Um “Tvístruð” eftir Gabor Maté: Hvernig athyglisbrestur verður til og hvað er til ráða

Mynd: Gabor Gastonyi, Creative Commons leyfi

Þýðing: Sigurður Ingólfsson

Margir ganga að því vísu að Athyglisbrests- og ofvirkniröskun (ADHD) sé meðfætt ástand. En sé litið til þess hlutverks sem umhverfið leikur í þroskaferli barnsheilans, er uppruni þessarar geðröskunar ekki jafn augljós. Ungversk-kanadíski læknirinn Gabor Maté, sem er þekktur fyrir kenningar sínar um tengsl fíknar og fyrri áfalla, hefur einnig ýmislegt til málanna að leggja um uppruna og meðferð ADHD. Þar á meðal er það sjónarmið að sjúkdómurinn hefjist snemma á mannsævinni og að til séu meðferðarúrræði sem að vissu marki geti ráðið bót á honum. Í gagnmerku verki sínu um þetta efni, Tvístruð, setur Maté fram ályktanir sem byggjast á reynslu af meðhöndlun skjólstæðinga og hvetur lesendur sína til þess að endurskoða hugmyndir sínar um lífeðlisfræði heilans.

 

Áhrif umhverfis og erfða á uppruna ADHD

Margir freistast til að gera ráð fyrir því vélræna orsakasamhengi að ADHD sé arfgengt. En þó orsakir röskunarinnar hvíli vissulega á erfðafræðilegum grunni, þá er það aldrei tiltekinn erfðabreytileiki sem veldur henni sjálfri, enda er almennt ekki um að ræða beina tengingu milli sjúkdóma og litninga nema þegar afmarkaðir brestir í erfðakóðanum hafa beinlínis áhrif á framleiðslu nauðsynlegs lífefnasambands, eins og við á t.d. um sk. Lesch-Nyhan heilkenni. Litningarnir innihalda þegar allt kemur til alls einfaldlega uppskrift að þeim einingum sem líkaminn er samsettur úr og því hvernig þær tengjast innbyrðis og mynda kerfi. Eini sennilegi erfðaþátturinn í aðdraganda ADHD, segir Maté, er viðkvæmni, sem getur valdið því að lífvera sýnir óvenju mikil viðbrögð við utanaðkomandi áreiti. Þetta getur hvort heldur sem er hvatt til aðlögunar eða dregið úr henni, allt eftir aðstæðum í umhverfinu. Þannig getur úrvinnsla streituþátta umhverfisins leitt af sér aukin lífeðlisfræðileg viðbrögð þegar arfgeng viðkvæmni er fyrir hendi miðað við að svo sé ekki, sem getur skýrt hvers vegna sumir einstaklingar þróa með sér ADHD en aðrir ekki, þótt þeir búi við sömu umhverfislegu áhrifaþætti.

 

Taugatengingar og aðstæður í bernsku

Þegar barnsheilinn þroskast, er það umhverfið sem ræður því hvaða taugabrautir verða ráðandi, ef trúa má þeirri kenningu Geralds Maurica Edelman, sem oft er kölluð “tauga-Darwinismi”. “Taugafrumur, brautir, tauganet og kerfi tauganeta keppast innbyrðis um að lifa af. Það eru þær taugafrumur og taugamót sem mest notagildi hafa fyrir lífveruna með tilliti til þess hvort hún lifir af í tilteknu umhverfi, sem verða ofan á. Aðrar tengingar visna og falla í valinn.” Einkar ógeðfellt sýnidæmi þessa ferlis er lýsing á því þegar barni er haldið í myrkri á þroskaskeiði heilans, sem leiðir til visnunar sjóntauganna og þar með blindu. Umhverfisaðstæður geta með þessum hætti annað hvort örvað eða dregið úr þroska tiltekinna kerfa heilans.

Mynd: Maria Solomatina

Tengsl ADHD og aðstæðna í frumbernsku

Á fyrstu mánuðum lífs síns er mannsbarnið algjörlega ófært um að sjá sér farborða upp á eigin spýtur. Við tekur tímabil fósturs utan likama móðurinnar, þar sem umönnunaraðili líkir eftir skilyrðum móðurlífsins og skapar hvítvoðungnum þannig umhverfi líkamlegs og tilfinningalegs öryggis. Í ljósi þess hversu ósjálfstætt kornabarnið er á þessu æviskeiði þarf engan að undra að það sé næmt fyrir tilfinningalegu ástandi þess fullorðna sem annast það. Þar sem mannvera á þroskaskeiði á allt sitt undir umönnunaraðilanum, er myndun tilfinningasambands við hann eitt af skilyrðum eðlilegs þroska. Mikilvægur þáttur í slíku tilfinningasambandi er innstilling, þ.e. hæfni hins fullorðna til þess að bregðast við tilfinningalegum þörfum barnsins og öfugt. Vel innstillt foreldri les þær tilfinningalegu vísbendingar sem barnið gefur og bregst við þeim með viðeigandi hætti. Eins og hin óviðkunnanlega “tveggja sjónvarpstækja tilraun” sýnir, kemst barnið í tilfinningalegt uppnám við það að horfa á móður sína brosandi þegar hún ætti að vera að bregðast við með öðrum hætti miðað við þau merki sem barnið er að gefa, enda finnst barninu hún þá ekki vera að svara vísbendingum sínum. Þá foreldra skortir oft þessa innstillingu í tengslum sínum við barnið, sem eiga í höggi við streitu, þunglyndi, eða aðrar truflanir sem beina athygli þeirra frá foreldrahlutverkinu þrátt fyrir góðan vilja. Spennan sem af þessu hlýst í samskiptum foreldranna við barnið getur grafið undan tilfinningalegu öryggi þess og hamlað þroska þeirra kerfa barnsheilans sem tengjast athygli og temprun tilfinninga.

 

Taugatengingar og aðstæður á síðari æviskeiðum

Sé ADHD-röskunin áunnin, hlýtur sú spurning að vakna hvort vinda megi ofan af einhverjum þáttum hennar? Það sem gefur tilefni til bjartsýni, er að rannsóknir sýna að heili og taugakerfi mannsins halda sveigjanleika sínum alla ævi, í þeim skilningi að ný taugamót og nýjar taugabrautir halda sífellt áfram að myndast til þess að bregðast við áreiti frá umhverfinu. Greinileg víxlverkan umhverfis og einstaklingsbundinna hugsanaferla undirstrikar þá staðreynd, að án þess að umhverfið breytist “getur heilinn hvorki þróað nýjar taugabrautir, né hugurinn fundið nýjar leiðir til þess að tengja vitund og veröld.”

 

Eftirskrift

Svolítið lúmsk ályktun sem draga má af greiningu Gabors Maté á ADHD, er að hún undirstrikar hvernig félagsleg vandamál verða gjarna að lýðheilsuvandamálum. Maté sér spennuna í uppeldisvinnubrögðum foreldranna sem viðbrögð við grimmilegu vélgengi þjóðfélags sem krefst þess að foreldrar láti efnahagslegan árangur ganga fyrir öryggi ungra barna sinna.