Viltu læra að skipuleggja þig?

Mörg tengjum við nýtt ár við nýtt upphaf, setjum markmið og skipuleggjum okkur. Það er gott að venja sig á markmiðasetningu en passa þarf að taka raunhæf og lítil skref í átt að stærra marki. Skipulag og yfirsýn má fá með ýmsum hætti og ætla ég að gefa nokkur góð ráð sem nýtast bæði í daglegu lífi sem og námi.


Dveldu í einni viku í einu og skrifaðu hjá þér:

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

  • Þau verkefni sem þarf að klára í vikunni

  • Það sem þú vilt byrja á

  • Dagskrá vikunnar

  • Hlutir fyrir þig (áhugamál, hreyfing eða þvíumlíkt)

Ég nota dagbækur mikið og skrifa niður öll verkefni vikunnar, þannig hef ég góða yfirsýn og minni hætta er á að ég gleymi einhverju. Mér finnst gott að gefa mér ákveðinn tíma eða dag fyrir hvert verkefni. Sem dæmi punkta ég hjá mér þau verkefni sem ég þarf að vinna að, ákveð svo hvenær vikunnar ég vil gera þau og skrifa þau inn á þann tíma. Ég skrifa líka oft tékklista fyrir vikuna sem er hvetjandi.


Þau ykkar sem viljið ekki nota dagbók, gleymið alltaf bókinni eða að skrifa í hana getið notað símann. Flestir eru með snjallsíma í dag og geta þeir verið sniðugir fyrir alls konar skipulag. Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • Notes, fyrir tékklista, matarinnkaup, glósur, punkta hjá sér ofl.

  • Calendar, tímasetningar á öllum skilum, tímum sem þarf að mæta í og heimanámi.

  • Notion (app sem þarf að sækja), fyrir þá sem elska lista og skipulag þá er hægt að gera tékklista fyrir hin ýmsu verkefni og setja þá upp á ýmsan máta.

Mér finnst gaman að vinna með grafík og myndræna uppsetningu. Þegar ég er í skóla vil ég hafa stundatöfluna sýnilega til þess að minna mig á tíma dagsins. Þið sem eruð í háskóla þekkið Uglu og Canvas, stundataflan þar getur stundum verið ruglandi. Ég bý til mína eigin stundatöflu í forritinu Canva.com, en þar er hægt að setja upp myndrænt efni á grafískan máta án þess að kunna mikið. Ég nota það reglulega fyrir ýmislega myndræna tjáningu og skipulag, til dæmis plana ég sumarfrí fjölskyldunnar og set upp á skemmtilegan hátt sem mánaðaryfirlit eða hugmyndalista. 

Fjölskyldudagatal uppi á vegg:

Talandi um fjölskylduna þá er ég með mann og börn, en þeim fylgja líka læknistímar, frí í skólanum eða sérstakir viðburðir og erum við því með fjölskyldudagatal upp á vegg. Hver mánuður er á einni A3 síðu sem er skipt niður í dálka fyrir hvern og einn fjölskyldumeðlim. Hér eru nokkur dæmi um hvað hægt er að merkja inn á slíkt dagatal:

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

  • Skipulagsdagar leik- og grunnskóla

  • Frídagar

  • Námsviðtöl

  • Læknistímar

  • Viðburðir

  • Síðasti og fyrsti kennsludagur

  • Heimsóknir

  • Ferðalög


Að lokum, ekki gleyma að dvelja í vikunni, það getur oft verið stressandi að horfa langt fram í tímann og sjá öll ókláruðu verkefnin, þú kemst yfir þetta með smá aga og tímastjórnun. Eitt ráð varðandi námið, þegar kennarinn minnist á einhver verkefni, heimanám, bók sem þarf að lesa, punktaðu það strax hjá þér! Vonandi hjálpar þetta þér að vera fyrirmyndar námsmaður og ná fram markmiðum þínum hvort sem er í námi eða lífinu sjálfu.