10 plöntur fyrir öll heimili

Það eru ekki nema tvö ár síðan ég eignaðist mína fyrstu pottaplöntu eftir að hafa verið dregin vikulega í blómabúðir af vinkonum mínum. Ég beit fljótt á agnið og brátt fylltist íbúðin af grænum verum sem gleðja augað og sál. Ákveðin hugleiðsla felst nefnilega í því að ganga á milli græðlinganna, athuga moldina og vökva eftir þörfum, klippa niður stilka og skipta um mold. Því fylgir einnig ómælanleg gleði að uppgötva nýtt blað og fylgjast með því opna sig, líkt og það sé þitt persónulega afrek að plöntunni líði vel.

Til eru óteljandi tegundir af pottaplöntum sem hafa mismunandi þarfir og því getur verið erfitt fyrir byrjendur að átta sig á hvað henti þeim best. Þess vegna hef ég tekið saman smá lista yfir þokkalega auðveldar plöntur sem ég tel að ættu að prýða öll heimili. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Sómakólfur / Zamioculcas Zamiifolia

Fyrst á lista er sómakólfurinn, en hann er frábær fyrir byrjendur þar sem hann þarf hvorki mikið vatn né sólarljós. Hentar kólfurinn því vel fyrir heimili sem og skrifstofur. Þessi planta vex í þær áttir sem hún vill og að mínu mati er hún flottari eftir því sem vaxtarlagið er skrítnara. 


Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Klifurhjarta / Philodendron Scandens

Klifurhjartað er ein af mínum uppáhalds plöntum og ég þarf nánast ekkert að hafa fyrir henni. Með sín hjartalaga laufblöð sem vaxa eins og þau fái borgað fyrir það, dafnar hún við hæfilega birtu og vikulega vökvun. Hún mun klifra meðfram veggjum og bókahillum, sé henni leyft það, og hanga fallega fram af brúnum. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Nóvemberkaktus / Schlumbergera

Til eru margar tegundir af ,,mánaðarkaktusum“ og eru þeir í raun allir fallegir með sínum fjölbreyttu litaafbrigðum. Kaktus þessi vill mikla óbeina birtu og vatn á 2-3 vikna fresti. Hann hentar því vel þeim sem eiga björt heimili en eiga það til að gleyma vökvun. 


   

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir



Marmaradrottning / Marble Queen Pothos

Marmaradrottningin er önnur tegund af mánagulli, sem er einnig vinsæl heimilisplanta, en í stað gulra flekkja hefur hún hvíta. Hún er ein af þessum auðveldu plöntum sem hver sem er getur hugsað um, hún þolir litla birtu en dafnar við bjartar aðstæður, þolir smá þurrk en best er að vökva hana vikulega. Líkt og klifurhjartað þá fer þessi þangað sem hún nær, bæði er hægt að láta hana klifra upp eða hanga tignarlega niður. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Meyjarskeið / Tradescantia pallida

Meyjarskeiðin kemur í mörgum afbrigðum en þau þekktustu eru alveg græn og græn með bleikum blöðum. Ég ætla hér með að vara við bleika afbrigðinu en hún á það til að brenna auðveldlega og þorna upp - en tiltölulega auðvelt er að sjá um græna afbrigðið og það dafnar við flest skilyrði. Þumalputtareglan er þó bjart, óbeint ljós og vikuleg vökvun. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir



Rifblaðka / Monstera Deliciosa

Ein planta sem flestir Íslendingar þekkja er rifblaðkan, eða Monstera, líkt og hún kallast á latínu. Vinsældir hennar stafa líklega af því hve stór og falleg rifin laufblöð hennar verða þegar hún er þroskuð – þetta er planta sem dreifir úr sér og þarf pláss. Hún er fremur auðveld viðfangs, gott er að vökva einu sinni á tveggja vikna fresti á veturna en vikulega á sumrin. Hún vill góða birtu. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir



Friðarlilja / Spathiphyllum

Friðarliljan myndi teljast til dramadrottninga miðað við hegðun hennar - en er í raun fremur auðveld þegar réttu handtökin eru komin. Þessi planta vill helst alltaf hafa raka mold og hún lætur vita ef hún verður of þurr. Þá síga laufblöðin alveg niður, svo ekki láta ykkur bregða ef þið komið að henni liggjandi. Þá þarf einfaldlega að vökva hana og hún sperrist öll við. Friðarliljan vex best á skuggsælum stöðum og hentar því vel á heimilum með fáa glugga. 


Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Rhaphidophora Tetrasperma

Tetrasperma er ein af þessum plöntum sem vex eins og hún eigi lífið að leysa. Best er að binda hana við einhverskonar stöng, bambus eða mosa, og leyfa henni að klifra upp. En líkt og svo margar plöntur á þessum lista þá vill hún björt skilyrði og vikulega vökvun. Hún er þó aðeins erfiðari en t.d. klifurhjartað vegna þess að neðstu laufin eiga það til að gulna og deyja. En ef þú hefur gaman af því að fylgjast með plöntunni þinni vaxa, og vaxa hratt, þá er þessi fyrir þig!

 

Grafík / Margrét Aðaheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðaheiður Önnu Þorgeirsdóttir


Hvítt gúmmítré / Ficus Elastica Tineke

Gúmmítré er eitt af þessum plöntum sem kemur í alls kyns litaafbrigðum - allt frá alveg grænni að lit til grænni með hvíta og bleika flekki. Hér er mælt með afbrigðinu með hvítum og ljósgrænum flekkjum, sú planta minnir helst á hermannamunstur ef vel er að gáð. Hún vill óbeina en mikla birtu og vikulega vökvun. Líkt og flest hvít og bleik afbrigði plantna skal varast að hafa hana í beinu sólarljósi en hún brennur auðveldlega. 



Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Paradísarfugl – Strelitzia

Paradísarfuglinn er hér síðastur á lista því hann er líklega erfiðastur. Planta þessi þarfnast mikillar birtu og tíðar vökvunar, en hafi hún þessi skilyrði verður hún stolt heimilisins! Hún vex hátt upp og breiðir úr sér þar sem hún fær tækifæri til, því hentar hún vel í bjart horn. 

Hvort sem þú átt það til að ofvökva eða gleyma plöntunum þínum algjörlega, ert með stóra glugga eða litla, vona ég að þú hafir getað fundið eitthvað á þessum lista sem talar til þín - og ef þú átt engan grænan vin, vona ég að þú takir af skarið og gerist plöntuforeldri.