Argafas og aðgerðir: Staða trans kvenna í sundi á afreksstigi

Grein: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

Mynd: EPA

Í sumar tilkynnti FINA, Alþjóðasundsambandið, breytingar á regluverki sínu og boðaði takmarkanir á aðgengi trans kvenna að sundmótum sambandsins. Breytingarnar fólust í banni þátttöku trans kvenna í keppnum á afreksstigi ef kynleiðréttingarferli hófst eftir 12 ára aldur. Þessi reglugerð felur í sér útilokun flestra, ef ekki allra trans kvenna, þar sem það er svo gott sem ómögulegt að hefja kynleiðréttingarferli fyrir 12 ára aldur alls staðar í heiminum. Á málþingi Alþjóðasundsambandsins var tillagan samþykkt með 71% atkvæða, meðal annars af Sundsambandi Íslands, en ákvörðunin hefur  síðan sætt talsverðri gagnrýni. Þau sem eru andvíg þessari ákvörðun hafa vakið athygli á því að ótvíræð afturköllun á réttindum ákveðins hóps fólks sé aldrei siðferðislega réttlætanleg. Þau taka þá fram að ef að siðferðisrök duga ekki til að koma í veg fyrir að mannréttindi séu virt, verður í það minnsta að byggja ákvörðun á gögnum sem að byggja á nákvæmum og marktækum rannsóknum. 

Viðbrögð á Íslandi

Á Íslandi var afstaða Sundsambands Íslands gagnrýnd harðlega, en þar má sérstaklega nefna óformlega hópinn Argafas. Stúdentablaðið ræddi við Elí, einn meðlima Argafass, um forsendur ákvörðunar Sundsambandsins og hvernig hún endurspeglar stöðu trans fólks í íþróttum.

,,Argafas spratt í rauninni upp sem mótsvar við afstöðu Sundsambands Íslands. Við áttum það öll sameiginlegt að finnast vanta fleiri háværar raddir í kjölfar þessarar ákvörðunar. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sagði ekkert, Samtökin ‘78 töluðu eitthvað um þetta í fjölmiðlum en stigu varlega til jarðar, og okkur fannst bara skorta viðbrögðin af hálfu samfélagsins og íþróttasamtaka.“

Elí bendir á að mikilvægt sé að setja ákvörðun sem þessa í samhengi og átta sig á alvarleikanum sem fylgir því að samtök á heimsmælikvarða ákveði að takmarka aðgengi hóps að stærsta keppnisviðburði í íþróttum. Hafandi stundað íþróttir sjálfur af miklum krafti segir hann að það séu óásættanleg skilaboð til trans fólks sem iðkar íþróttir.

“Hvatinn fyrir því að stunda ákveðna íþróttagrein af krafti er oft, ekki alltaf, en mjög oft, að verða framúrskarandi í þinni íþrótt. Það að vita að þó að þú myndir ná framúrskarandi árangri í þinni íþrótt muntu samt aldrei geta tekið þátt í heimsmeistaramóti ef þú ert trans stelpa eða kona sem vilt keppa í kvennaflokki er svakaleg þvingun og mikið bakslag í réttindabaráttu trans fólks.”

Illa ígrunduð ákvörðun

Ákvörðun FINA leit dagsins ljós eftir árangur Liu Thomas, en hún er trans kona sem vann NCAA titil í sundi og hugðist keppa í kvennaflokki á Ólympíuleikunum í París sumarið 2024, og hefði þá verið fyrsta trans konan sem þar keppir. FINA sagði ákvörðunina byggða á vísindalegum grundvelli, gerðar hefðu verið rannsóknir á trans konum og í ljós komið að trans konur sem hefðu undirgengist kynleiðréttingu eftir að kynþroskaskeið átti sér stað hefðu of mikið forskot á aðra keppendur í kvennaflokki. Hins vegar eru einfaldlega ekki til rannsóknir sem ná yfir frammistöðu trans kvenna í sundi samanborið við frammistöðu cís kvenna í sundi. Því skjóti skökku við að halda því fram að nýjar reglur FINA séu byggðar á vísindum.

,,Þetta er svakalega gróft, það er bókstaflega verið að afturkalla áður áunnin réttindi fólks, þó að ekki ein trans kona hafi áður keppt í heimsmeistaramóti í sundi. Rannsóknir þurfa að vera nákvæmar, það þarf að bera saman við mengi, vera með nógu margar sís afrekskonur í sundi og bera þær saman við nógu margar trans afrekskonur í sundi. Flestar rannsóknir sem liggja til grundvallar þessari ákvörðun Alþjóðasundsambandsins voru hins vegar gerðar á sís karlmönnum!“

Joanna Harper, langhlaupari og sú eina sem hefur birt ritrýnda rannsókn á frammistöðu trans fólks í íþróttum, hefur gagnrýnt ákvörðun FINA. Eins og hún orðar það, er alls ekki ástæða til að útiloka að trans konur gætu verið með forskot á einhverjum sviðum í vissum íþróttum. Hins vegar séu vísindin þannig staðsett að enginn grundvöllur sé fyrir því að taka jafn afgerandi ákvörðun og þessa, og fráleitt að FINA rökstyðji ákvörðunina sem svo að hún sé byggð á vísindalegum rannsóknum. Háskólanemar og fræðafólk getur svo sannarlega tekið undir það að jafn afgerandi ákvörðun, sem felur í sér útilokun ákveðins hóps frá því að stefna hátt í íþróttaiðkun sinni, ætti að byggjast á rökum og marktækum rannsóknum. Elí bendir á að bæði ákvörðunin og skortur á viðbrögðunum við henni sé lýsandi fyrir það að samfélagið taki réttindabaráttu trans fólks ekki nógu alvarlega. 

Ljóst er að Sundsamband Íslands tók gífurlega skaðlega ákvörðun, byggða á ímyndaðri forsendu eða ósannaðri tilgátu (trans konur hafa forskot í sundi), frekar en að byggja ákvörðun sína á raunverulegri staðreynd (útilokun eins hóps byggt á kynvitund þeirra er alvarleg mismunun og brot á mannréttindum).

Afleiðingar þessarar ákvörðanar eru eitthvað sem taka verður líka til greina, en þar má nefna önnur íþróttasambönd sem tóku sams konar ákvarðanir í kjölfar yfirlýsingar FINA. Alþjóðlega rugbysambandið fylgdi í fótspor FINA og meinaði trans konum aðgang að keppnum sínum á afreksstigi, og Alþjóðlega hjólreiðasambandið hækkaði þröskuld sinn talsvert hvað varðar þátttöku trans kvenna. Þar að auki hafa bresku þríþrautarsamtökin bannað þátttöku trans kvenna á bæði afreks- og grasrótarstigi. Önnur keðjuverkun þessarar þróunar er að löggjöf sem á við um trans konur hefur samstundis bitnað á sís konum, en strax eru komin fram dæmi um að foreldrar keppenda ásaki framúrskarandi íþróttastúlkur um að vera trans, og þær skyldaðar til þess að undirgangast ónauðsynlega og óþægilega líkamsskoðun svo hægt sé að ganga úr skugga um að þær séu sís konur. 

Heilbrigður andi fyrir öll í íþróttastarfi

Elí segir ljóst að íþróttasamtök hér á landi sem og alþjóðasamtök verði að gera upp við sig hvort sé mikilvægara; að tryggja heilbrigðan anda fyrir öll í íþróttastarfi, eða að ganga út frá þeirri tilgátu að örfáir aðilar hafi forskot á einu sviði. Aðgerðir sem þessar verði einnig að horfa á í samhengi við annað sem er að eiga sér stað í bakslagi gegn réttindum trans fólks. 

,,Fólki er gefið svo mikið rými í umræðunni til þess að spúa röngum upplýsingum og hatri, Jordan Peterson, Sigmundi Davíð, á sama tíma og kerfisbundin morð og ofbeldi á trans fólki ágerast. Umræðan er gífurlega hatursfull og við tókum eftir því í kjölfar fréttaflutnings á mótmælum Argafass.“

Mótmæli Argafas og trans aktvísimi eru nauðsynlegt andsvar við því bakslagi sem er að eiga sér stað í réttindabaráttu trans fólks - bakslagi sem felst ekki einungis í útilokun og afturköllun réttinda, heldur líka aðgerðaleysi sem sendir þau skilaboð að tilveruréttur trans fólks sé ekki forgangsatriði, að fólki sé sama. Engin manneskja ætti að þurfa að velja á milli þess að uppfylla draum sinn um að verða afreksmanneskja í þeirri íþrótt sem hún stundar, eða að lifa frjáls eftir sinni eigin kynvitund. 

Að lokum vill Elí benda á að hann heldur utan um íþróttahóp í íþróttasal Háskóla Íslands í samstarfi við Q-félagið. Þar fara fram hóptímar einu sinni í viku fyrir trans fólk, kynsegin fólk og gender questioning einstaklinga þar sem það getur komið saman til að æfa. Fyrir áhugasöm er hægt að hafa samband við Q-félagið á queer@queer.is eða leita að viðburðinum á facebook ,,Sterkari saman - líkamsrækt fyrir trans fólk“.