#þökksécovid

Hvað gerðir þú jákvætt þökk sé Covid? 

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Þessi hugmynd fékk að malla nánast allt árið 2020: að gera BA lokaverkefnið mitt tengt þessum skrýtna Covid tíma, nema að einblína á það jákvæða sem gerðist og er að gerast í kjölfar Covid, eða eins og verkefnið heitir, Þökk sé Covid. Vorið 2020 mætti segja að samfélagið hafi gjörbreyst. Margt fór hreinlega í pásu. Ég er mjög virk manneskja í daglegu lífi og er vön að hafa nokkra bolta á lofti en ástandið fékk mig til þess að hugsa út fyrir boxið. Í Tómstunda- og félagsmálafræði lærum við að vinna með allskyns fólki. Lærum inn á fólk, hvernig best sé að nálgast það. Stundum upplifi ég þetta sem einskonar verklega sálfræði. Við lærum að hjálpa fólki að betrumbæta sig, skipuleggja alls kyns viðburði og ferðir og í þessu öllu saman efla okkur sjálf. Við lærum leiðtogahæfni og að vera leiðtogar í eigin lífi með því að vera virk og síðast en ekki síst finnum við oft út hver ástríða okkar er. Mér finnst fólk einmitt oftast finna hana í frítímanum. Ein af stærstu spurningunum sem ég velti fyrir mér er hvort við höfum fengið meiri frítíma í Covid og hvað við fórum þá að gera jákvætt í frítímanum? Ég hugsaði með mér að fyrst ég fæ að upplifa ½ „venjulegt“ háskólanám og ½ Covid háskólanám og útskrifast í því ástandi þá ætlaði ég að notfæra mér heimsfaraldurinn og kanna hvað var það jákvæða sem situr eftir hjá fólki. 

Nú safna ég saman fjölbreyttri afurð frá fólki og vil þannig búa til hugmyndabrunn af því jákvæða sem við viljum halda í. Þær sögur sem mér hafa borist nú þegar einkennast af almennu heilbrigði, jákvæðari hugsun, meira æðruleysi og sköpun, sem er mjög jákvætt. Meginmarkmið verkefnisins er að dreifa jákvæðninni, varðveita það góða sem gerðist og er að gerast og veita fólki þannig vonandi innblástur. 

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Fordæmalausir tímar bjóða upp á nýjar nálganir og ný tækifæri 

Það var svo margt sem var hægt að gera þökk sé Covid þegar allt samfélagið fór í pásu, eitthvað sem við hefðum mögulega aldrei gert annars. 

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Dæmi um spurningar sem ég hvet fólk til að velta fyrir sér:
Var eitthvað jákvætt sem þú byrjaðir að gera árið 2020 í kjölfar heimsfaraldurs?
Breyttir þú einhverju til hins betra þökk sé Covid?
Fékkst þú meiri frítíma fyrir utan skóla og vinnu?
Breyttust áhugamál þín eða venjur þínar?
Breyttust samskiptin við vini og fjölskyldu?
Breyttist heimilið eitthvað? Gerðir þú breytingar á heimilinu eða daglegu umhverfi þínu? Það sem ég er að velta fyrir mér er t.d. eldaðir þú öðruvísi mat, bakaðir þú eða breyttist útivera þín. Lærðir þú eitthvað nýtt? Var eitthvað í samskiptunum sem breyttist t.d. hafðir þú samskipti við annað fólk en venjulega, mættir þú á rafræna viðburði o.s.frv. 

Samfélagsmiðlar nýttir 

Afurðinni verður safnað saman og deilt á Þökk sé Covid Facebook síðunni og Þökk sé Covid Instagram aðganginum. Ég tek fagnandi á móti Facebook skilaboðum frá þér á Messenger, skilaboðum á Instagram www.instagram.com/takkcovid/ eða tölvupósti á takkcovid@gmail.com. Engin saga er of stutt eða löng. Skilaboðin mega vera frá því sem átti sér stað innan fjölskyldu þinnar, vinahópsins eða vinnustaðar. Þetta geta t.d. verið lýsingar á atvikum, áhugamál, smásögur, myndir, stutt myndbönd eða tóndæmi.

Ég hef eitt skilyrði. Að það sé jákvætt. 

Líkt og leiðbeinandi minn í verkefninu sagði við mig einu sinni, það er gott að láta sér leiðast og getur oft leitt til sköpunar en það er allt annað að vera leiður. Því tek ég það fram að ég er meðvituð um að heimsfaraldurinn hafði fjölþætt neikvæð áhrif og honum fylgdi sorg og erfiðleikar en mig langar í þessu verkefni að kalla eftir sögum, dæmum og myndum af því jákvæða og varðveita það svo við getum einnig litið til baka á ljúfar minningar.

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend