Kvikmyndaumfjöllun: „The Platform“

Grafík: Halldór Sanchez

Grafík: Halldór Sanchez

The Platform er spænsk kvikmynd sem sýnd er á Netflix. Eftirfarandi pistill er gagnrýni á myndina og um leið umfjöllun um hvernig tengja megi þætti í henni við misrétti í samfélaginu. Kvikmyndinni verður lýst í umfjölluninni, svo ef þér lesandi góður mislíkar „gleðispillar“ (e. spoilers) skaltu horfa fyrst á myndina og lesa síðan greinina.

Fangar flytjast milli stiga

Kvikmyndin gerist í fangelsi með yfir 600 föngum, bæði sjálfviljugum (sem fá eitthvað fyrir að sitja inni) og nauðugum (sitja inni vegna afbrota). Fangelsið er byggt upp á mjög áhugaverðan hátt, en það lítur út eins og hola á yfir 300 hæðum, en hver og ein hæð er tákn um ákveðið stig. Á hverju stigi eru tveir fangar og er gat í miðju herbergisins. Sviðspallur svífur í gegnum þessi göt, frá stigi 0 til stigs 300+. Sviðspallurinn flytur fæðu milli fangana sem er algjör veislumatur. Gallinn er hins vegar sá að sama „veisluborðið“ svífur frá einu stigi til annars. Þar af leiðandi borða fangarnir þá afganga sem fangarnir í stiginu fyrir ofan skildu eftir. Það gefur því auga leið að það er mun betra að vera ofarlega í stigakerfinu. Fangarnir dvelja einn mánuð á hverju stigi og flytjast frá einu stigi á annað af handahófi.

Aðalvandinn við þessa skömmtun matvæla er að fangarnir í efstu stigunum borða af græðgi, þ.e. miklu meira en þeir þurfa. Þar af leiðandi er ekki nægileg fæða handa föngunum í næstu stigum. Afleiðingin er sú að morð og mannát eiga sér stað. Þegar líður á söguþráðinn reynir aðalpersónan að ræða við samfanga sína og fá þá til að sýna samstöðu; borða aðeins nauðsynlegan skammt. Þannig myndu allir fá eitthvað að borða. Honum mistekst hins vegar þessi tilraun því enginn hlustar. Kvikmyndin endar í óvissu um hvað stjórn fangelsisins ákveði að gera, fullmeðvituð um óréttlætið meðal fanganna og stöðug dauðsföll.

Kunnugleg misskipting

Hægt er að tengja kvikmyndina við margar hugmyndir og aðstæður í samfélaginu um heim allan. Það fyrsta sem kemur e.t.v. upp í hugann er misréttið varðandi dreifingu náttúruauðlinda. Jörðin veitir okkur takmarkaðar auðlindir sem skipta verður milli jarðarbúa; manna, dýra og plantna. Í nútímasamfélagi má segja að það séu þeir ríku og valdamestu sem vinni úr þessum auðlindum og skipti þeim. Margar gerðir misréttis verða til við þessa skiptingu og leiðir til ójafnvægis milli landa í fyrsta og þriðja heiminum. Líkja má þeim sem eru í efstu stigunum í kvikmyndinni við þá sem hafa aðgang að auðlindunum í okkar samfélagi. Báðir aðilar ofnota vald sitt og nýta fleiri auðlindir en þörf er á. Mörg lönd þjást af hungri en önnur af offitu. Í mörgum löndum eiga íbúar þess tonn af fötum, stór hús og íburðarmikil húsgögn en aðra skortir viðunandi stað til að búa á.

Það að fangarnir flytji frá einu stigi yfir á annað af handahófi má setja í samhengi við misréttið sem manneskjan mætir í upphafi lífsins. Það má segja að strax við fæðingu höfum við annaðhvort yfirburði og aðgang að auðlindum jarðar eða ekki. Sumir eru lánsamir og fæðast í land auðs og góðrar heilbrigðisþjónustu á meðan aðrir fæðast þar sem þessar aðstæður eru vandfundnari. Þessu misrétti í heiminum er mjög erfitt að stjórna.

Annað sem tengist kvikmyndinni er núverandi ástand sem skapast hefur vegna Kórónaveirunnar. Til eru lönd sem hafa takmarkaðan fjölda sjúkrabíla og tækja á meðan fjöldi sýkinga fer ört vaxandi. Sérfræðingar sjúkrahúsanna þurfa því miður setja sjúklinga sína í forgangsröð og ákveða hverjum eigi að hjálpa og hverjir þurfi að bíða. Á Spáni og á Ítalíu, þar sem hættuástand ríkir vegna heimsfaraldursins, hafa komið upp aðstæður þar sem gera þarf upp á milli sjúklinga vegna skorts á öndunarvélum. Þeir sem eru í forgangi eru einstaklingar yngri en 65 ára. Þar af leiðandi eru elstu einstaklingarnir í meiri hættu. Líkt og í kvikmyndinni er takmarkað magn af auðlindum (rúmum, lækningatækjum, heilbrigðisfólki o.s.frv.) og aðeins þeir heppnu (yngri en 65 ára) geta fengið aðgang að þeim. Í tilfelli Kórónaveirunnar er þó ekki um græðgi að ræða heldur „nýta“ allir auðlindirnar aðeins eftir þörfum.

Skýr skilaboð

Í kvikmyndinni reynir aðalpersónan ásamt félaga sínum að breyta kerfinu með því að senda stjórnsýslunni skilaboð. Skilaboðin felast í því að skila til baka eftirrétti án þess að hafa komið við hann eða tekið af honum. Þetta tekst þó ekki því þeir gefa barni sem situr fast í holunni eftirréttinn. Samstaða þeirra og umhyggja fyrir barninu gerir það að verkum að þeir missa þessa einu von sem gæti leitt til breytinga í kerfinu, en þeir uppgötva síðan að barnið sjálft er skilaboðin. Það að barn hafi komist inn leiðir þá til þess að hugsa um galla þeirra og mistök. Myndin endar þó í óvissu þar sem áhorfendur vita ekki hvað gerist eftir á. Óvissan um hvort kerfið muni hlusta á baráttuna gegn misrétti og óvissu eða hvort viðleitnin sé til einskis.

Skilaboð myndarinnar eru þau að við verðum að hefja markvissa baráttu, eða halda henni áfram, gegn misréttinu í samfélaginu. Það er ósanngjarnt að náttúruauðlindir skiptist á svo ójafnan hátt, ekki aðeins milli manna heldur ekki síður milli tegunda. Mörg dýr og plöntur þjást af græðgi mannanna og skortir auðlindir á borð við hreint vatn, búsetustað eða fæðu. Baráttan er erfið og stundum hættuleg en nauðsynleg. Ef ekkert verður við haft gætum við jafnvel endað eins og kvikmyndapersónurnar og orðið vitni að mannáti, morðum og tortryggni í garð náungans.

Ég vona að þessi kvikmynd hafi vakið þig til umhugsunar um misrétti heimsins og fái þig til að leita lausna um hvernig megi bregðast við því. Verum sanngjörn!