Hjálparsíður og smáforrit fyrir nemendur

Þó námið virðist ef til vill einmanalegt þegar tímar eru á netinu, lesaðstöður lokaðar og lítið rými til að ræða hversdagslega um námsefnið við samnemendur, ertu ekki eitt. Þetta meina ég auðvitað bókstaflega þar sem nemendur Háskólans telja þúsundir fyrir utan alla þá sem eru í öðrum skólum, en ég vil líka benda á það hvernig tæknin getur orðið þinn besti vinur í komandi prófa- og verkefnaskilatíð.

Yfirferð og skrif á íslenskum texta

skrambi.arnastofnun.is

Skrambi les yfir íslenskan texta og leiðréttir samkvæmt íslenskum málreglum. Athugið samt að Skrambi er ekki enn orðinn nógu klár til að leiðrétta út frá samhengi og getur því oft misst af villum ef orðið er til í annarri beygingarmynd, o.s.frv.

malid.is

Hvort tekur maður of djúpt í árina eða árinni? Málið er aðgangur að gögnum og fræðslu um íslensku á silfurfati. Hún finnur fyrir þig allar tiltækar upplýsingar um orðið sem þú leitar að þannig þú þarft ekki að vesenast í mörgum orðabókum eða vefsíðum. Málið er líka til sem smáforrit fyrir Android síma og spjaldtölvur.

snara.is

snara.png

Hver háskólanemi í námi sem krefst mikils lesturs og skriftar ætti að splæsa í áskrift að Snörunni. Í henni er hægt að fletta upp í íslenskri, enskri, danskri, pólskri, þýskri, spænskri, franskri, ítalskri og grískri orðabók, og á íslensku eru uppflettiritin 13, en 11 á ensku. Í stuttu máli, mun ítarlegri, áreiðanlegri, gagnlegri og fræðilegri síða en Google Translate. Ef þú hefur ekki hug á því að borga fyrir Snöruna er hún opinn öllum á neti Háskólans eða ef þú ert með háskólanettengingu í gegnum netið.

bin.arnastofnun.is

Ertu ekki alveg viss hvort það á að segja hönd eða hendi í nefnifalli eintölu? Eða má kannski segja bæði? Beygingarlýsing íslensks nútímamáls kemur til bjargar í hvaða beygingarklandri sem þú lendir í, hún leysir úr deilum við matarborðið og gerir þér kleift að sjá hvort keppendurnir í Kappsmáli eru alveg úti að aka áður en Bragi Valdimar segir þér það.

timarit.is

Ef þú ert í vafa um hvaða tilbrigði orðs sé „réttara“ að nota og hefur gúglað frá þér allt vit en kemst ekki fyrir þitt litla líf að niðurstöðu, þá er ágætt að hafa timarit.is við höndina. Þumalputtareglan er sú að það tilbrigði orðsins sem er eldra, er réttara. Timarit.is er líka sniðugt ef þú ert forvitið um aldur nýyrða eða finnst bara gaman að nördast aðeins á netinu. 


Heimildaskráning

MyBib

MyBib er Chrome viðbót sem hægt er að sækja í gegnum Google galleríið. MyBib getur hjálpað þér að skrá netheimildir í því heimildakerfi sem þér finnst best með því að smella á litla táknið fyrir viðbótina efst í hægra horninu. Þú getur hópað öllum netheimildunum fyrir ákveðna ritgerð eða verkefni í möppur, afritað skrána í heild sinni og límt í skjalið þitt. Farðu samt gaumgæfilega yfir heimildaskrána, MyBib er ekki 100% áreiðanlegt, sér í lagi með íslenskar reglur, en það er ágæt beinagrind og flýtir fyrir.

skrif.hi.is/ritver/ 

Ef þú treystir engum betur en sjálfu þér til að gera heimildaskrár eða þarft smá stuðning í yfirferð á MyBib heimildaskránni þinni er heimasíða ritversins traustur vinur. Þar má finna reglur um heimildaskráningu í þeim stöðlum sem notaðir eru í Háskólanum og skýr og skilmerkileg dæmi um uppsetningu heimilda í hvaða formi sem þú þarft. Það er ekkert sem flýtir meira fyrir í námi en að kunna að gera góða heimildaskrá og þekkja reglurnar, lærðu þessa síðu utanbókar!

Námstækni

Khan Academy

Khan Academy.png

Khan býður upp á æfingar, kennslumyndbönd og heimasvæði sem þú getur sniðið eftir þínum eigin þörfum og hraða í námi. Khan býður upp á mikið af efni fyrir fólk á sviðum eins og Verkfræði- og náttúruvísindasviði og Félagsvísindasviði. Þetta er sniðug síða til að dýpka skilning á námsefninu og hafa yfirlit yfir námið.

YouTube

Ef Hank Green kom þér í gegnum náttúrufræði í framhaldsskóla þá ert þú líklega ekki eitt. YouTube er ótrúlegur, ótæmandi brunnur fyrir smá aukahjálp í námi, sama hvort það er marxísk bókmenntafræðileg greining á Konungi Ljónanna eða stærðfræðiáfanginn sem þú vissir ekki að þú þyrftir að taka til þess að verða stjórnmálafræðingur. Námstækni er mjög einstaklingsbundin og fyrir þá sem finnst erfitt að meðtaka mikinn texta og finnst betra að læra sjónrænt getur YouTube verið algjört bjargræði, sér í lagi á tímum fjarnáms.

Quizlet

Það þarf ekki að kynna Quizlet fyrir félagsvísinda- og málabrautapésunum úr framhaldsskóla en það er algengur misskilningur að Quizlet gagnist bara í utanbókarlærdómi og tungumálanámi. Það er hægt að færa nánast hvaða námsefni sem er inn í Quizlet þótt það krefjist mismikillar útsjónarsemi. Að lesa fræðitexta með það í huga að brjóta hann upp í minnisspjöld getur fært dýpri og betri skilning fyrir sjónrænu námstæknipjakkana.

Skólaskipulag

Notion

Notion

Notion

Notion er skipulagsforrit fyrir síma og tölvur sem gerir þér kleift að hafa yfirsýn með verkefnum og náminu hvar sem er. Í Notion er hægt að geyma glósur, leslista, verkefnalista og vikuskipulag allt á einum stað og er tilvalið fyrir þá sem týna skipulagsdagbókunum sínum alltaf eftir þrjár vikur og fylgja bara flæðinu eftir það.

Momentum

Momentum er Chrome viðbót sem opnar stílhreint heimasvæði í hvert sinn sem þú býrð til nýjan glugga eða flipa í Chrome. Það er hægt að sníða heimasvæðið svolítið eftir eigin höfði í ókeypis útgáfunni en að öllu leyti í keyptri útgáfu. Í mínu heimasvæði er ég með klukku og verkefnalista dagsins en það er hægt að bæta við upplífgandi tilvitnunum eða möntrum.

Canvas

Canvas þarf vart að kynna en það er nýja skipulagskerfi Háskólans. Canvas er líka með smáforrit fyrir síma, Canvas Student, sem auðveldar nemendum að fylgjast með námsframvindu sinni á aðgengilegan hátt hvar sem er. Forritið sendir líka tilkynningar þegar ný verkefni eru sett inn, einkunnir birtast og fyrirlestrum er hlaðið upp. 


Einbeiting(arskortur)

Forest

Forest.png

Einbeitingarforritið Forest er til bæði fyrir síma og sem Chrome viðbót. Þú plantar trjám í ákveðið langan tíma og til þess að tréð þitt deyi ekki máttu ekki fara í símann eða heimsækja ákveðnar heimasíður í þann tíma. Með tímanum ræktarðu svo upp þinn eigin skóg sem þú getur deilt með félögum þínum. 

WrittenKitten

Að lokum má vekja athygli á vefsíðunni WrittenKitten.co þar sem þú færð sæta kisumynd í verðlaun fyrir hver 100 orð sem þú skrifar. Þú getur líka stillt orðafjöldann og þetta er fullkomin hvatning til að drífa sig í að skrifa næsta kafla í ritgerðinni sem situr á hakanum, eða skemmtilega grein í Stúdentablaðið.