Að vera breytingin

Mynd: Dino Ðula

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir


Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvert það myndi leiða mig að taka fyrstu skrefin mín á íslenskri grundu fyrir mörgum árum. Á þeim tíma ætlaði ég mér að vera hérna í eitt ár, skoða alla fegurðina og njóta náttúrunnar í þessu litla landi lengst í norðri. Ég skemmti mér, ég djammaði (þetta var fyrir heimsfaraldurinn), ég ferðaðist, ég grét og þegar árið var búið, var ég kyrr. Einhverra hluta vegna breyttust allar áætlanir mínar.

„Við getum gert hvað sem við viljum líf okkar við“

„Lífið er það sem gerist þegar þú ert of upptekið við að skipuleggja eitthvað annað,“ söng John Lennon þegar hann ímyndaði sér annan heim en okkar. En stundum áttar jafnvel ímyndunaraflið sig ekki á því hve hratt lífið getur breyst, oft þarf bara eina ákvörðun til. Vissulega eru sumar breytingar smávægilegar, matarsmekkur sem breytist með tímanum eða áhugamál sem þú vex upp úr. En sumar breytingar eru stórar, eins og að flytja, skipta um starfsvettvang eða sambandsslit.

Það er útbreiddur misskilningur að breytingar séu annað hvort af hinu góða eða slæma, að líf okkar breytist annað hvort til hins betra eða verra og að við munum óhjákvæmilega ganga oft í gegnum þessar breytingar. Þarna er mikilvægasti þáttur breytinga hins vegar hundsaður, að breytingar eru bara það: atburðir í lífi okkar sem við tengjumst engum sérstökum böndum. Breytingar verða góðar eða slæmar vegna þess að við krefjumst þess alltaf að flokka hlutina í kringum okkur til að átta okkur á þeim. Þó svo að innsæi okkar geri okkur þetta oftast kleift, reiðum við okkur oft á eigin skynsemi til að meðtaka aðstæður og áætla næstu skref. En skilningurinn á því að „hlutirnir“ gerast stundum bara, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þegar við reynum að samþykkja þá staðreynd förum við að ná tökum á eigin lífi.

Ákvörðun mín um að vera um kyrrt á Íslandi kom í kjölfar stórra breytinga í lífi mínu á stuttum tíma. Þær höfðu mikil áhrif á mig og neyddu mig til þess að horfast í augu við sjálfan mig. Til þess drepa þig, kæri lesandi, ekki úr leiðindum með smáatriðum læt ég nægja að segja að á einu augnabliki leið mér eins og ég hefði allt lífið í höndum mér og á því næsta var það allt farið. Allt nema ég, bugaður, uppgefinn og einn.

Ef þú brosir öllum við, brosir veröldin með þér

Eðlilega var þetta ekki í fyrsta skipti sem ég upplifði þess konar stakkaskipti í lífi mínu og sem betur fer hafði ég lært af fyrri mistökum og reynslu og vissi hvað þurfti til að byggja sjálf mitt aftur upp.

Það er áfall þegar lífið splundrast skyndilega, en það opnar líka á nýja möguleika og leiðir til að bæta ráð sitt. Á botninum verður það auðveldara að ákveða hvernig manneskja þú vilt vera, því þar missir þú helst þá ímynd sem þú hafðir áður af þér. Og þessi lífsreynsla getur orðið hið besta tækifæri til að feta nýja slóð og forðast með því að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur.

Mitt fyrsta og mikilvægasta skref var að beina athyglinni að því góða í sjálfum mér, í lífinu og öllu í kringum mig. Það er ekkert nema eðlilegt að vera svolítið hnuggið og velta sér upp úr sorginni, það er liður í því að líða betur. En ef kastljósinu er beint að því sem er jákvætt í kringum þig, sjá ástvini brosa og taka eftir þakklætinu sem fylgir jafnvel minnstu greiðum getur það kveikt lítinn ljósneista í hjartanu sem einn daginn verður að báli og boðar betri tíð. Sálfræðin á bak við þetta er einföld, rannsóknir sína að eitt lítið bros eykur dópamín og serótónín framleiðslu líkamans, efni sem hann framleiðir og stuðla að hamingju. Og ekki bara það, heldur verður fólk sem horfir á þig sem hamingjusama manneskju glaðara í kringum þig (eins og til dæmis í kringum hunda, og ungabörn).

Mynd: Dino Ðula

Haltu í hendi mér

Þó svo að breytingarnar sjálfar séu hvorki góðar né slæmar getur hegðun þín fram að þeim verið það. Það er þess vegna mikilvægt að gera sér grein fyrir eigin hlutverki í því sem varð til þess að breytingarnar áttu sér stað. Kannski var þetta allt þér að kenna, kannski gripu örlögin í taumana, það skiptir í rauninni ekki máli. Ég ítreka mikilvægi þess að leyfa tilfinningunum að vinna úr hlutunum, og þegar þær hafa lokið sér af tekur hugurinn við. Passaðu þig bara að fara ekki fram yfir ábyrgðarmörk, lífið er nógu flókið fyrir en þegar við eigum í samskiptum við annað fólk afmást mörkin milli hins rétta og ranga. Það er mikilvægur liður í sáttinni að átta þig á þínum hluta samskiptanna því það kennir þér að þú hefur annars vegar enga stjórn á hegðun annarra og getur hins vegar ekki dregið sjálft þig til ábyrgðar fyrir gerðir þeirra.

Að lokum skaltu hlúa vel að þér. Borðaðu ís. Láttu það í ljós hvað þú ert stolt af afrekum þínum. Vertu besti vinur þín sjálfs því að þegar uppi er staðið er það besti vinur sem völ er á.

Mistök þín skilgreina þig ekki, og eiga ekki að gera það því framtíðin er alltaf í þínum höndum. Breytingarnar munu halda áfram að eiga sér stað og ég er fullviss um það að næst verðir þú tilbúið til að gera það besta úr hlutunum.

SjónarmiðDino Ðula