Mistök, nám og björt framtíð

Það getur verið erfitt að kljást við mistök og sérstaklega ef það hefur áhrif á námsárangur.  En þrátt fyrir það gerum við öll mistök. Flestir hafa einhvern tímann á ævinni fengið lélega einkunn, ekki skilað inn verkefni á réttum tíma, fallið á prófi eða jafnvel fallið í áfanga. Hver sem ástæðan var, hvort sem það var eitthvað persónulegt, heimsfaraldur geisaði eða tilfinningin sem fylgdi því að standa frammi fyrir haug af bókum, glósum, verkefnum og prófum var yfirþyrmandi, þá skiptir aðeins máli hvernig þú tekst á við þá hindrun.

Það er ekki hægt að fara í gegnum lífið án þess að leggja inn fleiri og fleiri mistök í reynslubankann. Að gera mistök er ein af betri leiðunum til þess að læra og það á líka við um námið. Þó svo að það geti verið erfitt að rífa sig upp og reyna aftur þegar þú sérð einkunnina þína frá síðasta prófi, þá er það ekki ómögulegt.

Það geta þær Katrín Viðarsdóttir og Gerður Huld Arinbjarnardóttir sagt ykkur en þær eiga það sameiginlegt að hafa glímt við einhverja erfiðleika í námi.

thumbnail_received_723074895151701.jpg

Gerður Arinbjarnardóttir er framkvæmdarstjóri Blush, hún hefur ekki lokið neinu námi utan grunnskóla en stofnaði fyrirtækið sitt fyrir tíu árum þegar hún var í fæðingarorlofi.

Katrín stundar BA nám við Háskóla Íslands og er á öðru ári í málvísindum, ásamt því er hún í 60% starfi. Árið 2016 greindist hún með athyglisbrest og var þá á síðasta ári í menntaskóla.

Hvenær byrjaðir þú að finna fyrir erfiðleikum í námi?

Ég fór að finna fyrir erfiðleikum þegar ég var sirka 9 – 10 ára. Þá byrjaði að koma í ljós að ég átti erfitt með að lesa og það tók mig mun lengri tíma en önnur börn að læra það. Þegar leið á árin var greinilegt að ég var lesblind og þar af leiðandi var nám almennt erfitt fyrir mig.

Ég fór fyrst að finna fyrir erfiðleikum við nám þegar ég greindist með athyglisbrest og fannst ég hafa hlaupið á vegg í námi en þangað til hafði ég alltaf bara skautað í gegnum það með fimmur og sexur. Það var hins vegar ekki í boði lengur og ég þurfti að læra að læra upp á nýtt. Það var þess valdandi að ég lauk ekki stúdentinum fyrr en 2019.

Telur þú einhverja ástæðu vera þar að baki?

Ég var mjög áhugalaus, enda held ég að ég hafi alltaf búið yfir þeim eiginleika að vilja vera framúrskarandi í því sem ég geri, þannig að þegar ég var ekki að ná slíkum árangri í hefðbundnu námi missti ég áhugann og einbeitti mér frekar að öðru.

Af því ég átti svo lítið eftir af menntaskólanum hugsaði ég með mér bara „okei, ég klára þetta bara.“ en svo hafði ég engan metnað fyrir því, sem ég held að hafi líka verið að hluta til af því að ég kunni bara ekki að læra. Svo fannst mér mjög erfitt að sitja heima og læra eitthvað sem mér fannst leiðinlegt (sem ég er búin að læra núna og þess vegna gengur mér miklu betur í námi).

Hvernig tókstu á við að hafa ekki náð settum markmiðum í námi? Hvert var næsta skref?

Ég er á þeirri skoðun að allir hafi eitthvað X factor, einhvern styrkleika sem þeir geta magnað upp og náð árangri með. Þannig að næsta skref hjá mér var að finna minn X factor. Ég komst fljótlega að því að ég væri góð í að tala fyrir framan fólk og hefði gaman af því að selja vörur og það var eitthvað sem ég gat einbeitt mér að. Ég vann í mörg ár sem sölumaður þar til ég tók loks þá ákvörðun að stofna mitt eigið fyrirtæki.

Eftir að ég féll báðar annir 2016 þá ætlaði ég bara að gefast upp, áhuginn fyrir námi var enn þá minni en hann var fyrir en á endanum ákvað ég að halda áfram, ég var búin að reyna það oft að ég hafði engu að tapa, ef það gengur ekki þá gengur það ekki og að lokum náði ég því. Sem ég held að hafi verið af því ég setti ekki svona mikla pressu á mig sjálfa.

Ertu sátt með hvernig allt gekk í dag?

Já, mjög sátt. Ég hef náð framúrskarandi árangri í þeim verkefnum sem ég sinni í dag. Ég hef fundið mína hillu í lífinu, fæ að takast á við krefjandi verkefni og læra eitthvað nýtt daglega. Það er eitthvað einstakt við það að fá að sjá hugmyndina sína vaxa og dafna. Ég vakna á hverjum morgni spennt og þakklát fyrir að fá að gera það sem ég geri.

Já, ég hugsa að ég hefði aldrei verið í náminu sem ég er í núna ef ég hefði farið beint í háskóla og er sátt að hafa ekki lent í námserfiðleikum seinna, kannski hefði ég bara hætt í háskólanum. En að svo sögðu, þá er þetta líka búið og gert og ég hef enga eftirsjá yfir því. Halda bara áfram.


Hvert er næsta skref hjá þér í náminu?

Ég ætla bara að taka námið eins og það hentar mér, ég er ekki að stressa mig yfir að klára þetta eins hratt og ég get, það er enginn réttur tími fyrir nám og það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt. Það sem skiptir mig máli er að klára það. Enda spyrja flestir hvaða gráðu ertu með, ekki hvenær kláraðirðu gráðuna þína, segir Katrín.


Hefur þú áhuga að fara í meira nám seinna?

Ég hef oft velt því fyrir mér og oft ætlað að skrá mig. En ekki haft hugrekkið til að klára skráninguna og halda áfram. Mér finnst ólíklegt að ég muni fara í meira nám, en hver veit. Kannski sest ég á skólabekk einn daginn. Annars hafa síðustu 10 ár verið eitt langt og krefjandi nám, segir Gerður.

Hefur þú einhver ráð fyrir þá sem eru í sömu sporum eða eru ekki að ná þeim árangri sem þau voru að vonast eftir?

Mitt ráð til þín er að það er ekki ein rétt leið í lífinu. Það má fara óhefðbundnar leiðir og ná árangri. Finndu aðferð sem hentar þér.

Ekki leggja of mikla pressu á þig, maður heldur að það sé ein leið til að læra en það er enginn sem stendur yfir þér og tekur ákvarðanirnar fyrir þig, það ert bara þú sjálfur. Þannig ef þú vilt gera þetta á einhvern annan hátt, þá er það bara í lagi.