Bananahýði - má borða það?

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

Það er margt sem við hendum gjarnan í ruslið sem má nota í matreiðslu. Nýlega hef ég uppgötvað bananahýði. Þið ranghvolfið eflaust augunum við tilhugsunina og hugsið með ykkur að þið mynduð aldrei borða bananahýði. Fyrst var ég líka skeptísk, við höfum alltaf bara borðað bananann sjálfan! En leyfið mér að sýna ykkur hvernig má nota þennan hluta ávaxtarins í uppskriftum og réttum. Það er gott að geta nýtt matinn til fulls - sérstaklega fyrir þau sem eiga ekki moltu (þ.á.m. mig). Til þess að minnka sóun og spara getið þið gripið bananahýðin sem verða oft afgangs og notað þau í alls kyns rétti. Bananahýði innihalda næringarefni líkt og bananinn sjálfur, og þess vegna er orðið tímabært að nýta þennan hluta ávaxtarins. Hýðið má t.d. nota í pönnukökur, pottrétti, vegan „beikon“ strimla og einnig má útbúa eftirlíkingu af svokallaðri „pulled pork“ samloku. Það má finna alls kyns uppskriftir og útfærslur á veraldarvefnum, og ég hvet ykkur til þess að skoða það. „Pulled“ banana samlokan, ef svo má að orði komast, er gómsæt, fljótgerð og góð í hádegis- eða kvöldsnarl.

Hér mun ég deila með ykkur uppskrift af réttinum sem þið getið prófað í stað þess að henda bananahýðinu í ruslið. Bon appétit!

,,Pulled banana“ (vegan pulled pork)

Þessi uppskrift dugar fyrir 2

Innihald

4 bananahýði

4 msk ólífuolía

2 msk reykur í fljótandi formi (eða reykt paprikukrydd)

2 msk hvítlauksduft

1 msk chilíduft (eða cayenne pipar)

1 msk kúmen

4 msk BBQ-sósa

2x hamborgarabrauð

Tillögur að meðlæti:

Hrásalat

Vegan mæjónes

Súrar gúrkur

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

  1. Byrjið á því að taka bananahýðið af og skerið stilkana af á sitthvorum endanum. Passið að taka alla miða af bananahýðinu áður en þið vinnið með það.

  2. Skafið bananahýðin að innan með skeið, eins og sýnt er á myndinni til hliðar.

  3. Rífið svo hýðin niður með gaffli og skerið í ræmur.

  4. Setjið ræmurnar í skál og svo til hliðar. Blandið saman reyk í fljótandi formi (eða reyktu paprikukryddi), ólífuolíu, hvítlauksdufti, chilídufti (eða cayenne pipar) og kúmeni í annarri skál. 

  5. Hellið olíukryddblöndunni yfir bananahýðisræmurnar og blandið því öllu vel saman.

  6. Hitið pönnu með örlítilli steikingarolíu. Þegar pannan er orðin heit má hella ræmunum úr skálinni á pönnuna. Steikið ræmurnar á miðlungshita, í u.þ.b. 5 mínútur, eða þar til þær hafa skroppið aðeins saman.

  7. Því næst bætið þið við barbikjúsósu á pönnuna og látið allt malla þar til það er komin karamelluseruð áferð á blönduna. 

  8. Hitið hamborgarabrauð á vægum hita í ofni. Þegar brauðin eru tilbúin er ekkert eftir nema að setja samlokuna saman!

  9. Smyrjið vegan mæjónesi á sitt hvora hlið hamborgarabrauðsins, ausið hrásalati ofan á annað brauðið, því næst fer barbikjúbananahýðislostætið ofan á og þau sem vilja geta sett súrar gúrkur í lokin. Svo fer hinn helmingurinn af brauðinu ofan á - og voilá! Njótið!