Leikhúsið kallar fram heita og hrífandi tilfinningu

„Það er gríðarlegt sóknarfæri á okkur að gefa ungu fólki og nýjum röddum tækifæri.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

„Það er gríðarlegt sóknarfæri á okkur að gefa ungu fólki og nýjum röddum tækifæri.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Blaðamenn Stúdentablaðsins hittu Brynhildi Guðjónsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, á skrifstofu hennar þann 9. mars síðastliðinn. Samkomubann var enn ekki skollið á og frumsýning á söngleiknum Níu líf rétt handan við hornið. Brynhildur tók við starfi leikhússtjóra í febrúar á þessu ári og leikstýrði fyrr í vetur leiksýningunni Vanja frændi í Borgarleikhúsinu. Þá var uppsetning hennar á Ríkharði III nýlega sýnd í dagskrá Borgarleikhússins Borgó í beinni sem streymt er á netinu í fyrrnefndu samkomubanni. Sýningin hlaut sex Grímuverðlaun árið 2019, meðal annars í flokkunum leikstjóri ársins, sýning ársins og leikari ársins í aðalhlutverki.

Listræn innspýting

Til að byrja með forvitnuðust blaðamenn um þau verkefni sem liggja fyrir hjá nýráðnum Borgarleikhússtjóra þessa dagana. „Það verkefni sem liggur fyrir er að raða saman frábæru leikári og sigla skútunni áfram, en inn á fersk mið,“ segir Brynhildur. Borgarleikhúsið hefur hins vegar ekki tekið á móti leikhúsgestum síðan 15. mars síðastliðinn og það hefur ýmsar áskoranir í för með sér. „Þessa dagana er ég að koma mér hægt og rólega inn í nýtt starf við nýjar aðstæður, en við erum auðvitað að eiga við fullkomlega fordæmalausar aðstæður í samfélaginu. Við erum að selja upplifun sem krefst þess að fólk komi saman og tökum eitt skref í einu. Enn sem komið er þá erum við á góðum stað,“ segir Brynhildur.

Aðspurð um hvort leikhúsgestir megi búast við stórum breytingum í Borgarleikhúsinu á næstunni segir Brynhildur svo ekki vera. „Ekki risastórum strax, en auðvitað fylgja nýjum stjórnendum alltaf einhverjar breytingar. Það kemur kannski til einhverra skipulagsbreytinga en það verður ekkert hart í bak. Við kúvendum ekki. Kortagestir og leikhúsgestir Borgarleikhússins ganga alveg að því sama.“ Brynhildur segist vilja halda í fjölbreytnina og bjóða áfram upp á eitthvað fyrir alla. „Það verður alltaf sama skemmtiferðin, það verður alltaf hægt að hlæja sig máttlausan og næra sig andlega. Við ætlum að reyna að halda fjölbreytninni en spýta svolítið í listrænt, við verðum til að mynda með tvær sýningar á Óperudögum.“

Um þessar mundir er leikárið 2020-2021 í mótun, en það er „alveg gríðarlega spennandi“ að sögn Brynhildar. Hún segir það hafa verið töluvert mótað þegar hún tók við keflinu, en til stóð að Kristín Eysteinsdóttir myndi starfa sem leikhússtjóri til næstu áramóta. „Eitthvað liggur á borðinu frá verkefnavalsnefnd og Kristínu. Við erum að raða þessu upp núna og í kjölfarið koma ráðningar á listrænum stjórnendum. Það þarf að ræða við leikhópinn okkar og svo koma mannaráðningar utan hússins.“ Brynhildur segir alltaf erfitt að sjá útkomuna fyrir sér og líkir undirbúningsvinnunni við púsluspilið Wasgij: „Það er kannski besta leiðin til að lýsa þessu, maður er að reyna að púsla myndina en sér bara viðbragðið.“ 

Sóknarfæri fyrir leikhúsið

Í Þjóðleikhúsinu er einnig nýr maður í brúnni, en Magnús Geir Þórðarson tók við starfi leikhússtjóra þar um áramótin. Brynhildur segir að íslenskt leikhúslíf muni óhjákvæmilega litast af því að nýir leikhússtjórar séu í báðum stóru leikhúsunum. „Í Þjóðleikhúsinu er tekinn til starfa gríðarlega reynslumikill og kraftmikill stjórnandi og það sem er í farvötnunum þar er það allra besta sem gat komið fyrir Þjóðleikhúsið. Sem stjórnendur siglum við þessum tveimur stóru skipum samsíða af því að það er öllum til heilla. Góð aðsókn að öðru leikhúsinu eykur aðsókn að hinu. Við þurfum að standa saman og sömuleiðis Akureyri og sjálfstæða senan.“ Þá segist Brynhildur vilja auka menningarlæsi fólks. „Sá sem er kominn á bragðið með að sjá fallega og næringarríka sögu vill meira. Þá sækir hann sér næringuna út um allt. Þannig að það eru óhjákvæmilega miklar breytingar en það eru sömuleiðis sóknarfæri, sérstaklega fyrir leikhús eins og Borgarleikhúsið sem getur leyft sér að bjóða upp á meira léttmeti í bland við listrænni sýningar.“

Eftir að Magnús Geir tók við í Þjóðleikhúsinu fluttu nokkrir starfsmenn úr Borgarleikhúsinu sig þangað. Aðspurð um hvaða áhrif það muni hafa á starfsemi Borgarleikhússins segir Brynhildur engan vera ómissandi. „Þetta var alveg vitað og sjálf var ég á leiðinni til starfa í Þjóðleikhúsinu áður en að annað kom í ljós. Það er enginn ómissandi og eins og ég hef áður sagt er þetta kjörið tækifæri til þess að hrista upp í hlutunum. Það er að koma ný kynslóð sviðslistafólks inn á markaðinn og þetta gefur okkur bara aukið svigrúm til þess að hugsa upp á nýtt og kanna nýjar lendur.“

Nýjar raddir

Undanfarin ár hefur Borgarleikhúsið lagt rækt við íslenska leikritun og sett á svið ný verk eftir íslenska höfunda. Aðspurð segist Brynhildur sjá fyrir sér að halda áfram að efla leikritun og stuðning við leikskáld. Stuttu áður en viðtalið var tekið var tilkynnt um ráðningu tveggja nýrra leikskálda við leikhúsið, en Matthías Tryggvi Haraldsson og Eva Rún Snorradóttir munu starfa sem leikskáld Borgarleikhússins á næsta leikári. „Það er gríðarlegt sóknarfæri á okkur að gefa ungu fólki og nýjum röddum tækifæri,“ segir Brynhildur. Hún segir ástæðuna fyrir því að tvö leikskáld hafi verið ráðin í stað eins vera tilraun til að sporna gegn einangrun leikskáldanna. „Ég er búin að starfa hér innanhúss núna í átta ár og hef fylgst mjög vel með leikskáldum hússins og það hefur brunnið svolítið við að mér finnst þau einangrast. Þess vegna breyttum við fyrirkomulaginu. Nú koma inn til okkar tvö leikskáld sem munu starfa saman, hjálpa hvort öðru í starfi og þegar annað þeirra er að kynna sitt verk þá heldur hitt utan um skáldið. Þannig við erum að auka súrefnisinnspýtingu inn í þeirra vinnu og þau verða aktífari.“ 

Brynhildur er hæstánægð með leikskáldin tvö sem munu skrifa verk fyrir leikhúsið í vetur. „Rödd Matthíasar Tryggva er þegar farin að hljóma erlendis, en hann var valinn á hátíðina New Nordics Festival hjá Cut the Cord leikfélaginu í Bretlandi. Þar verður sýningunni hans Griðastað leikstýrt af breskum leikstjóra sem er rosalega spennandi. Síðan er það Eva Rún sem hefur verið í sviðslistahópunum 16 elskendum og Kviss búmm bang, allt öðruvísi rödd. Það er mér mikið kappsmál að halda sem best utan um raddir framtíðarinnar.“

„Við eigum að rækta allt okkar listafólk, hver sem aldurinn er og hvert sem kynið er.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

„Við eigum að rækta allt okkar listafólk, hver sem aldurinn er og hvert sem kynið er.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Efla hlut kvenna

Í áðurnefndri uppsetningu Brynhildar á Ríkharði III var konum í verkinu gert hærra undir höfði en áður hefur verið gert í þessu leikriti. „Ég setti meira að segja inn persónu í hundrað ára gamalt leikrit sem er ekki skrifuð inn í það og dansara í ofanálag. Þetta var svona tvöfalt tækifæri fyrir unga konu.“ Aðspurð segist Brynhildur vilja efla hlut kvenna eins mikið og hægt er en bendir á að ekki sé hægt að gjörbylta leikhúsinu á einni nóttu. „Við verðum líka að vera í samtali við raunheiminn og við getum ekki snúið öllum hlutverkum við. Þegar ég setti upp Vanja frænda fékk ég einhverja gagnrýni á mig fyrir að það hafi ekki verið femínískt. En ég get ekki alltaf bara gert femíníska nálgun, ég get ekki alltaf gert sama hlutinn.“ Brynhildur segir Vanja frænda hins vegar fanga hið sammannlega. „Það er einmitt gott að horfa á þá sýningu. Hvað er Vanja frændi? Vanja frændi er leikrit um mann sem getur ekki komið tilfinningum sínum í orð, hann áreitir konu annars manns og við verðum bara að sjá það fyrir hlutinn sem það er.“

Í leikhúsunum hefur einnig borið við að leikkonur fái færri hlutverk þegar líður á feril þeirra meðan karlarnir virðast vaða í tækifærum. „Leiklistarsagan og leikhúsbókmenntirnar skrifa skækjuna, ungu stúlkuna, konuna sem þú vilt giftast og síðan koma bara móðirin, drottningin og nornin. Það er ekkert þar á milli,“ segir Brynhildur. Hún bendir á að í öðrum uppsetningum hafi kvenpersónurnar í Ríkharði III stundum verið skrifaðar algjörlega út úr leikritinu. „Það er náttúrulega forkastanlegt. Með því að lyfta undir raddir kvennanna í Ríkharði III erum við að stíga litlu skrefin og við erum líka í auknum mæli að rótera hlutverkum.“ Sjálf hefur Brynhildur farið með hlutverk Njáls á Bergþórshvoli og Davíðs Oddssonar á stóra sviði Borgarleikhússins. „Núna erum við með nokkrar leikkonur sem leika Bubba Morthens í Níu lífum sem verður frumsýnd á föstudaginn [13. mars]. Ég ætla að reyna eins og ég get að halda utan um það en það má ekki gera þetta á hnefanum. Það þarf alltaf að vera rétt farartæki. En við eigum að rækta allt okkar listafólk, hver sem aldurinn er og hvert sem kynið er.“

Leikhús fyrir ungt fólk

Aðspurð út í háan meðalaldur leikhúsgesta og aðgengi ungs fólks að leikhúsinu segir Brynhildur það vera áskorun hvers einasta leikhússtjóra. „Þetta er verkefni á hverju ári og það er ekki svoleiðis að enginn hafi pælt í því. Bara alls ekki, það eru allir alltaf að pæla í þessu. Það liggur í hlutarins eðli að sá sem er undir þrítugu á kannski ekki 6.000 krónur til þess að fara í leikhús. Við erum með ungmennakort og erum búin að reyna að hugsa ýmislegt upp. Það eru alltaf einhver tilboð til menntaskóla og annað slíkt í gangi. Það er alls ekki þannig að fólk sé ekki allt af vilja gert, við erum bara að reyna að hugsa upp hvert sé besta farartækið fyrir það.“ Brynhildur segir meðal annars standa til að bjóða upp á ódýrari miða samdægurs fyrir ákveðinn aldur.

„Við áttum okkur á að það er kannski ekki í forgangi hjá einhverjum sem er í menntaskóla eða háskóla að setja svona mikinn pening í leikhúsmiða,“ bætir Brynhildur við. „En ég meina, fólk kaupir sér einkaþjálfun, það kaupir sér skó og fer í brúnkusprey. Hvers vegna ekki að næra andann og fara í leikhús? En þetta er eilífðarverkefni og við munum halda því áfram sem best við getum.“ Hún segist vilja sjá sem mest af fólki í leikhúsinu og hvetur ungt fólk til að vera óhrætt við að kaupa miða á sýningar sem það veit ekki endilega mikið um. „Af því að það gæti komið á óvart. Og maður man bara sem barn að fyrsta leikhúsupplifunin hreyfir þannig við manni að það verður til eitthvað fallegt fingrafar á sálinni. Þetta er svona heit og hrífandi tilfinning sem fer aldrei frá manni. Þannig að kæru lesendur Stúdentablaðsins, komið í leikhús. Því þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.“