Getur eitthvað komið í staðinn fyrir æskuíþróttina?

Grafík: Sóley Ylja A. Bartsch

Til er klisja sem hljóðar einhvern veginn á þá leið að það sé auðvelt að halda sig við hreyfingu, svo lengi sem þú finnur eitthvað sem þér þykir skemmtilegt að gera. En hvað ef við getum ekki gert það sem veitir okkur gleði lengur? Hvað ef við finnum ekkert sem okkur langar til að gera í staðinn? Það vill einmitt svo óheppilega til að ég hef verið í þessum sömu sporum, að geta ekki stundað þá hreyfingu sem fyllti hjarta mitt af gleði og hef átt erfitt með að finna staðgengil. Ég hef því oft leitt hugann að þessu vandamáli, hvað ég geti gert því öll vitum við að hreyfing er góð. Ekki bara upp á líkamlega heilsu heldur einnig hina andlegu. 

Það sem við áttum okkur oft ekki á með klisjur er að þær eru það af ástæðu, vegna þess að oftar en ekki eiga þær sér stoðir í raunveruleikanum. Við þurfum í alvörunni ekki að pína okkur í gegnum hreyfingu sem við njótum ekki eða eyða endalausum tíma í hana, til þess eins að geta lifað „heilbrigðum“ lífsstíl. 

Að endurskapa glataðar upplifanir

Mörg okkar þekkja eflaust þá tilfinningu að hafa æft einhverja íþrótt í grunn- og jafnvel menntaskóla og hafa þurft að hætta af einhverjum ástæðum. Til að mynda þá æfði ég listskauta til átján ára aldurs og finn að það er fátt sem kemur í staðinn fyrir að heyra brakið í ísnum undan skautunum mínum, tilfinninguna að stökkva hátt upp í loftið og lenda með svo miklum krafti að ef ég passa mig ekki gæti ég brotið á mér ökklann. Að snúast svo hratt að hárið slæst í andlitið á mér og að finna fyrir köldu loftinu á húðinni jafnvel þótt mér sé brennheitt. 

Þó fátt geti endurskapað þessa upplifun þá get ég brotið íþróttina niður og áttað mig á hvað það var sem ég fékk raunverulega út úr iðkuninni. Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að einblína á tæknina, reyna við ákveðið stökk eða spor, ná því rétt og sjá árangur. Þess vegna hefur dans alltaf heillað mig og hreyfingar sem ég get blandað við aðrar í takt við tónlist. Ég sakna einnig félagsskaparins, að vera hluti af heild – að fara á æfingar snerist alltaf að miklu leyti um stelpurnar sem ég var með og samband mitt við þjálfarana. Að hvetja hverja aðra áfram, sjá þær ná fram árangri og fá það sama frá þeim. 

Erum við of gömul?

Með þetta í huga get ég skoðað hvaða hreyfingar gætu hentað mér, vitandi að ég nýt mín best þegar ég reyni við einhverja tækni og það í góðum hópi. Ég hef reynt ýmislegt á borð við jóga, klifur, fjallgöngur og hjólatúra og þótt ég hafi gaman að öllu þessu þá hef ég ekki fundið að ég haldi mig við hreyfinguna með reglulegum hætti. Ég hef því hugsað með mér hvort það sé kannski ómögulegt að finna sig í hreyfingu svo seint á lífsleiðinni, þar sem ég er orðin ríflega 24 ára gömul. 

Fyllum þarfamælinn hér og þar 

En þá hef ég áttað mig á því að ég þarf ekki endilega að fá allt það sama frá einni hreyfingu, ég get notið félagsskaparins þegar ég fer í fjallgöngur og reyni eitthvað nýtt með vinum mínum, ég get fundið að ég einbeiti mér að tækninni þegar ég dansa heima hjá mér og ég get fundið fyrir kraftinum sem ég nýtti eitt sinn í að stökkva hátt og skauta hratt þegar ég fer út að hlaupa eða fer í ræktartíma – sem ég fer sjaldan ein í og þaðan fæ ég félagskapinn líka. Það er hægt að blanda þessu öllu saman og fylla þannig í þarfamælinn hér og þar. Lykillinn er bara að finna réttu hlutföllin sem virka fyrir hvert og eitt okkar. 

Svo lengi sem ég get gleymt mér um stund, lagt verkefni dagsins til hliðar og einbeitt mér að því sem er fyrir hendi, þá skiptir ekki máli hversu krefjandi hreyfingin er eða hvað ég geri mikið af henni. Ég þarf bara að gera eitthvað sem veitir mér einhverja gleði og ég veit að ég mun fá eitthvað af þeim þremur skilyrðum sem ég setti mér. Þá er hún að gera mér gott og mig mun langa til þess að gera meira af henni.