Landslag, örnefni og Ísland: Viðtal við Dr. Emily Lethbridge

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir

Hin enska Dr Emily Lethbridge er með doktorsgráðu frá Cambridge-háskóla í fornnorrænum bókmenntum. Hún vinnur nú á Stofnun Árna Magnússonar og kennir miðaldabókmenntafræði- og menningu við Háskóla Íslands. Hún hefur búið á Íslandi frá árinu 2011, þegar hún flutti hingað vegna vinnu. Ég er þakklát fyrir það að fá að deila broti af sögu hennar með ykkur, í hennar eigin orðum.

Mynd: Emily Lethbrige

Sveitadoktor

Ég lærði forníslensku í mörg ár, líkt og sum myndu læra latínu eða grísku í klassískum fræðum. Þetta var mjög passíft nám, afar bóklegt án nokkurs konar tengingar við nútímann. Ég vissi svo sem að nútímaíslenska er töluvert skyldari forníslensku en önnur nútímamál við forfeður sína, til að mynda enska, og vegna þess að við höfðum ekki tækifæri til að læra nútímaíslensku ákvað ég að koma til Íslands í einhvern tíma til að læra tungumálið á mjólkurbúi úti á landi. Ég lærði rosalega mikið á þessu því ég reyndi að tala eins mikla íslensku og ég mögulega gat. Ég var svo heppin að vera bæði hjá fjölskyldu sem mér kom mjög vel saman við og fékk að vinna líkamlega vinnu sem var góð tilbreyting frá öllum bókalestrinum. Annað sem kom sér mjög vel síðar meir var að ég fékk eigin tilfinningu fyrir íslenska landslaginu. Ég sá landslagið í öllum bókmenntunum sem ég hafði skoðað eins og Íslendingasögurnar, og hvernig það landslag á við Ísland dagsins í dag. Þetta vakti áhuga minn þarna árið 2008 og leiddi á endanum til þess að í heilt ár, frá janúar fram í desember 2011, bjó ég í Land Rover defender sjúkrabíl sem ég hafði keypt í Bretlandi og tekið með mér til Íslands. Ég bjó ein í bílnum og skoðaði alla þá staði sem nefndir eru í Íslendingasögunum fjörutíu-og-eitthvað og spannera næstum allt Ísland. Ég fór sérstaklega á þá staði sem minnst er á í landnámssögunum og eiga sér stað á fyrstu öldum íslenskrar sögu.

Að læra íslensku

Þetta hjálpaði mér mikið að læra íslensku og kynna mér íslenska menningu. Ég kynntist fullt af fólki og upplifði margs konar ævintýri og hörmungar. En þetta mótaði mig og hjálpaði mér að móta mitt sjónarhorn af Íslandi. Ég fékk svo rannsóknarstöðu hjá Árnastofnun og hélt þar áfram að vinna við handritin, bundin við skrifborðið á kafi í rannsóknum. Á meðan þessu stóð fór ég að velta betur fyrir mér eigin hugmyndum um landslagið, hvað örnefni voru mikilvæg á Íslandi í áranna rás og hve stórt hlutverk þau spila í skilningi okkar á Íslendingasögunum. Akademískur bakgrunnur minn og rannsóknir mínar gerðu það að verkum að fólk tók mér alltaf mjög vel og var spennt að heyra um það sem ég var að gera. Þau voru forvitin að vita afhverju Englendingur hefði áhuga á því að læra íslensku og eyða fjölda ára í að rannsaka og hugsa um Íslendingasögurnar. Í hreinskilni sagt, og smá útúrdúr, sú staðreynd að ég er hvít og kom frá Cambridge-háskóla, og tilheyri fyrri hefð þar sem Bretar koma til Íslands og vilja læra íslensku og skoða sögustaðina, held ég að ég hafi passað vel inn sem eins konar nútímasendiboði þeirrar hefðar. Ég er sannfærð um að þetta hafi auðveldað mér margt. Það efaðist enginn um ásetning minn þegar kom að því að læra íslensku og rannsaka bókmenntirnar. Þetta virðist augljóst ef ég ímynda mér að ég hafi komið annars staðar að úr heiminum eða hefði annan menningarbakgrunn. En samt, ég lagði mig alla fram um að læra og nota íslenskuna og það opnuðust klárlega margar dyr fyrir mér út af því. Ég gerði í því að tala alltaf íslensku í vinnunni sem leiddi af sér sterk og náin sambönd við vinnufélaga mína vegna þess hve þolinmóð þau voru við mig frá upphafi.

Lífið núna

Ég vinn núna á nafnfræðisviði Árnastofnunnar. Ég hef gegnt ýmsum stjórnendastöðum og þar á meðal í samstarfi við Landmælingar Íslands. Það koma oft upp ágreiningar um örnefni og hver þeirra eru rétt. Fólk á það til að vilja breyta nöfnunum eða búa til ný nöfn en á Íslandi eru reglur og lagabálkur sem vernda örnefni. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að hefðin fyrir örnefnum er mjög rík og menningarleg arfleifð þeirra tengist beint inn í íslensku þjóðarsálina. Þarna skarast rannsóknir mínar við skilning minn á nútímasamfélagi. Mér finnast örnefni spila stórt hlutverk í samhengi við innflytjendur og útlendinga hér á landi. Þetta er einhvern veginn fullkomið dæmi um það hvernig fólk getur verið þátttakandi í samfélagi eða áhorfandi. Örnefni hafa enga þýðingu fyrr en þú ferð að læra íslensku, bara samansafn atkvæða sem er erfitt að bera fram og hafa enga þýðingu. En um leið og þú ferð að læra málið áttar þú þig á því að örnefnin eru ansi gagnsæ og lýsandi fyrir umhverfið. Þá færðu tilfinningu fyrir landslaginu og því að hér eigir þú heima. Þegar kemur að sjálfsímyndinni skiptir þetta sköpum.

Photo: Emily Lethbridge

Verkefni í gangi

Uppáhaldsverkefnið sem ég er að vinna að um þessar mundir fjallar um konur og landslag. Ég hef mikinn áhuga á kynjuðu landslagi, hugtakinu landslag og það er til fjöldi rannsókna um landslag sem mannanna verk. Fyrst um sinn er auðvelt að ímynda sér að landslagið sé bara hérna. En það er ekki satt. Landslag er alltaf pólítiskt, samansett, undir áhrifum hugmyndafræði, hagnaðar eða samfélagslegra þátta. Þessir þættir hafa svo áhrif á það hvernig við meðtökum landslagið. Kynjað landslag er sú nálgun þegar við reynum að átta okkur á því hvaða kynjuðu stærðir hafa áhrif á landslagsmótun. Spurningar á borð við: er landslagið bara svona eða hefur það verið mótað út frá karllægum eða kvenlægum sjónarmiðum, eða jafnvel hvoru tveggja? Hver mega koma hvert? Ef maður ímyndar sér afskekkt svæði, til dæmis, er hægt að spyrja sig hvar konum finnast þær öruggar og hvar ekki. Hvað eru margar götur nefndar eftir körlum, og hve margar eftir konum?

Ég er líka að vinna að verkefni um ferðaskrif, sem mér þykir sérstaklega áhugavert því önnur komu að heimsækja Ísland og skrifuðu um það, alveg eins og ég. Eitt dæmi um þetta er William Morris sem kom til Íslands fyrst árið 1871 og svo 1873. Hann er stórt nafn í breskri menningar- og stjórnmálasögu. Hann var þessi týpíski, hvíti, efristéttar- og forréttindakarl sem lærði íslensku og var tekið opnum örmum af öllum þeim Íslendingum sem hann hitti. Konur ferðuðust að sjálfsögðu líka en frásagnir þeirra hafa ekki verið rannsakaðar jafn mikið. Ég er sérstaklega að skoða frásagnir kvenna á 19. og 20. öld og ein þeirra er einmitt dóttir William Morris, May Morris. Ég hef fengið aðgang að skrifum hennar en þrátt fyrir að hún hafi þrisvar komið til Íslands hafa skrif hennar aldrei verið birt.

Ég er að skrifa upp dagbækur hennar og velta því hvernig samband hennar við Ísland var fyrir mér, hvernig hún lýsir stöðunum sem hún heimsækir og hvernig hún skrifar um ferðina miðað við föður hennar. Ég mun færa frásagnir hennar í stærra samhengi við aðrar konur sem ferðuðust hingað og lærðu íslensku. Fræðasamfélagið hefur alltaf haft meiri áhuga á frásögnum karla og ég vonast til að rétta þann halla sem er á konur aðeins.

Uppáhaldsörnefni

Þetta er erfið spurning. Það eru mörg örnefni sem hafa forskeytið „vetur“, til dæmis Veturlönd. Það eru mjög margir staðir með orðinu vetur. Þegar ég tók fyrst eftir þessu hugsaði ég „Vá, Veturland, en vægðarlaust örnefni“. Ég hugsaði mér að þarna hlyti alltaf að vera kalt, dimmt og erfitt. Hugrenningartengslin eru ansi neikvæð. Svo fletti ég þessu upp í nokkrum bókum og komst að því að þessi örnefni sem hafa „vetur“ að forskeyti hafa það ekki því þarna er alltaf vetrarlegt eða snjór, heldur vegna þess að þarna fengu húsdýrin inn á veturnar því þar var meira gras, eða þar sem betri aðstæður voru til búskapar. Sem sagt, staðurinn sem þú getur notað á veturna, akkúrat öfugt við það sem ég bjóst við og gekk út frá. Ég elska þessi örnefni því þau minna mig á að stundum getur þú skilið örnefni strax en stundum þarftu að hugsa aðeins til að átta þig á þeim.

Í ljósi þess að þetta var síðasta greinin mín í blaðinu átti ég erfitt með að velja milli þess að skrifa um eitthvað alvarlegt og mikilvægt í samhengi við fjölbreytileika, eða að taka þetta viðtal. Ég hafði bara tíma til að skrifa eina grein og valdi það að tala við Emily og deila sögu hennar því ég trúi því staðfastlega að öll eigi sér einstaka ástæðu fyrir dvöl sinni á Íslandi, og að útlendingarnir sem búa hérna eru hluti af síbreytilegu landslagi Íslands.