Andlegir eftirskjálftar hrunsins

Hrunið, þið munið. Skemmtilegt orðbragð fyrir hrakandi geðheilbrigði heillar þjóðar frá árinu 2008. Hrunið mætti jafnvel kalla andlegt þjóðarmorð, með tilheyrandi ábyrgðar- og stefnuleysi íslensks þjóðfélags, sem hefur staðið yfir síðastliðinn áratug. Mig langar hins vegar að skipta birtingarmynd þeirra ára sem fylgdu í kjölfar hrunsins í þrjú lög út frá persónulegri reynslu.

Í ysta laginu hafa fæstir áhrif á það sem hefur áhrif á flesta, eins og sjálft hrunið. Það sem fylgdi á eftir var pólitísk skák, stanslausar stjórnarkreppur og stefnu- og markmiðaleysi í öllum kimum þjóðfélagsins. Skortur á framtíðarsýn var algjör, þar sem enginn þorði að taka ábyrgð því enginn vildi sýnast ábyrgðarlaus og keyra svo um á gröffuðum eðalvögnum eða reyna að festa svefn með óánægða anarkista við útidyrahurðina. Í þessu pólitíska mengi eru afleiðingarnar skýrar: Ef þú fokkar í okkur þá munum við fokka í þér. Það hefur nefnilega komið í ljós að hörmulegar pólitískar ákvarðanir hafi langtímaáhrif innan samfélagsins og er skeytingarleysi ekki lengur virðulegur pólitískur hroki, heldur kemur það út í dag sem hrein mannvonska. Vantraustið er algjört og þegar óupplýstar ákvarðanir eru teknar trekk í trekk, í nafni velviljans, er ekki nóg að eiga falleg börn og skreyta köku. Þú skreytir nefnilega ekki köku með skít.

Í innra laginu eru áhrifin af hruninu komin inn í félagslega nærumhverfið. Þar byrjar boltinn að rúlla hindranalaust í átt að sálartetrinu, hvort sem það er skuldahýt fjölskyldunnar, stífari fíkniefnaneysla elstu systurinnar og forræðissvipting, landflótti hinna systranna og þar með algjört rótleysi tilverunnar. Við þetta bætist svo innlögn föður á geðdeild Landspítalans, dauðsfall frænda, gæludýramissir, flutningar og loks skilnaður. Upprótið er algjört og ef einhver félagslegur strúktúr var til staðar þá er hann horfinn.

Í innsta laginu er hið persónulega, skynjunin, samofin gerviveruleika samfélagsmiðla og stórauknu hreyfingarleysi, sem þá kallar á ekkert annað en minnimáttarkennd, kvíða og þunglyndi. Það er sigur í sjálfu sér að komast fram úr rúmi fyrir hádegi og verður sjálfsvorkunn tíður fylgifiskur sem síðan er hulinn með yfirbragði sjálfstrausts. Sýndarmennskan hjálpar í félagslegu samneyti en þegar brosið verður að grettu er best að hypja sig. Ofan á þetta leggst háskólanámið og í mekka þekkingar á Íslandi verður vanlíðanin með öllu óútskýranlegri og því freistandi að benda á allt í kringum sig, eins og skrif mín gera. Á það samt ekki að einhverju leiti rétt á sér?

Þegar ystu, innri og innstu lögin eru dregin saman eru eftirskjálftar hrunsins augljósir. Mín persónulega reynsla er einstök en hún virðist eiga margt sameiginlegt með reynslu fjölmargra annarra þar sem nýlegar rannsóknir hafa sýnt að andleg heilsa stúdenta hefur verið á hverfanda hveli frá hruni. Þriðjungur stúdenta greinist klínískt þunglyndur, heilsumenning innan Háskóla Íslands er lítil sem engin og til að kýla einkunnum yfir fyrstu einkunn bryðja stúdentar fókuslyf eins og nammi og skola niður með orkudrykkjum. Þetta er því ekki lengur persónulegt, heldur pólitískt.

Stúdentar geta kannski ekki ráðist að rót vandans, sem er í grunninn ábyrgðarleysi, skeytingarleysi og stefnuleysi valdhafa eftir hrun, en í dag eru stúdentar farnir að viðurkenna vandann og þar með er hægt að skilgreina hann. Með látlausri vitundarvakningu síðustu ára hafa stúdentar náð augum og eyrum Alþingis og liggur í augum uppi að þar eru sóknarfæri fyrir stórbættu geðheilbrigði stúdenta, ef ekki alls ungs fólks á Íslandi. Hrunið verður þannig ekki lengur afsökun, heldur ærin ástæða.