Tyggjóið burt!

Mörg hafa eflaust rekið upp stór augu í sumar þegar þau sáu mann á áttræðisaldri þeysast um bæinn á rafskutlu, í gulu vesti og með einhvers konar skrítna ryksugu á bakinu. Tyggjóklessubaninn, eins og sumir kalla hann, sat fyrir svörum Stúdentablaðsins, sem gat ekki beðið eftir að fá að kynnast þessum áhugaverða manni, sem setti sér það markmið að hreinsa sem flestar tyggjóklessur af gangstéttum og götum miðborgarinnar á 10 vikum.

Guðjón Óskarsson / Mynd af Facebook síðu Tyggjóið burt!

Guðjón Óskarsson / Mynd af Facebook síðu Tyggjóið burt!

Geturðu sagt Stúdentablaðinu frá þér, í stuttu máli? (Nafn, aldur, menntun/starfsferill og áhugamál, t.d.)

Guðjón Óskarsson heiti ég, og er sjötugur. Ég hef verið í skóla lífsins bara, ég fór ungur að vinna og hef verið minn eigin herra allt mitt líf, mitt eigið fyrirtæki. Ég hef unnið í ýmsum störfum, meðal annars á Spáni og það var þar sem ég reyndi þetta fyrst fyrir mér, að þrífa tyggjó. En það tókst ekki, það var vitlaust ár. Ég var þarna haustið 2008 og það bara gekk ekki. 

Hvað kom til að þú settir þér það markmið að hreinsa sem flestar tyggjóklessur í Reykjavík á 10 vikum?

Við ræddum það fram og til baka, ég og bróðir minn sem ég bý með. Við veltum því mikið fyrir okkur hvað ég myndi gera þegar ég var búin að missa vinnuna, sem sneri að markaðsmálum í hótelgeiranum, því mig langaði að gera eitthvað, og það átti að vera uppbyggjandi fyrir mig sjálfan. Og það átti að vera eitthvað jákvætt. Þá datt okkur í hug að rifja upp tyggjóhreinsunina, það myndu allir verða ánægðir með það, sérstaklega ef ég gerði það á eigin vegum. Og það varð úr og ég setti mér þetta markmið að taka eins mikið af tyggjóklessum á 10 vikum og ég gæti. Brynjólfur sonur minn sá svo um samfélagsmiðlana og gerði það mjög vel, hélt verkefninu lifandi og birti myndir og fleira á hverjum degi.

Afhverju tyggjó?

Sko, mér hefur alltaf fundist þetta svo ljótt og er illa við að sjá þetta. Þegar ég bjó á Spáni og fékk hugmyndina fyrst úði og grúði af þessu og af því að það rignir svo lítið þar festist sótið af bílunum auðveldlega við tyggjóklessurnar og þær verða svartar. Aftur á móti eru þær líka áberandi hér á Íslandi af því það rignir svo mikið og þær haldast hvítar og stinga í stúf við malbikið.

Hvernig nær maður tyggjóklessum af götunni?

Ég er með batterísdrifið tæki og í því er vökvi sem tækið hitar upp í 100 gráður og vökvinn, sem er umhverfisvænn, og hitinn leysir upp tyggjóið og það fer í burstann. Ef það er nikótíntyggjó verð ég að losa mig við það í niðurfall eða ruslatunnur. Nikótíntyggjóið er öðruvísi en annað að einhverju leyti sem ég þekki ekki alveg deilin á, en verður til þess að það leysist ekki eins auðveldlega upp og verður að mauki og verður bara eins og grautur sem ég get hrært í. Efnablandan er eitthvað öðruvísi, þetta er ekki jafn gúmmíkennt. Ég hreinsaði einmitt Skólavörðustíginn í annað sinn um daginn og þetta var langmest nikótíntyggjó. 

Hvernig er vinnudagur tyggjóklessuhreinsarans?

Hann er frá 11 til sirka 4-5. Fjórir til fimm tímar, batteríið endist í um það bil fjóra og hálfan. Ég gerði samning við borgina sem hljóðar upp á fjóra tíma á dag en mér finnst ágætt að vinna stundum aðeins lengur til að eiga inni frítíma þá daga sem ég sé ekki fram á að komast út í október og nóvember. 


Hvernig gekk þér að fá styrki og út á hvað gengur þessi samningur sem þú nefndir?

Styrkirnir voru bara þessar 10 vikur sem verkefnið sjálft var í gangi. Ég leitaði til fyrirtækja því það er töluverður kostnaður í vökvanum og burstunum, ég fer í gegnum tvo til þrjá bursta á dag og 6 lítra af vökvanum. Kostnaðurinn er semsagt mikill, fyrir utan milljónina sem tækið sjálft kostaði. Það gekk vel að fá styrki og núna þegar ég er kominn á samning hjá borginni þá næst þetta allt saman. Samningurinn hljóðar sem sagt upp á tveggja mánaða vinnu, fjóra tíma á dag í október og nóvember.

Hvernig voru viðtökur almennings? 

Þær voru alveg ótrúlegar. Þetta er svo svakalega gefandi og jákvæðnin er svo mikil. Ókunnugt fólk kemur að máli við mig til að segja mér hvað þau eru ánægð með það sem ég er að gera þannig að þetta var rosalega gaman.

Sérðu fyrir þér að endurtaka leikinn að ári liðnu eða að verkefnið stækki í umgjörð?

Já, sko, núna hef ég ný markmið. Ég vona að ég fái aftur samning hjá borginni til að viðhalda þessum götum sem ég hef verið að hreinsa og bæta fleirum við. Borgin er samt ólíkleg til að vilja fara í götur eins og t.d. Baldursgötu, Öldugötu eða Ránargötu sem hafa ekki verið hreinsaðar í áratugi. En mig langar að fara með þetta lengra og reyna bara að hafa tyggjólaust 101 fyrir 1. júlí 2021. Það er markmiðið. Það verður auðvitað aldrei alveg tyggjólaust, en ef ég myndi bara eyða síðustu vikunni í að fara allar götur 101 þá verða alveg pottþétt ekki margar tyggjóklessur rétt eftir á, og þá næ ég þessu næstum því tyggjólausu. Vonandi vekur það aftur athygli og fær fólk til þess að tala um þetta og ef að Reykjavíkurborg fer ekki út í þessar götur sem ég tók dæmi um áðan þá gæti ég til dæmis bara boðið metrana út. Þannig fólk gæti t.d. bara keypt 10 metra af tyggjólausri Bárugötu og borgað 1.000 fyrir, eitthvað svoleiðis.

Hvar var mest af tyggjóklessum? 

Það eru svæði svona út frá Laugaveginum sem hafa verið mjög slæm. Ingólfsstræti niður að Hverfisgötu er mikill gangvegur inn í skemmtanalífið, Þingholtsstrætið og þessar hliðargötur. Bergstaðastrætið frá Laugavegi að Skólavörðustíg var mjög slæmt. Ingólfsstræti hægra meginn frá Bankastræti og alveg niður að Spítalastíg var ég með keppni á Facebook síðunni um hver gæti giskað á fjölda tyggjóklessa. Ég byrjaði klukkan tíu og klukkan sjö minnir mig að þær hafi verið eitthvað um 700. Á Smiðjustíg, sem er nú ekki löng gata, voru eitthvað um 600. Þetta var rosalegt.

Hlustarðu á eitthvað á meðan þú vinnur?

Já, ég hef verið svolítið að hlusta á hlaðvörp. Undanfarið hef ég hlustað svolítið á hann Sölva Tryggva og svo Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur. Þetta finn ég allt saman á Spotify, mér finnst skemmtilegra að hlusta á talað mál en tónlist.

Kom eitthvað þér á óvart í þessu ferli? 

Nei, ég var nefnilega alveg búinn að mála skrattann á vegginn. Ég var alveg kominn með varnarræðuna tilbúna ef ég þyrfti eitthvað að fara að rífast við Reykjavíkurborg um hvort ég mætti hreinsa þeirra götur og gangstéttir. Ætlaði að benda á ruslaplokkarana og allt. En svo var þetta bara ekkert mál. Yfirmaður þessara mála hjá Reykjavíkurborg hringdi svo í mig á öðrum degi og þakkaði mér fyrir það sem ég væri að gera og spurði hvort hann gæti gert eitthvað fyrir mig. Og ég sagði að hann mætti gjarnan gefa mér undanþágu frá gjaldskyldu í bílastæðunum, því á þessum tímapunkti var ég búinn að borga um 1.800 krónur í bílastæði á tveimur dögum. Þannig allt það versta sem ég hafði undirbúið mig undir fór á besta veg. En það sem kannski kom mér á óvart var það hvað mér var tekið ótrúlega vel. Hopp skutluleigan styrkti mig til dæmis og þá gat ég lagt langt í burtu og skutlast um bæinn til að hreinsa, sem sparaði mér sporin. Svo kom mér reyndar líka smá á óvart hvað það var mikið af tyggjóklessum, þótt ég hafi gert vettvangskannanir fyrst.