Fjarnámsráð í boði sviðsráða

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir



Háskólanám er snúið, ekki síst þegar staðnám verður fjarnám og utanumhald og bakland eru af skornari skammti en ella. Nemendur skólans þurfa þó ekki að örvænta því sviðsráðin hafa ákveðið að deila úr viskubrunnum sínum nokkrum ráðum til samnemenda sinna í fjarnámi.




Hugvísindasvið:

Réttur nemenda til sértækra úrræða

Nemendur við Háskóla Íslands, sem eru með fötlun eða sértæka námserfiðleika sem á einhvern hátt geta verið hindrun í háskólanámi, eiga rétt á að nýta sértæk úrræði lögum samkvæmt. Hægt er að sækja um þau á hverju misseri fyrir sig í gegnum Náms- og starfsráðgjöf. 

Ritverið

Háskólinn starfrækir ritver þar sem nemendur geta sótt ráðgjöf framhaldsnema sem menntaðir eru í ritstörfum og ráðgjöf. Þangað er hægt að fara með verkefni jafnt stór sem smá, lokaritgerðir eða stíla. Hægt er að bóka tíma á heimasíðu ritversins, ritver.hi.is

skrambi.arnastofnun.is

Skrambi les yfir textann þinn og merkir við algengar stafsetningarvillur eða innsláttarvillur.

Horfðu aftur á fyrirlestrana fyrir próf

Það getur verið gagnlegt að heyra aftur það sem kennarinn hefur að segja, það stendur ekki allt á glærunum!

Neðsta hæð á Þjóðarbókhlöðunni

Þar er að finna Íslandssafn, Handritadeild og Kvennasögusafnið. Ekki bara gaman að skoða heldur leynast þar ef til vill góðar heimildir eða kveikjur að ritgerðarefni!

Skiptu lestrinum niður á daga

Skoðaðu námsáætlun og deildu lestrarskyldunni niður á daga, þá sérstaklega í þungum kúrsum. Lítið efni yfir marga daga er ekki eins óyfirstíganlegt og mikið yfir fáa daga.




Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Skipulag

Skipuleggðu vikuna á hverju sunnudagskvöldi. Yfirsýn léttir álagið og spornar gegn frestun.

Hittu vini

Horfðu á fyrirlestrana með vinum, þið getið kíkt á heimadæmi hvers annars og hjálpast að. Þið eruð ekki ein í náminu. Mundu líka að það borgar sig að vingast við duglega og klára fólkið, það mun bjarga þér.

Hraðaðu upptökum á fyrirlestrum

Allt annað en tvöfaldur hraði er tímasóun. 

Láttu símann fjúka

Þú ert aldrei að fara að klára þessi heimadæmi ef þú ert endalaust á Instagram. Drífðu þetta af!

3. hæðin í VR

Nýttu þér aðstöðu sviðsins! Á þriðju hæðinni eru bestu borðin fyrir hópaverkefni, mesta stemningin á kvöldin, besta vatnið, bara nefndu það.

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Kaffi, nóg af kaffi

Það er ekkert hernaðarleyndarmál að kaffið kætir og bætir. Seinni uppáhelling dagsins í Tæknigarði er betri en sú fyrri. Þetta er mikilvægt að muna.

Forgangsraðaðu

Verum alveg hreinskilin, það er ekki alltaf tími til þess að gera allt. En dæmatímar eru mikilvægari en fyrirlestrar sem flækja allt ef þú skilur ekki reikningana.

Þú ættir ekki endilega að lesa bókina

Eða, reyndu að minnsta kosti að komast hjá því, tímasparnaður er mikilvægur. Kíktu frekar á Khan eða YouTube til að fá dýpri skilning á efninu.

Deildu með öðrum

Ekki vera fávitinn sem neitar að deila svörum, við erum öll í sama harkinu.



Félagsvísindasvið

Haltu í rútínuna
Það getur verið erfitt að halda góðu skipulagi, hvað þá á tímum sem þessum. Það er agalega freistandi að sofa aðeins lengur út á morgnanna og horfa bara á þennan fyrirlestur aðeins seinna í dag, en það kemur manni töluvert meira í skólagírinn að horfa á fyrirlestra á skipulögðum tímum og reyna að læra eins og um hefðbundinn skóladag sé að ræða.

Afmarkaðu lærdómstíma
Til þess að koma þér í lærdómsgír er oft gott að afmarka lærdómsstundirnar á einhvern hátt. Það getur þú t.d. gert með því að læra á ákveðnum stað heima hjá þér eða hlusta á sömu/svipaða tónlist eða white noise á meðan þú lærir. Við mælum sérstaklega með Raining Forest Noise á Spotify.

Nýttu þér tæknina
Canvas, Teams og Zoom eru frábær tól sem nemendur ættu að nýta eftir fremsta megni. Í Canvas er hægt að stofna námshópa í hverju námskeiði fyrir sig og halda þannig utan um hópaverkefni o.fl.. Svo eru Teams og Zoom  tilvalin til að taka stöðuna á samnemendum sínum og spjalla um allt mögulegt.

Ekki hika við að leita þér aðstoðar

Það auðveldar námið gífurlega að geta leitað til samnemenda, kennara og starfsfólks skólans þegar á reynir. Ekki hika við að heyra í kennara, námsráðgjafa eða einhverjum sem að þú heldur að geti aðstoðað ef þú skilur ekki námsefnið, átt í erfiðleikum með verkefni eða finnst þú ekki finna þig í náminu.

Hugsaðu vel um þig

Það er ótrúlega mikilvægt að huga að andlegu hliðinni og eigin vellíðan þegar kemur að námi. Að halda í góða rútínu er oftar en ekki liður í því, en litlu hlutirnir skipta oft sköpum. Taktu þér reglulegar pásur, borðaðu reglulega og settu þér markmið. Mundu líka að ef að markmiðasetningin gengur ekki eftir er það enginn heimsendir - það kemur dagur eftir þennan dag. 





Heilbrigðisvísindasvið:

Appið Forest

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Það kostar smá en þetta er eina appið sem nær að halda mér við efnið. Þú plantar tré í appinu og það deyr ef þú notar símann þinn í eitthvað annað, þ.e. þú getur ekki gert annað en að læra á meðan tréð er að vaxa. Sniðugt er að „keppa“ við vini sína, t.d. hver náði að planta flestum trjám í dag. Það er líka kostur að þú getur plantað alvöru trjám í gegnum appið - áfram umhverfið!

YouTube

YouTube hefur reynst vel þegar hugtök í líffræði og efnafræði flækjast fyrir fólki. Við mælum með rásum á borð við Ninja Nerd Science og Armando Hasudungan.

To-do listar

Listar geta veitt yfirsýn yfir skyldur og verkefni dagsins eða vikunnar og það getur verið gott fyrir sálina að strika yfir það sem búið er að gera. Gangið samt hægt inn um gleðinnar dyr, því þeir geta líka ýtt undir stress hjá kvíðapésunum.

Breyttu um umhverfi

Það er oft erfitt að læra endalaust á sama stað, og þá er gott að fá smá tilbreytingu. Bara það að sitja við eldhúsborðið eða snúa skrifborðinu í aðra átt hjálpar. Svo er líka hægt að læra hjá maka, foreldri eða vini.

Mættu í fjartímana

Þó þeir séu rafrænir, og þó þú náir kannski ekki að einbeita þér 100% er það samt betra en ekkert, jafnvel þótt þú sért bara hálfsofandi uppi í rúmi. 

Stilltu hámarkstíma á samfélagsmiðla-öpp í símanum

Sérstaklega í prófatíð. Það er hægt að breyta þessu í stillingum símans, t.d. hámark 2 tímar á Twitter á dag. Þetta kemur í veg fyrir að þú festist óvart í símanum í marga klukkutíma. 

Settu þér markmið fyrir hvern dag

Til dæmis klára að lesa þennan kafla, byrja á þessu verkefni, senda þennan póst o.s.frv. Lítil markmið sem auðvelt er að ná peppa þig áfram!

Fáðu þér ferskt loft

Það er gott að fara út á milli mismunandi verkefna dagsins, t.d. fara í göngutúr eða gera eitthvað. Þá býrðu til smá „samgöngur“ eins og er eðlilegt í staðnámi. 

 

Menntavísindasvið

Nýttu þér tæknina! Hladdu niður Öppum

Til dæmis SmáUglan og Canvas til að halda utan um námið á ferð og flugi, og Outlook fyrir HÍ tölvupóstinn. Appið Notion er svo sjúklega sniðugt skipulagninga-app sem er bæði fyrir tölvu og síma. Þar er hægt að skrá niður kennsluáætlun, lesefnislista og skiladaga á verkefnum og hafa það allt á sama stað!

skrif.hi.is/ritver/ 

Frábær vefsíða með leiðbeiningum um hvernig eigi að vísa í og vitna til heimilda í ritgerðum eða öðrum ritunarverkefnum.

Kauptu námsbækurnar á skiptibókamarkaði Menntavísindasviðs á Facebook

 Þar er hægt að auglýsa eftir bókum eða auglýsa bækur til sölu og fá námsbækurnar á spottprís!

Taktu þátt í félagslífinu!

Félagslífið á MVS er mjög sterkt, þar fá nemendur tækifæri til að kynnast á milli námsleiða, þar sem nemendafélögin halda stóra viðburði saman. Nemendafélög MVS; Tumi, Kennó og Vatnið eru öll með hópa fyrir nemendur á Facebook, og þangað koma oft upplýsingar fyrir nemendur m.a. um viðburði á vegum nemendafélagsins.

Nýttu þér námsaðstöðu sviðsins!

Skúti er aðstaða fyrir nemendafélög og sviðsráð MVS, en ef hurðin er opin þá er öllum velkomið að koma og læra eða spjalla við þá sem eru inni. Það má segja að matsalurinn hjá Hámu í Stakkahlíð sé hjarta byggingarinnar og þar er yfirleitt mikið líf og fjör. Í Kletti, eða K‘inu, er einnig gott vinnurými, bæði fyrir einstaklinga og hópa. Að lokum ber að nefna bókasafnið í Stakkahlíð, en við á MVS erum mjög heppin að vera með aðgengi að frábæru bókasafni í byggingunni okkar. Þar er lærdómsaðstaða, ritver MVS, jógahorn og aðstaða fyrir hópa til að hittast og læra (athugið samt að það þarf að panta og borga fyrir þá aðstöðu).