar eiga.

Fyrstu stórtónleikar afmælisársins voru föstudaginn 9. febrúar þegar Hatari og Kraftgalli spiluðu fyrir troðfullu húsi í Stúdentakjallaranum. Við leggjum áherslu á að dagskráin þar sé fjölbreytt og við allra hæfi, og þar verða skipulagðir viðburðir til viðbótar við það sem við gerum venjulega.

Við reynum alltaf að vera á tánum, hlusta á hvað stúdentar vilja og bregðast við eins og hægt er. Við gerum allt sem við getum til að framkvæma góðar hugmyndir sem við fáum, til dæmis þessa með 50 króna bjór í tilefni af 50 ára afmæli FS. Okkur fannst sú hugmynd of góð til að sleppa henni og við vorum viss um að stúdentar kynnu að meta þetta svona í lok mánaðar þegar enginn á pening. Til viðbótar við afmælishátíðarhöld höldum við áfram að sinna okkar daglega starfi, byggja stúdentagarða, bjóða upp á góðan mat í Hámu, útvega námsbækur og sinna börnum stúdenta með rekstri leikskóla. Það verður margt að gerast þetta afmælisár og við vonum að stúdentar séu jafnspenntir fyrir því og við sem störfum hjá FS.“

Stúdentablaðið