Vill gefa gæðum háskólanáms meiri athygli: Viðtal við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur

Eftir kosningarnar síðasta haust var ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta í ríkisstjórn. Með nýja stjórnarsáttmálanum var stokkað verulega upp í ráðuneytunum og það fór svo að háskólarnir fengu glænýtt ráðuneyti og með því glænýjan ráðherra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum dómsmálaráðherra, státar nú af titlinum: Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Með þessari breytingu er verið að leggja áherslu á háskólamálin og tengingu þeirra við samfélagið,“ segir Áslaug Arna í samtali við Stúdentablaðið. „Það er á alla kanta, hvort sem það er tenging við nýsköpun, að nýta íslenskt hugvit eða rannsóknir betur.“ Hún segir að þá þekkingu sem háskólasamfélagið skapi þurfi að yfirfæra betur inn í samfélagið. „Tökum stærri áskoranir til dæmis,“ segir hún. „Fátækt, loftslagsmál og öldrun þjóðar. Hugvit og rannsóknir munu leysa þessi mál á næstu áratugum ef haldið er rétt á spilunum.“ 

Nýsköpun í öllu sem við gerum

„Með því að gefa háskólanum þennan stall, gefa honum sér ráðuneyti, með öllu þessu hugviti og þekkingu, vonast ég til þess að við getum gefið gæðum námsins aukna athygli og veitt það rými sem háskólamenntunin þarf,“ segir Áslaug. Hún segir það vera markmið ríkisstjórnarinnar að geta borið sig saman við Norðurlöndin en þá sé ekki einungis átt við fjármögnun heldur einnig hvar við stöndum þeim jafnt og hvar ekki. „Það þarf að skila sér í því að með auknu fjármagni fylgi aukin gæði í háskólastarfinu okkar,“ segir hún.“ 

Þetta ætli þau að gera með því að nýta tæknibreytingar til að auka lífsgæði, með íslensku hugviti. „Með því að gera það sköpum við fjölbreyttari, öflugri og meira skapandi störf fyrir ungt fólk í íslensku samfélagi sem er að útskrifast úr háskóla,“ segir Áslaug. Hún segist vona að með þessu verði Ísland ekki lengur einhæft auðlindakerfi heldur byggi á fleiri og fjölbreyttari stoðum sem skapi ríkulegri sjóð atvinnutækifæra svo fólk velji Ísland. „Hvort sem það er fyrir ungt fólk úr háskólanámi, eldra fólk sem vill geta aflað sér nýrrar þekkingar í skólakerfinu vegna þess að störf þeirra eru ef til vill orðin úrelt eða tæknin hefur tekið við, eða til að laða til okkar erlenda aðila.“ 

Áslaug segir að almennt skipti máli með menntakerfið í heild sinni að ekki sé litið á nýsköpun sem einn málaflokk. „Heldur náum við að innleiða nýsköpunarhugsun í allt sem við erum að gera. Að [hún] hefjist strax með ungu fólki í grunnskóla, hugsunin að það sé hægt að búa til eitthvað sjálft. Það skiptir máli að við séum að styðja við grunnrannsóknir sem og tækniþróun,“ segir hún. „Þá held ég að íslenskt samfélag geti orðið miklu meira aðlaðandi. Bæði fyrir ungt fólk en líka fyrir fólk sem myndi vilja flytjast hingað.“

Vill hjálpa fólki að fljúga 

Mynd: Mandana Emad

Aðspurð hvernig Áslaug sjái fyrir sér að ná fram þessum breytingum segir hún að inn á við sé verið að brjóta niður múrana í ráðuneytinu á þann veg að það séu engar fagskrifstofur, að engir múrar séu á milli málaflokka. „Út á við snýst þetta um að pólitíkin sé frekar að skapa grundvöll, búa til umhverfið og lyfta fólki. Hjálpa fólki að fljúga. Að það borgi sig að fjárfesta í fullt af fólki og hugmyndum því sumar munu fljúga svo hátt þegar þú sleppir þeim að þær munu skila sér margfalt til baka,“ segir hún. „Það felst aðallega í því að búa til þannig umhverfi að það séu ekki til múrar.“ Áslaug segir það vera áskorun og ekki endilega stjórnmálamannsins að berja þá niður heldur að umhverfið geti leyst kraftana úr læðingi með því að fólk tali saman. 

Áslaug segir Grósku vera gott dæmi um þekkingarheim þar sem leiðandi fyrirtæki í nýsköpun og þróun, lítil fyrirtæki að fóta sig, markaðsfyrirtæki og önnur innan háskólasamfélagsins eru saman á einum stað og eiga í samtali. „Verkefni mitt þessa fyrstu mánuði er ekki að vita betur en þetta fólk, heldur einmitt að heyra frá því. Hvar við getum gert enn þá betur og hvar við getum haldið áfram að skara fram úr. Við þurfum að halda áfram að vera í sókn því það eru allir að verða betri,“ segir hún. Ísland hafi upp á svo margt að bjóða og nefnir Áslaug þar nálægð við náttúruauðlindir, mannauðinn, unga fólkið okkar og hugsunarhátt. Hún segir okkur hafa allt til þess að hægt sé að skapa hér umhverfi sem laði til sín bestu loftslagstækni í heimi, til dæmis. 


Markmið að fólki takist að klára háskólanámið

Endurskoðun menntasjóðsins hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið enda hefur hann gífurleg áhrif á lífskjör stúdenta. Áslaug segir menntasjóðinn hafa skýrt markmið, að tryggja jafnrétti fólks til náms óháð efnahag og stöðu. „Við þurfum að gera ráð fyrir að hann svari því kalli og að í því séu ákveðnir hvatar til að búa til gegnsærra og gegnsærra og betra stuðningskerfi fyrir námsmenn, sem er bæði sanngjarjt og jafnvægt,“ segir hún. „Ég held að við þurfum að spyrja hvort stuðlað hafi verið að nógu miklu gegnsæi með síðustu breytingum og hvenær best sé að greiða út styrkinn.“ Áslaug telur að endurskoðun á lögum sjóðsins þurfi að gerast í góðu samráði við þá sem hafi reynslu af kerfinu og geti sagt til um hvaða breytingar voru raunverulega til bóta og hvort einhverjar hafi verið gerðar á kostnað annarra úrræða sem voru góð. Hún segir að skoða megi hvaða hvatar þetta geti verið, hvort sem það eru bætt almenn lífskjör, hærri grunnframfærsla eða hækkun frítekjumarks. Þetta séu allt spurningar sem hún þurfi að hafa í huga þegar hún fari inn í þetta ár. 

„Ég hef litið til þess að fólk verði meðvitaðra um kostnað á háskólanámi,“ segir Áslaug og á þá við að námsleiðir geta verið miskostnaðarsamar og það getur aukið meðvitund um fjármunina sem fara í háskólakerfið. „En við reynum að tryggja jafnræði, svo fólk borgi ekki meira fyrir mismunandi námsleiðir.“ Hún segir að ekki megi taka námi sem sjálfsögðum hlut og skoða megi hvort brotthvarf fólks úr námi sé hærra miðað við Norðurlöndin og af hverju það stafi. Þá megi spyrja hvernig hægt sé að fjárfesta betur í því fólki sem innritast háskólana. „Það hlýtur að vera raunverulegt markmið okkar að þeim sem byrja í háskólanámi takist að klára það.“ 


Stjórnarráðið á að verða eins og legókubbar 

Með breytingum á ráðuneytum hefur háskólinn verið slitinn frá grunn- og framhaldsskólastiginu og eflaust velta mörg því fyrir sér hvort gjá geti þá myndast þar á milli. Áslaug segist ekki hafa áhyggjur af þessu: „Við höfum verið að vinna mikla vinnu í stjórnarráðinu og brúa bilin á milli ráðuneyta líka. Það eru mörg mál sem eru þvert á ráðuneyti þannig að þau verða að geta unnið saman,“ segir hún. „Við Ásmundur Einar [mennta- og barnamálaráðherra] höfum starfað mjög vel saman hingað til og erum strax byrjuð á ýmsu sem tengist því að brúa þetta bil á milli framhalds- og háskólamenntunar.“ 

Áslaug segir að það sé margt sem kallar á góða samvinnu og tekur dæmi um að hún vilji og þörf sé á að fjölga fólki í tækni- og iðngreinum., Mikilvægt sé að geta kynnt slíkt nám vel í grunn- og framhaldsskólum. „Ég er ekki hrædd um að það muni bitna á þessum skólastigum að þau heyri undir sitthvort ráðuneytið. Ég held þvert á móti að þau muni fá aukna athygli og verkefnin á milli verði enn þá dýnamískari.“ 

„Ég vona almennt að stjórnkerfið verði meira eins og í löndunum í kringum okkur þar sem svona sveigjanleiki og breytingar eru gerðar til að ná fram ákveðnum kröftum.“ Hún segir það ekki þurfa að vera of kostnaðarsamt eða of slítandi því stjórnarráðið eigi að vera farið að vinna það vel saman. „Það er draumurinn, að þetta virki eins og legókubbar sem hægt er að setja saman með alls konar hætti.“ 

Mynd: Mandana Emad

Háskóli Íslands einstakur skóli 

„Þetta ráðuneyti er tækifæri fyrir ungt fólk á Íslandi, að mínu viti,“ segir Áslaug þar sem sýnin sé sú að ná í tækifærin sem íslenskt hugvit skapar og að stækka það sem útflutningsgrein. Með þeirri þróun verði störf og tækifærin sem bíða stúdenta eftir nám enn fleiri og fjölbreyttari. „Nemendur og stúdentar skipa mjög stóran þátt í þeirri þróun og ég er á fullu að sanka að mér hugmyndum og heyra frá þeim sem eru að búa eitthvað til eða leita lausna á einhverjum hlutum.“ 

Áslaug segir að alltaf megi nálgast hana með vangaveltur og koma á framfæri hugmyndum. „Ungt fólk á að eiga mjög greiða leið að þessu ráðuneyti og það er mikilvægt að það komi að mótun þess,“ segir hún. „Því þetta er ráðuneyti um framtíðina og tækifærin sem bíða okkar.“ Hún segir ríkisstjórnina hafa búið það til svo að hlutirnir geti vonandi farið að hreyfast hraðar. „Ég er svolítið, eins og svo margt ungt fólk, óþolinmóð eftir því að hlutirnir gerist og það getur verið gott að þessir málaflokkar fái ráðuneyti þar sem hlutirnir eiga að gerast hraðar.“

„Svo er Háskóli Íslands einstakur skóli sem er að hreyfast mjög hratt líka,“ segir Áslaug. „Það er til dæmis mikill innblástur í því að fá að hitta fólk sem kemur úr íslenskum háskólum og er að skapa vöru eða hugmynd sem getur raunverulega haft áhrif á loftslagsmál heimsins. Þetta er það sem drífur mann áfram í vinnunni við að halda áfram að láta Ísland vera framúrskarandi, til þess að svona fyrirtæki og hugmyndir fólks nái að blómstra og þau fljúgi ekki eitthvað annað.“ Hún biðlar til fólks að leyfa sér að hugsa stórt og hika ekki við að hafa samband hafi það hugmyndir sem skipta máli í þessari vinnu.