„Þetta er stærsta mál í heimi“

Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

Viðtal við Andra Snæ Magnason

Eins og okkur flestum er kunnugt erum við að sjá sífellt fleiri og alvarlegri breytingar á umhverfinu okkar og samfélagi sökum loftslagsbreytinga. Andri Snær Magnason, rithöfundur, hefur verið talsmaður umhverfismála hér á landi um nokkurt skeið en fyrir stuttu síðan gaf hann út nýja bók sem fjallar um málaflokkinn. Einn fimmtudagsmorgunn í nóvember hittumst við Andri Snær í Norræna húsinu yfir rjúkandi heitum kaffibolla og ræddum hin ýmsu mál, til dæmis nýju bókina hans, Dalai Lama, kjarnorkusprengjur og ábyrgð háskólans í loftslagsmálum.

„Þetta er svo stórt að það sprengir skala tungumálsins“

Nýjasta bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, hefur fengið mikið lof meðal gagnrýnenda. Aðspurður um hvað bókin fjalli segir Andri að hún fjalli einfaldlega um tímann og vatnið. „Ef þú talar við vísindamenn er eðli alls vatns í heiminum að taka breytingum á næstu 100 árum. Jöklarnir eru að síga og hafsborðið að rísa, sýrustig hafsins er að breytast meira en hefur sést í 50 milljón ár. Hugmyndin er sú að það að þetta gerist allt á einni mannsævi einstaklings sem fæðist í dag og verður jafngamall ömmu minni, er svo stórt að það er stærra en allt. Þetta er stærsta mál í heimi. Þetta er allt saman. Þetta er svo stórt að þetta sprengir skala tungumálsins. Ég get ekki sagt að þetta sé rosalegt í tólfta veldi,“ segir Andri. Hann segir jafnframt að það sé eins og við heyrum fréttirnar um loftslagsmál líkt og einhvers konar suð í eyrunum. „Við erum búin að heyra fréttirnar, en samt er bílaröð. Það er ekki eins og annar hver maður hafi tekið þetta til sín og ákveðið að fá far í vinnuna, ekki einu sinni hundraðasti hver maður,“ segir Andri. Hann bætir því við séum að ganga í gegnum viðmiðaskipti en að það sé að taka okkur langan tíma að skilja nýjar staðreyndir, hugtök og veruleika. „Viðmiðaskiptin gerast hægt en þau gerast líka með sögum. Við skiljum kannski ekki tölfræði eða ártöl langt fram í tímann eða sýrustig sjávar, en við skiljum sögur og ef þetta er fléttað inn í sögur þá skiljum við þetta betur. Við verðum að skilja þetta. Þetta mun ekki fara ef við skiljum þetta ekki,“ segir Andri. 

Í bókinni snertir Andri Snær á ýmsum hugmyndum og málefnum sem við fyrstu sýn líta ekki út fyrir að tengjast umhverfismálum. Með umfjöllunarefnum sínum gerir Andri það ljóst að allt í þessum heimi tengist á einhvern hátt, eins óljós og sú tenging lítur út fyrir að vera. „Þannig að þegar ég tala um framtíðina tala ég líka um fortíðina, í stað þess að tala um vísindi tala ég um norræna goðafræði en síðan bítur allt í skottið á hvert öðru. Þetta er ekki greinasafn heldur er þetta samhangandi listræn heild en hún fer í gegnum allar þessar staðreyndir um tímann og vatnið. En þær staðreyndir fylgja fjölskyldusögum, tveimur viðtölum við Dalai Lama sem leiðir okkur inn í Himalayafjöllin. Í búddhismanum er sagt að allt tengist, þannig að hvernig tengi ég ömmu mína við Oppenheimer, framtíð krókódíla á jörðinni, Himalayafjöllin og kóralrifin? Hvernig tengist þetta allt saman? Hugmyndin er einnig sú að sagnalist er líka listform og upplýsingar eru ekki list. Þegar allur heimurinn er í húfi þá hlýtur það að kalla á listrænt viðbragð. Og það var eiginlega það sem ég vildi gera,“ segir Andri. Hann bætir því við að það hafi verið mjög krefjandi að taka svo stórt umfjöllunarefni fyrir hendur og þurfti hann að kafa sér ofan í ýmisskonar fræði, líkt og sjávarlíffræði, búddhisma, eðli kóralrifja, sögu Kína og fjölskyldusögur svo eitthvað sé nefnt. „Vandinn var að skrifa eins og þetta hafi verið auðvelt. Þar lá stóra þjáningin. Ég reyndi að hafa þetta þannig að næsta saga væri í raun byrjuð áður en að sú fyrri hafði endað.“

Mig langaði að sanna að allt í heiminum sé tengt

Andri segir að erfitt sé að segja hversu lengi bókin hafi verið í bígerð. Í bókinni eru margar af kjarnasögum hans, til dæmis sögur um frænda hans sem var krókódílafræðingur og afa hans sem skar upp Íranskeisara. Andri minnist þess einnig í bókinni þegar hann var í háskólanámi og fékk sumarstarf hjá Árnastofnun. Þar komst hann í kynni við Konungsbók Eddukvæða. Í umfjöllun um þetta sumar fléttar hann áhyggjur sínar um hálendið. Þegar Andri fær síðar tækifæri til að taka viðtal við Dalai Lama er hann á kafi í málefnum hálendisins. „Dalai Lama talaði um það að ef jöklarnir færu yrði milljarður manna í hættu. Þegar ég fæ slíkar upplýsingar setur það áhyggjur mínar um einhverja heiðardali á Íslandi í ákveðið samhengi. Hver skynjar milljarð manna? Hvaða merkingu hefur það? 1% af milljarði eru 10 milljónir. Við erum að tala um eitthvað sem sprengir alla skala,“ segir Andri. Í kjölfarið fer Andri að þróa þessar hugmyndir í fyrirlestra sem hann ferðast með um víðan völl. Með fyrirlestrunum áttar Andri sig á því að hann kann að segja sögur. Hann bendir á mikilvægi þess að setja þær tölur og rannsóknir sem vísindamenn setja fram í víðara samhengi. „Það má því segja að ég hafi gefist upp á bókinni svona þrisvar sinnum en alltaf haldið áfram að halda fyrirlestra. En ég sá ekki hvernig ég gæti bundið þetta saman. En ég vissi að þarna væri saga sem mig langaði að skrifa. Mig langaði að sanna að allt í heiminum sé tengt og flétta vefnað sem býr til heim þar sem amma mín, krókódílar og kjarnorkusprengjur eiga heima,“ segir Andri.

Sameiginleg skynsemi er að steypa jörðinni fram af brúninni

Líkt og mörgum er kunnugt hefur Andri Snær fjallað um umhverfismál í þó nokkurn tíma en hann hefur t.a.m. skrifað bókina Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sem kom út árið 2006. Andri segist hafa farið mikið um hálendið sem barn og horft töluvert mikið á náttúrulífsmyndir. Hann segist alltaf hafa verið meðvitaður um þessi mál og jafnframt haldið að Íslendingar væru „réttum megin“ þegar kæmi að þessum málaflokki. Andri áttaði sig þó á því að annað væri upp á teningnum þegar kom að þeim fyrirætlunum að sökkva Þjórsárverum sem eru stærsta varplendi heiðargæsa í heiminum. „Ég hugsaði með mér hvað er að gerast? Þetta var um aldamótin. En þá kunni ég í rauninni ekkert í þessu, ég vissi bara að þetta væri rangt. Mér fannst ég ekki hafa heimild til að skrifa um þetta sem málefni, ég var ekki einu sinni blaðamaður.“ Andri bætir því við að þegar Kárahnjúkamálið fór í gang hafi hann einfaldlega haft of mikinn áhuga á því svo að hann hafi átt erfitt með að einbeita sér að einhverju öðru. „Ég átta mig þá allt í einu á því að ég geti orðað hlutina svo að fólk skilji þá. Ef ég get orðað hlutina þannig að fólk skilji þá, þá er ég kannski með eitthvað sem er þess virði að gefa út í bók og miðla víðar,” segir Andri. 

Hann segir að það sama sé upp á teninginn hvað loftslagsbreytingar varðar. Hann segir að hann upplifi það oft á tíðum að fólk sé óáhugasamt um þessi mál. Hann segir jafnframt að þegar hann hafi byrjað að segja fólki frá því að hann væri að skrifa um loftslagsbreytingar hafi margir sýnt því lítinn áhuga. Hins vegar sé viðmót fólks til nýjustu bókar hans annað. „Það þarf að segja hlutina frá ólíkum sjónarmiðum, með ólíkum orðum og ólíkum myndhverfingum, því þannig skiljum við þetta. Það er eiginlega það mikilvægasta í heimi að við skiljum þetta. Starfsævi þeirra sem eru til dæmis að lesa Stúdentablaðið fjallar öll um þetta. Þetta er miðjan. Öll starfsævi þeirra sem eru í háskólanum núna snýst um nákvæmlega það að mannkynið þarf að minnka losun niður í 0 á 30 árum. Eftir það eigum við að vera búin að finna upp einhvers konar tækni sem snýst um það að binda CO2, á skala sem er á borð við alla losun heimsins í dag. Það er sturlað verkefni. Fólk talar um alls kyns hagkerfi, til dæmis í viðskiptafræði og hagfræði, af einhvers konar svokallaðri skynsemi. En nú kemur í ljós að sameiginleg skynsemi er að steypa jörðinni fram af brúninni. Þessi viðmiðaskipti eru svo stór að þau eru eiginlega ekki komin fram, en þau blunda í loftslagsverkfallskrökkunum. Við erum á mjög skrýtnum skilum þar sem við verðum að opna augun. Ef við gerum ekki grein fyrir vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir gerum við ekkert. Það er bara þannig.“ 

Andri bætir því við að þetta gildi ekki aðeins um einstaklinginn, heldur hagkerfið í heild sinni. Hann segir þetta vera ofureinfalt. Það er ekkert umdeilt að CO2 virkar sem einhverskonar einangrun. Meira CO2 einangrar jörðina meira og heldur þar af leiðandi inni meiri hita frá sólinni og þá hitnar jörðin. „Þetta er ekkert umdeilt. Þegar við tölum um að hiti jarðarinnar hækki um 2 gráður erum við að tala um meðalhita. Sem þýðir allt yfirborð jarðar. Sums staðar hækkar meðalhitinn um 6 gráður og landhiti hækkar jafnframt meira en meðalhiti jarðar. Það er alveg ljóst. Það sem aðalmáli skiptir er að við vitum að ef við hækkum meðalhita jarðar um tvær gráður þá erum við að fokka í öllu. Síðan bætist við sýrustig sjávar, sem er vonda systir loftslagsbreytinga. Sýrustig sjávar nær mörkum sem hafa ekki sést í um 50 milljónir ára og lífríkið getur aðlagað sig breyttu sýrustigi á um það bil milljón árum en það veit enginn hvort að hafið ráði við svona hraðar breytingar,“ bætir Andri við. „Þetta er svo risastórt að það er magnað að meira að segja á Íslandi sé enn þá að aukast losun,“ segir Andri.

650 Eyjafjallajöklar

Þegar Andri Snær er spurður að því hvað hann telji vera það brýnasta sem þurfi að gera í loftslagsmálum segir hann einfaldlega að það þurfi að gera allt. Breyta öllu. „Þetta eru eiginlega alveg svona 100.000  hlutir sem þarf að breyta. Öll matvælaframleiðsla til dæmis, það þarf algjör orkuskipti í samgöngum. Síðan þarf auðvitað að grípa CO2 og finna leiðir til að losna við það eins og að dæla því aftur ofan í jörðina,“ segir Andri. Þá bætir hann við að við verðum einnig að huga að neyslunni okkar og endurskoða hana frá grunni. Allt frá því hvernig við klæðum okkur, samgöngumátum okkar og matvöruframleiðslu. En það er auðvitað mjög erfitt. Andri setur fram þá spurningu hvað það sé sem við viljum skilgreina sem neyslu. Er bókin Um tímann og vatnið neysla? Eða eru það fötin okkar sem er neyslan? Andri segir okkur öll vera samofin og samháð neyslunni. Hann segir að vegna ábyrgðarleysis okkar höfum við hleypt CO2 út í andrúmsloftið okkar og nú þurfi það hreinlega að vera eitt af innviðum okkar að grípa það aftur og binda, líkt og vatnsveita, rafveita og orkuveita. Einhvers konar CO2 veita.  „Ég hef reiknað það út að mannkynið er núna eins og þau allra stærstu eldsumbrot sem orðið hafa í heiminum á síðustu milljónum ára. Eyjafjallajökull losaði um 150.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum á dag. Mannkynið losar um 100 milljón tonn á dag. Það þýðir að losun okkar sé eins og við höfum sett af stað 650 Eyjafjallajökla. Ekki tímabundið, heldur allan sólarhringinn, alltaf. Að eilífu,“ segir Andri.

Loftslagsmálin eigi að vera meginmarkmið háskólans héðan í frá

Blaðamaður Stúdentablaðsins spyr Andra Snæ hverja hann telji ábyrgð háskólans vera í loftslagsmálum. Hann segir hana algjöra og bætir því við að loftslagsmálin eigi að vera meginmarkmið háskólans héðan í frá. „Það þarf umhverfisleg forspjallsvísindi sem sýna línurit þar sem kemur fram að þetta er allt. Allar hugmyndir sem spretta út frá viðskiptafræðinni eiga að metast út frá því hvort þú sért að fara að hjálpa til við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á næstu 30 árum eða ekki. Það er sjálfselska að búa sér til eitthvað app í þeim eina tilgangi að verða ríkur og auka neyslu þína. Þetta er líka meginhlutverk félagsfræðinnar, læknisfræðinnar, verkfræðinnar og auðvitað líffræðinnar. Það þróast og verða til ný viðmið sem þrífast ekki endilega inni í gömlu deildinni því hugarfarsbreytingarnar verða ekki vegna þess að eldri kynslóðin skiptir um skoðun. Það er vegna þess að ný kynslóð kemur inn með ný viðmið.“ Andri segir að þess vegna sé mikilvægt að háskólinn sé í fararbroddi hvað þessi mál varðar. „Það er undir okkur komið að standa undir þessu núna og það væri ótrúlega fúlt ef okkur tækist þetta ekki því þá erum við endanlega búin að klúðra þessu,“ bætir Andri við.

Nemendurnir verði líka að setja kröfur og breyta háskólanum

Andri Snær segir að hinn almenni háskólanemi eigi að taka málefni loftslagsbreytinga lengra. Hann segir að það sé margt sem eigi eftir að gera og margt af því komi að mörgu leyti frá háskólanum. „Háskólar hafa verið duglegir að þróa tungutakið, aðferðirnar, koma með lausnirnar og fleira. Þær eru þróunarlegar, pólitískar, kerfislegar. Það eru miklar kerfisbreytingar sem þurfa að verða. Það þarf að setja krafta í að rannsaka þetta og hugsa hvað hvert svið getur gert til þess að ná tökum á þessu,“ segir Andri. Hann segir jafnframt að það sé margt sem hinn almenni nemandi geti gert innan háskólans. „Hinn almenni háskólanemi getur til dæmis hjólað í skólann. En líka bara með því að taka þátt í umræðunni og lyfta umræðunni innan háskólans. Nemendurnir verða líka að setja kröfur og breyta háskólanum. Þeir þurfa að biðja um að þessir hlutir séu gerðir,“ segir Andri. 

Þá segir hann að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því hversu stórvægilegar breytingar muni eiga sér stað. „Það sem við þurfum að átta okkur á er að við þurfum að gera allt. Tungumálið mun líka breytast. Femínismi er mjög gott dæmi um það hvernig við endurorðum hluti, til dæmis með orðinu hrútskýring. Margvíslegar félagslegar hreyfingar síðustu ára hafa undirbúið jarðveg svo hægt sé að tala um þetta. Það þarf mikinn skilning og mikla pólitík,“ segir Andri. Þrátt fyrir stöðuna sem við erum í megum við ekki einungis líta á þetta neikvæðum augum en Andri hvetur fólk til þess að sjá þetta sem jákvæða áskorun. „Ég sé þetta sem skapandi orku. Það þarf ekki endilega að líta svo á að það sé neikvætt að vera kynslóðin sem breytti öllu. Við erum á mjög skrýtnum skurðpunkti þar sem allt er frábært og allt er að fara til helvítis samtímis. Við þurfum að rafvæða samgönguflotann og fækka bílum um helming. Síðan þurfum við að þróa flugumferð. Við þurfum líka að endurheimta votlendi. Þetta er tæknilegt, þetta er þróunarlegt, þetta er bókstaflega allt. Það er ekkert eitt heldur allt. Þegar ég tala við yngra fólk þá segi ég gjarnan að á meðan við höfum enn þá smá tíma til að glíma við þetta vandamál þá er þetta meira og minna bara skapandi áskorun. Það er í raun jákvæð áskorun að vera hluti af því vandamáli. En eftir 50 ár þegar við verðum kominn í einhverjar björgunaraðgerðir þá er þetta ekki jákvæð áskorun. Þá er það allt annað ástand.“ 

Andri segist reyna að gera allt sem hann geti í þágu umhverfismála. Til að mynda með ritun bókarinnar Um tímann og vatnið en hann situr einnig í stjórn Yrkjusjóðar Vigdísar sem gefur grunnskólabörnum trjáplöntur. Hann segist þó vera flæktur inn í þennan heim eins og hann er. „Ef ég væri búinn að fjarlægja mig gjörsamlega og væri algjörlega kolefnissporslaus þá væri ég ekki heldur marktækur. Þá væri ég svo skrýtinn,“ segir Andri. 

Við þurfum að sjá mælanlegar, raunverulegar og þungar breytingar

Að lokum er Andri spurður um framtíðarsýn sína og hvort hann sé bjartsýnn. Hann svarar því að framtíðarsýn hans sé sú að við sköpum framtíðina, að hún sé að miklu leyti undir okkur komin og að framtíðin byggist á því sem við gerum. „Þannig ef við gerum ekki neitt þá er ekki framtíð. Þá erum við að tefla mjög djarft. Við þurfum að sjá mælanlegar breytingar, raunverulegar og þungar breytingar.“ Andri gagnrýnir jafnframt aðgerðarleysi stjórnvalda og það einkum í ljósi Parísarsáttmálans. „Það er svo magnað að það má aldrei trufla okkur. Þetta er allt eitthvað voða flókið. Bensínbíllinn veldur vandræðum og losar endanlegt magn af koltvíoxíði sem fer út í andrúmsloftið og verður þar í mörg þúsund ár. Það munar um allt sem fer út í andrúmsloftið. En auðvitað þarf að fylgja vísindum. Þetta mega ekki vera einhverjir plástrar eða þykjustuaðgerðir. En það má ekki trufla okkur. Er ekki eðlilegt að þegar svona alvarleg krísa kemur upp að við finnum fyrir því á einhvern hátt? Eða er markmiðið að truflast ekki neitt? Í Parísarsáttmálanum var 2C° hækkun samþykkt og þá vissu menn að flest kóralrif heimsins væru að deyja. Ég hugsaði með mér hvort að það væri ekkert sem ég ætti að gera sjálfur? Hvort það ætti ekki að banna mér að keyra bíl einu sinni í viku eða á tíu daga fresti? Jafnvel bara einu sinni í mánuði. Var ég ekki beðinn um smá minnkun á neinu? Er ég þá svona mikilvægur? Er ég mikilvægari en kóralrifin? Elskar kerfið sem ég bý við mig svona mikið að það er tilbúið að leyfa mér að truflast ekki neitt? Steve Jobs tók af mér snúruna og geisladrifið, hann var alltaf að trufla mig. Afhverju má ekki trufla okkur neitt? Það er vísindalega sannað að við þurfum að breyta okkur. En breytumst við nokkuð eitthvað fyrr en við erum trufluð?“