Heimaþjálfun

Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir

Ef þú ert á höttunum eftir grein sem fjallar um útivist, þá er þetta ekki grein fyrir þig. Þú munt ekki finna neinar ábendingar um hópíþróttir eða íþróttaviðburði, enga upptalningu líkamsræktarstöðva, og alls engin kraftaverkaráð um hvernig eigi að lifa af útihlaup í stingandi köldu roki. Þessi grein er fyrir þau sem eru búin að fá nóg af því að vera kalt, bæði innan dyra og utan, þau sem geta ekki farið í líkamsræktarstöðvar vegna þess að annað hvort vilja þau ekki eyða peningunum sínum í þær, eða hafa hreinlega enga hugmynd um hvar þær eru að finna. Þetta er fyrir þau sem eru í sóttkví eða kjósa bara að vera innandyra til að forðast Orwellískan vírus (orðatiltæki sem þýðir hérna „vírus sem hefur stuðlað að samfélags- og efnahagslegu hruni“).

Hræðist ei, því hið góða íþróttasinnaða starfsfólk Stúdentablaðsins færir ykkur eftirfarandi leiðarvísi íþróttamannsins um hvernig á að ná fram svita og vöðvaspennu til að lifa af innan veggja heimilisins. Eftirfarandi er kynning á nokkrum af bestu íþróttarásum sem hægt er að leita til, án þess að þurfa að yfirgefa öryggi og hlýju stofunnar þar sem þú vilt í rauninni bara getað legið fyrir, borðað pizzu og hverfa á vit Netflix.

Graphic/Margrét Aðalheiður Önnu-Þorgeirsdóttir

Graphic/Margrét Aðalheiður Önnu-Þorgeirsdóttir

 

Brosmilda Sydney 

Ef þú vilt brosa meðan þú svitnar og láta blóðþrýstinginn hækka þá er Sydney Cummings, sem er yfirfull af jákvæðni og hlýju (án gríns), manneskjan fyrir þig. Sydney er svo glaðleg og einlæg sál að við veltum fyrir okkur hvort hún geri sér enga grein fyrir hvernig þetta ár hefur í raun og veru verið. Fullkomin leið til að ýta frá sér öllum faraldstengdum áhyggjum. Æfingar Sydney færa þér barnslega gleði í líf þitt og minna þig um leið á alla þá staði sem líkami þinn getur mögulega fundið til. Auðvelt er að fylgja Sydney Cummings á YouTube. Gleðilegan svita!

 

SELF

SELF rásin býður upp á breitt svið æfinga sem henta fullkomlega í sóttkví og fyrir lífið innandyra. En fyrst kemur smá viðvörun: ekki gera þau mistök að skruna niður til að skoða athugasemdirnar og sjá hversu erfiðar þessar æfingar reyndust öllum öðrum sem hafa reynt að gera þær. Það mun einungis letja þig frá því að hreyfa þig, á sama hátt og það er letjandi að horfa á beljandi rigninguna og brjálað rokið fyrir utan hjá þér þegar þú veist að þú átt eftir að fara út og versla í matinn. Hlífðu þér við þessum ónauðsynlegu áhyggjum og svitnaðu eins og enginn sé morgundagurinn. Hvort sem þú notar einhver lóð eða ekki, þá munu SELF æfingarnar veita þér vellíðan – þú munt vera ánægjulega sár. 

 

Umbúðalausa Pamela Reif

Suma daga er fólk ekki í stuði til að hlusta á TED-legar hvatningarræður á meðan verið er að æfa, og í þeim tilfellum er Pamela Reif þjálfarinn þinn. Rólegar en beinskeyttar æfingar hennar veita þér nægt rými til að einbeita þér að þínum eigin hugsunum (og jafnvel setja á þína eigin tónlist) á meðan þú hellir þér út í fjölbreyttar æfingar sem keyra upp púlsinn og taka á vöðvunum þar til þú þráir aftur æfingar með jákvæðum hvatningarhrópum. 

 

FitnessBlender

Ég veit ekki hvort þú kannist við orðatiltækið „þú getur ekki búið til eggjaköku án þess að brjóta nokkur egg,“ en ímyndaðu þér núna að FitnessBlender sé manneskja sem er að búa til eggjakökuna og þú sért eggin sem stöðugt er verið að brjóta. Þessar vel hönnuðu HIIT- og líkamsþyngdaræfingar eru uppfullar af sársaukafullum rútínum, og ef þeim er fylgt rólega eftir og á hraða hvers og eins mun árangurinn ekki láta á sér standa, bæði fyrir líkama og sál. Ég mæli með að geyma þessar stífu æfingar þar til þú ert komin í æfingu, og þú skalt stöðugt drekka vatn á meðan æfingunum stendur (ekki til að forðast að þorna upp, heldur til að ná andanum, sem þú munt svo sannarlega þurfa á að halda). 

  

Velkomin í heim Girvan

Caroline Girvan er þessi strangi þjálfari sem þú veist að þú þarft í líf þitt en hefur innst inni alltaf vonað að þú myndir aldrei finna. Hún lætur hlutina gerast og það á hraðan, miskunnar- og vægðarlausan hátt. Þú þarft ekki að biðja hana afsökunar á mistökum þínum, bara þig. Girvan er þjálfari sem segir hlutina umbúðalaust, gefur engan afslátt og kýs að vinna með íþróttasinnuðu fólki. Þess vegna vil ég einungis mæla með rásinni hennar fyrir þau sem hafa nú þegar einhverja reynslu af HIIT æfingum, þar sem afleiðingarnar gætu orðið meiri en ávinningurinn. Ef þú kannast aftur á móti við HIIT æfingar og ert að leita að því að fara í gegnum skilvindu (sem í þessu samhengi þýðir „mæta andlegum og líkamlegum áskorunum sem þú vissir ekki að væru til“), þá er um að gera að slá til, en farðu þó varlega. Að mörgu leyti má segja að Girvan sé eins og hafið – ekki róleg og stillt – heldur náttúruafl sem alltaf ber að virða. 

Þetta er einungis hluti þeirra æfinga sem við mælum með á þessum tímum þegar við þurfum að vera heima, en við hvetjum ykkur til að skoða fleiri æfingar og halda orkunni í hámarki. Með öðrum orðum: við óskum við ykkur gleðilegra æfinga, fullum af svita og heilbrigðum árangri.

LífstíllKevin Niezen