Ekkert verkefni of stórt fyrir Samtökin!

Viðtal við Álf Birki Bjarnason, formann Samtakanna ‘78

Grein: Sindri Snær Jónsson & Lísa Margrét Gunnarsdóttir

Mynd: Stúdentablaðið

Samtökin ‘78 eru hagsmunasamtök sem gæta réttinda og huga að velferð hinsegin fólks á Íslandi ásamt því að vera leiðandi afl í hinseginfræðslu á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1978 og hafa þau stækkað verulega síðan þá, sérstaklega á síðastliðnum áratug. Stúdentablaðið ræddi við nýkjörinn formann samtakanna, Álf Birki Bjarnason, til þess að ræða störf þeirra og þjónustuna sem þau bjóða upp á. 

Sem málsvari hinsegin fólks á Íslandi, sinna Samtökin ‘78 fjölþættu hlutverki og veita í senn skjól, málsvörn og ráðgjöf auk þess að vinna einatt að betra lífi fyrir hinsegin fólk út á við gegnum fræðslu og réttindabaráttu. 

Starfsemin er í raun gríðarlega breið, og þjónustuþörfin er sífellt að aukast. Við vinnum mjög mörg verkefni miðað við fjármagn, og þegar við hittum fólk frá systurfélögum okkar í Noregi og Svíþjóð eru þau mjög hissa á því fjármagni sem við fáum miðað við umfang starfseminnar. Við erum með 5 starfsmenn á skrifstofunni, og verktaka sem sinna fræðslu og ráðgjöf. Við finnum samt að stjórnvöld eru að vakna - nú í ár vorum við í fyrsta sinn hluti af fjárlagafrumvarpinu eins og það kemur frá ráðuneytinu, en á síðustu árum hefur okkur verið bætt inn eftir á af Alþingi. Frjáls framlög frá almennum borgurum eru líka að aukast, sem við erum ótrúlega ánægð með, við finnum að samfélagið er að vakna fyrir því hvað við erum í rauninni að gera mikið. Öll okkar verkefni eru að stækka, og þau krefjast tíma, mannskaps og fjármagns sem aldrei fyrr.

Aðspurður því hver stefna ríkisins sé hvað varðar hinsegin málefni, segir Álfur að margt hafi gerst á síðustu þremur árum.

Lögin um kynrænt sjálfræði voru skref í rétta átt, og nú í vor var tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks samþykkt, sem snýst í rauninni um að fara í gegnum reglugerðir innan ráðuneyta - þessar reglugerðir breytast ekki sjálfkrafa þó kynrænt sjálfræði sé fest í lög. Tillagan er kannski ófullkomin og það er margt sem við bentum á, en það er mikilvægt að þetta sé til, að þetta sé skref sem verið er að taka. En það mikilvægasta er kannski að nú er yfirlýst markmið ríkisstjórnar og Alþingis að gera vel, og þá er næsta skref að skoða hvernig hægt er að ná því markmiði, hvernig við getum aðstoðað þau og þau okkur. Þannig getum við aðstoðað stjórnvöld við að móta ábyrga stefnu í hinsegin málum, með reglulegri endurskoðun þessarar aðgerðaáætlunar þar sem við og önnur hagsmunasamtök hinsegin fólks komum að borðinu.

Síðan Álfur tók við keflinu í vor, segir hann ákveðinn vendipunkt hafa orðið í samfélaginu og að leggja þurfi áherslu á að sporna gegn hatursorðræðu af hálfu barna og unglinga með aukinni fræðslu.

Við höfum verið að sjá mjög skyndilega aukningu í hatursorðræðu, meðal annars hjá krökkum sem eru 13-15 ára. Okkur finnst því algjört lykilatriði núna að efla fræðslu í grunnskólum. Við verðum að ná til foreldra, barnanna sjálfra og kennara, og fræða fólk um hvað felst í fjölbreytileika og hvernig við getum stutt hvort annað, auk þess sem okkur finnst mikilvægt að þjálfa starfsfólk í að takast á við einelti og hatursorðræðu. Ofan á þá grunnþjónustu sem við veitum erum við á góðri leið með að ræða við mörg stærstu sveitarfélögin í landinu um þjónustusamning inn í grunnskólana. Þannig getum við náð til fjölbreytts aldurshóps barna og ungmenna sem og starfsfólks, auk þess sem við bjóðum upp á sérstaka aðstoð með erfið mál; þá bjóðumst við til að koma og hjálpa til við úrlausn þeirra. 

Auk fræðslu og ráðgjafar, segir Álfur að mikilvægur þáttur í starfsemi samtakanna snúist um að skapa rými fyrir hinsegin fólk til að koma saman, bæði hvað varðar börn og fullorðna.

Við erum að sjá mikla aukningu hjá fullorðnu fólki sem vill sækja þjónustu hjá okkur, fólki sem áttaði sig kannski á því að það væri hinsegin í miðju samkomubanni og hitti svo enga aðra hinsegin manneskju í tvö ár! Mikilvægur hluti af okkar þjónustu er að vera samkomustaður, við höldum úti bókaklúbbi og saumaklúbbi þar sem fólk getur komið og speglað sig aðeins í hvort öðru og kynnst samfélaginu. Hinsegin félagsmiðstöðin okkar er svo vettvangur fyrir ungmenni í sjálfsleit til þess að hittast og fá rými til að vera eins og þau vilja - það er fallegt að sjá 150 börn koma saman og finna sig í að vera þau sjálf. Þau mega vera skrítin saman!

Álfur hvetur öll til að kynna sér þá fjölbreyttu ráðgjöf sem samtökin bjóða upp á.

Það getur verið gott að ræða við manneskju sem hefur talað við tugi hinsegin fólks ef man er óvisst um hvort man sé hinsegin. Fólk kemur út úr skápnum á sínum eigin tíma og forsendum, og það getur hjálpað að eiga þetta samtal. Við bjóðum líka upp á ráðgjöf fyrir fólk sem vill leita réttar síns vegna ofbeldis sem það verður fyrir, og erum til staðar til að hjálpa fólki að fóta sig í kerfinu.

Hægt er að kynna sér alla liti regnbogans á íslensku máli á síðunni Hinsegin frá Ö til A (otila.is), en þar er hægt að lesa sér til um alls kyns kynhneigðir, kynvitundir og kyntjáningar. Samtökin starfrækja einnig félagsmiðstöðvar fyrir 10 til 12 ára, 13 til 15 ára og 16 til 18 ára, auk þess að halda utan um ungmennastarfið HinUng fyrir 18 til 25 ára. Þau sem vilja taka þátt í ungmennastarfi HinUng geta mætt á Suðurgötu 3 kl 19:30 annan hvern sunnudag. Hægt er að lesa sér betur til um það ungmennastarf sem er í boði á síðu Samtakanna ‘78. Þar má einnig finna hvernig hægt er að gerast Regnbogavinur og styrkja samtökin mánaðarlega til að styðja við áframhaldandi starf þeirra.