Mikilvægi endurvinnslu

Aðsend

Aðsend

Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir

Það eru yfir sjö billjónir íbúa á litlu jörðinni okkar, hver og einn þessara íbúa hendir einhverju á hverri einustu sekúndu. Það er því mikilvægt að leita leiða til að hjálpa umhverfinu með því að fjalla um neyslu okkar og þá sóun sem hún veldur. Ég hafði samband við Birgittu Stefánsdóttur, ráðgjafa sem starfar hjá Umhverfisstofnun Íslands. Hún er hluti af teymi innan stofnunarinnar sem vinnur að grænni samfélögum. Birgitta vinnur mikið með úrgang, þ.e. hún vinnur með tölfræði og forvarnir gegn myndun úrgangs. Hún vinnur einnig fyrir norræna umhverfismerkið, Svaninn. Metnaður hennar liggur í að nota vinnu sína til að draga úr neyslu í íslensku samfélagi án þess að það hafi áhrif á velferð þess. Fyrir utan ástríðuna fyrir umhverfinu, þá elskar hún að prjóna, ferðast og njóta íslenskrar náttúru.

 

Hvað verður um úrgang á Íslandi?

Aðeins tæplega 30% af föstum úrgangi eða heimilissorpi sveitarfélaganna er endurunninn. Það er sá úrgangur sem flestir kannast við og kemur frá heimilum, mötuneytum o.þ.h. Stærstur hluti af þeim 70% sem eftir eru fer í landfyllingu. Ruslið sem við flokkum er flutt úr landi, í stórar endurvinnslustöðvar í Evrópu þar sem það er flokkað enn frekar og fer í endurvinnslu efnis eða í brennslu til endurnýtingar orku. Það er ekki mikið um endurvinnslu á Íslandi fyrir utan jarðgerð úr lífrænum úrgangi, ásamt smá af endurnýtingu plasts.

 

Hvers vegna er mikilvægt að endurvinna úrgang?

Það er mikilvægt að endurvinna úrgang vegna allra aðfanganna sem fóru í að búa til hvað það er sem við erum að losa okkur við. Ef úrgangur endar í landfyllingu er engin leið fyrir okkur að halda áfram að nota aðföngin sem fóru í vinnslu vörunnar sem verið er að henda. Það er því mjög léleg nýting á auðlindum ef við endurvinnum ekki úrganginn okkar. Þetta tengist einnig hugmyndafræðinni um hringrásahagkerfið, þar sem verið er að leita leiða til að halda aðföngum í hringrás innan hagkerfisins, þar af leiðandi erum við ekki eins háð nýjum efnum.

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

 Hvað er rétt leið við að endurvinna?

Þegar rusl er flokkað er mikilvægast að hafa í huga að skilja að mismunandi efni með því að taka í sundur pakkningar eða vöruna sem þú ert með og hreinsa efnin eins vel og mögulegt er. Með því búum við til hreinan og einsleitan úrgangsstraum, sem er verðmætari og líklegri til að henta í endurvinnslu efnis. Einnig er hægt að finna leiðbeiningar um endurvinnslu á vefsíðum endurvinnslustöðvanna (eins og Sopru,Terra og ÍGF) sem og vefsíðum bæjarfélaganna.

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Hvað er að þínu mati mikilvægast að stúdentar endurvinni og hvers vegna?

Það fer eftir hvaða umhverfisþátt þú ert að reyna að leysa. Ef við skoðum loftslagsbreytingar þá er mikilvægast að lífrænn úrgangur og pappír endi ekki í landfyllingu. Bæði eru þetta lífbrjótanleg efni og í landfyllingu mynda þau metan útstreymi. Plast aftur á móti getur verið nokkuð loftlagsvænt, þar sem það er ekki lífbrotgjarnt en á móti veldur það gífurlegum vandamálum í sjónum og hefur slæm áhrif á sjávarlífríkið. Svo erum við með verðmæt efni eins og ýmsa málma, sem má finna til dæmis í litlum raftækjum, sem við hér á Íslandi erum því miður ekki að flokka nógu vel.

Hvaða afleiðingar getur það haft að flokka ekki?

Eins og endurspeglast í svörum mínum hér að ofan þá eiga engar auðlindir skilið að enda í landfyllingu. Vandamálið við ofneyslu okkar stækkar bara enn meira og hraðar ef við endurvinnum ekki.

Hvað fleira geta stúdentar gert til að vernda umhverfið?

Ég vill árétta það að endurvinnslan er í raun síðasta hálmstráið. Það sem við eigum að einbeita okkur að er að hætta allri óþarfa neyslu og lágmarka notkun nýrra efna. Þetta getum við gert með því að a) kaupa minna af drasli, b) kaupa notað, c) lagfæra hluti, d) samnýta þá, og svo framvegis. Það besta sem einstaklingurinn getur gert til að hjálpa umhverfinu er að hægja á lífsstílnum og einbeita sér að því sem mestu máli skiptir í lífinu, eins og fjölskyldu og vinum og því að skapa með þeim nýjar minningar.