Hvar er nýja stjórnarskráin? Viðtal við Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, aðgerðasinna.

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Frá því í sumar hefur hópur fólks haft hátt um stjórnarskrármál hér á landi. Hópurinn rennur undan rifjum Stjórnarskrárfélagsins með Katrínu Oddsdóttur í fararbroddi. Stjórnarskrármálið er langt og umdeilt mál sem á rætur sínar að rekja til tímabilsins eftir efnahagshrunið 2008.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði fram tillögu um að endurskoða þyrfti núverandi stjórnarskrá með aðkomu íslensku þjóðarinnar. Haldinn var þjóðfundur þar sem u.þ.b. 1000 manns úr öllum stéttum komu saman og lögðu línurnar fyrir inntaki nýju stjórnarskrárinnar. Í kjölfarið var kosið til stjórnlagaþings. Kjósendur áttu að velja 25 fulltrúa til setu á þinginu en frambjóðendur voru um 500 talsins. Framkvæmd kosninganna var kærð til Hæstaréttar, meðal annars á þeim grundvelli að kosningaleynd hafði ekki verið tryggð og Hæstiréttur úrskurðaði kosningarnar ólögmætar. Í kjölfarið var heiti þingsins breytt í Stjórnlagaráð og bauðst sömu kjörmönnum seta í ráðinu. Stjórnlagaráð hafði það hlutverk að vinna úr umræðum Þjóðfundarins og lauk starfi sínu með því að skila inn tillögum að nýrri stjórnarskrá í júlí 2011 til forseta Alþingis.


Meirihluti vildi nýja stjórnarskrá

Árið 2012 efndi Alþingi til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs. Kosningin fól í sér spurningar um hvort að einstök ákvæði ættu að vera í stjórnarskránni. Til dæmis var spurt hvort ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og ákvæði um jafnt vægi atkvæða á landinu ætti að vera í nýju stjórnarskránni. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sýndu fram á að um 2/3 kjósenda samþykktu að tillögurnar ættu að vera „lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“ 

„Núverandi stjórnarskrá var ekki samin af þjóðinni. Jón Sigurðsson var alltaf að tala um að við þyrftum nýja stjórnarskrá.“

Í stuttu máli er þetta saga stjórnarskrármálsins sem kveikti vonarglætur Íslendinga um lýðræðislegri stjórnskipan hér á landi. Í nýju stjórnarskránni eru t.d. ákvæði um þjóðareign auðlinda, náttúruvernd og gegnsæi. Þrátt fyrir umfangsmikla vinnu fyrir áratugi síðan sér ekki enn fyrir endann á henni. Á þessu ári hafa aðgerðasinnar tekið höndum saman og krafið stjórnvöld um svar. „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ er stenslað á stéttirnar og kallað á götum úti.

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir er í hópi þessara aðgerðasinna. Hún hefði átt að byrja í Harvard-háskóla í haust en vegna faraldursins stundar hún nú nám við lýðskólann á Flateyri. Gunnhildur segist hafa tekið mikinn þátt í loftslagsverkfallinu og í gegnum það starf hafi hún kynnst Katrínu Oddsdóttur, lögfræðingi og formanni Stjórnarskrárfélagsins.

„Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki verið svona. Að stjórnvöld væru að hunsa lýðræðislegar kosningar. Og ef svo væri, af hverju væru ekki allir brjálaðir? Þetta meikaði ekki sens fyrir mér.“ Hún fræddi sig um málefnið með hjálp foreldra sinna og fannst þörf vera á meiri umræðu á samfélagsmiðlum. Gunnhildur starfar náið með Ósk Elfarsdóttur, lögfræðingi. „Ég byrjaði á TikTok og hún á Instagram og síðan þá höfum við verið með ákveðna herferð um málið síðan í sumar. Þetta var eiginlega fullt starf hjá okkur um tíma. Þetta var mjög gaman, að nýta sér aðferðir sem hafa kannski ekki verið prófaðar á Íslandi.“ Aðgerðarstefna nýju stjórnarskrárinnar hefur vakið mikla athygli og vill Gunnhildur meina að hún nái betur til yngri markhópa með þessari miðlun. „Unga kynslóðin þarf að vita af þessu og þá þarf að stofna Instagram og TikTok reikninga. Mikið af upplýsingamiðlunarhlutverki okkar hefur verið að lesa mastersritgerðir og færa það efni yfir í tiktok. Að mínu mati er það listform.“

 

Mynd / Owen Fiene

Mynd / Owen Fiene

Stjórnarskrá er samfélagssáttmálinn

 Stjórnarskrármálið er um það bil tíu ára gamalt og bæði Gunnhildur og Ósk sitthvorum megin við tvítugsaldurinn. Gunnhildur segist ekki finna fyrir klassískum aldursfordómum í sinn garð.

„Ósk er náttúrulega með master í lögfræði,“ segir Gunnhildur. „Jú, það eru fordómar í samfélaginu gagnvart því að ungt fólk tjái sig um ákveðin mál en það er líka sama fólkið sem sagði að listamenn ættu ekki að tjá sig um nýju stjórnarskrána.“ Að hennar mati er það röng nálgun þar sem stjórnarskrá hvers ríkis er samfélagssáttmáli sem varðar alla íbúa. „Stjórnarskrá getur verið það sem við viljum að stjórnarskrá sé.“

Stjórnarskrárfélagið var stofnað árið 2011. Af hverju ætli hávaðinn í kringum málið hljómi núna? Svarið gæti tengst aðdragandum að aðgerðum félagsins síðustu mánuði. „Það var aldrei ákveðinn tímapunktur sem það mátti vera formlega brjálaður. Alþingi sagðist ætla að afgreiða þetta. Það er ekki fyrr en núna þegar þau byrja að leggja fram sínar eigin breytingar á stjórnarskránni. Við erum búin að sjá þær og þær eru ekki nálægt breytingum Stjórnlagaráðs.“


 

Tvær útgáfur af nýju stjórnarskránni

Nú í október tilkynnti Katrín Jakobsdóttir að tvö ákvæði tillagna Stjórnlagaráðs ættu að vera tekin fyrir á þingi. Gunnhildur segir þetta ekki vera rökrétta þróun. „Þarna er verið að mála ferli Stjórnlagaráðs sem eitthvað sem gerðist allt í einu. Að mínu mati ertu þar með miklu betra úrtak af þjóðinni, með þjóðfundi og stjórnlagaráði, heldur en með formönnum stjórnmálaflokka.“

Samkvæmt Gunnhildi eru til tvær útgáfur af nýju stjórnarskránni. Önnur þeirra eru tillögur Stjórnlagaráðs, hin útgáfan er frumvarp Pírata og Samfylkingarinnar sem tekur tillit til endurmats Feneyjarnefndarinnar og lögmannanefndar Lögmannafélag Íslands. Gunnhildur segist persónulega fylgja tillögum Stjórnlagaráðs vegna þess að Alþingi eigi ekki að gegna hlutverki þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafi. Ekki sé rökrétt að velja úr og bæta núverandi stjórnarskrá. „Núverandi stjórnarskrá var ekki samin af þjóðinni. Jón Sigurðsson var alltaf að tala um að við þyrftum nýja stjórnarskrá.“

Þjóðaratkvæðagreiðsluna er hægt að gagnrýna að vissu marki. Hún var í fyrsta lagi ráðgefandi. Í öðru lagi var kjörsóknin árið 2012 rétt undir 50%, en engin skilyrði eru í íslenskum lögum um lágmarkskjörsókn. Gunnhildur bendir réttilega á að „allar þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir utan Icesave-lögin hafa verið ráðgefandi. Þrátt fyrir það hefur þeim öllum verið fylgt, jafnvel þó kjörsókn hafi verið lægri.“ Nefnir hún til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám áfengisbannsins árið 1933 þar sem kjörsókn var 45%. „Á þessum tíma voru aðgerðir teknar, sem minna helst á Bandaríkin í dag, þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvöttu flokksmenn sína til þess að kjósa ekki og frömdu málþóf á afgreiðslu stjórnarskrárinnar eftir að meirihluti þjóðar samþykkti hana í kosningu. Í dag gagnrýna þeir málið vegna lágrar kjörsóknar sem var bókstaflega þeim að kenna þar sem þeir hvöttu flokksmenn til þess að vera heima.“

Þrátt fyrir þessa gagnrýni er staðreyndin sú að meirihluti kjósenda kaus upptöku nýju stjórnarskrárinnar. Í sinni einföldustu mynd snýst hið umdeilda stjórnarskrármál um að stjórnvöld virði þjóðaratkvæðagreiðsluna sem haldin var árið 2012.