Ástin á tímum bókaormsins

8E40F410-99C0-4003-B388-4C0FAF21790E-61456-00000ED940FBACF2.jpg

Gilmore girls hafa lengi verið uppáhaldssjónvarpsþættirnir mínir. Ég hef örugglega horft á allar seríurnar í það minnsta tvisvar sinnum og einhverjar þeirra hátt í fjórum eða fimm sinnum. Ég bregð oft á það ráð að velja þátt af handahófi og byrja aftur á þáttunum út frá honum. Ég fæ einfaldlega ekki nóg. Fyrir þau sem eru ekki jafn miklir aðdáendur og ég eða hafa jafnvel aldrei heyrt þessa þætti nefnda þá fjalla þeir um mæðgurnar Rory og Lorelai. Þær stöllur búa í smábænum Stars Hollow í Connecticut í Bandaríkjunum. Lorelai eignaðist Rory mjög ung, ekki nema sextán ára gömul, en hún flúði auðuga og yfirþyrmandi foreldra sína og ól Rory upp á eigin spýtur. Rory er bókaormur sem elskar að læra en draumur hennar er að komast inn í Harvard háskóla. Þættirnir fjalla jafnframt um líf þeirra tveggja í smábænum og allt sem því fylgir, ástarmál, fjölskylduerfiðleika og vináttu.

Gilmore girls er hin fullkomni „feel good“ sjónvarpsþáttur. Sama hvað hefur gengið á í mínu lífi og hvernig sem mér líður, get ég alltaf stólað á það að Gilmore mæðgurnar muni létta í mér lundina. Þeir eru ótrúlega „wholesome“. Lífið í Stars Hollow er einfalt og þægilegt, bæjarbúar eru mjög nánir og allir þekkja alla. Þar er líka alltaf gott veður, aldrei hvassviðri eða slabb eða neitt því um líkt. Flækjur sögunnar eru ekki óþarfa dramatískar og getur jafnvel verið auðvelt að endurspegla þeirra erfiðleika við eigin raunir. Þrátt fyrir það eru persónurnar ýktar en á ólíkan máta. Lorelai er hávær, hnyttin og ákveðin kona sem elskar kaffi og skyndibita. Luke, eigandi Luke´s Diner, er líklega bældasti karlmaður sem fyrirfinnst og Taylor, borgarráðsmaðurinn, er eiginlega undir öllum kringumstæðum algjörlega óþolandi. Eins og fyrr hefur komið fram er Rory mjög metnaðarfullur námsmaður og stefnir hátt í námsferli sínum. Hún er ótrúlega klár og frambærileg og eyðir mestum frítíma sínum fyrir framan sjónvarpið með mömmu sinni eða með nefið ofan í bók. Það sem er aðdáunarvert við Rory er að allir kunna vel við hana. Allir. Enda erfitt að gera annað. Hún er góðmennskan uppmáluð. Svo er móðir hennar ekki síðri. Ef ég fengi að ráða væri ég blanda af þeim báðum.

Atburðarás þáttanna er síðan hrint af stað þegar Rory kemst inn í fínan einkarekinn skóla sem á að auðvelda henni innkomu í draumaháskólann. Líkt og flestum er kunnugt er það ekki á allra færi að eyða milljónum í skólagöngu ár hvert en Lorelai neyðist þess vegna til að kyngja stoltinu og biðja foreldra sína, sem hún hefur verið í takmörkuðum samskiptum við í mörg ár, um fjárhagsaðstoð. Þegar á því stendur kynnist Rory persónunni Dean, nýja og sæta stráknum í skólanum, einmitt um það leyti sem hún er á leiðinni í fína einkaskólann. Hvað á þá til bragðs að taka? Ástin eða menntunin? Hvað á 16 ára ung stúlka að gera í þessum aðstæðum? Bókin… eða gaurinn? Auðvitað blessast allt á endanum, líkt og það gerir alltaf hjá Gilmore mæðgunum. Það er nefnilega það fallega við þetta allt saman. Sama hvað bjátar á hjá persónum þáttanna og hversu slæmir sem hlutirnir verða geturðu alltaf reitt þig á þá sem standa þér næst. Það sama á við um áhorfendur. Sama hvað bjátar á má ávallt reiða sig á Gilmore mæðgurnar.