Uppskriftahorn: Orkustykki

Brátt líður að sumri sem getur einungis þýtt að nú fara stúdentar í stríðum straumi að ferðast um landið okkar, og þá þarf að hafa með gott nesti. Þegar lagt er upp í bílaferðalag verður að huga vel að nestinu en það þarf að geymast vel í heitum bíl, ofan í bakpoka og það jafnvel í nokkra daga. 

Við á Stúdentablaðinu höfum því tekið saman nokkur ráð til að hafa í huga þegar nesti er pakkað niður fyrir ferðalag og uppskrift að orkustykki sem hægt er að útbúa fyrirfram. 

Atriði sem gott er að hafa í huga: 

  • Það er ekki gott að taka með sér mat sem bráðnar auðveldlega, molnar mikið, er olíukenndur eða lyktarsterkur. 

  • Ef þú ætlar að borða undir stýri þurfa umbúðirnar að vera auðveldar og minimalískar. 

  • Gott er að hafa með orku- og hitaeiningaríkt snarl til að seðja sárasta hungrið. 

    • Hnetumix, þurrkaðir ávextir og hafrastykki uppfylla þessi skilyrði og geymast lengi og auðveldlega. Bæði er hægt að kaupa tilbúið eða undirbúa heima. 

  • Samlokur eru alltaf gott nesti en það er best að forðast álegg sem þarf að geyma í kæli þegar haldið er af stað í lengri ferðir. 

  • Mundu að taka með nóg af drykkjum.

Mynd: Anna Björnsdóttir

Orkustykki: 

Hráefni: 

  • ¾ bolli hnetusmjör að eigin vali

  • ½ bolli hunang

  • 2 matskeiðar kókosolía 

  • 1 teskeið vanilludropar

  • ½ teskeið sjávarsalt 

  • 2 og ¼ bolli haframjöl 

  • 1 bolli saxaðar möndlur og önnur fræ að eigin vali

  • ½ bolli saxað súkkulaði eða rúsínur



Aðferð: 

  1. Blandið saman hnetusmjöri, hunangi og kókosolíu í potti og látið yfir vægan hita þangað til blandan fer að sjóða. 

    1. Passið að hræra vel í og lækkið hitann ef blandan fer að brenna. 

  2. Takið blönduna af hellunni og bætið við vanilludropum og sjávarsalti. Hrærið vel saman. 

  3. Bætið við öllum öðrum hráefnum. Ef þið viljið koma í veg fyrir að súkkulaðið bráðni mælum við með að geyma það, kæla blönduna í 15 mínútur og bæta því svo við. 

  4. Takið lítið skúffukökuform (15x30cm) og látið bökunarpappír í botninn. Þjappið þvínæst blöndunni vel ofan í formið. 

  5. Kælið blönduna vel í um klukkutíma í ísskáp. 

  6. Þegar allt er vel kælt er hægt að taka blönduna úr forminu og færa yfir á skurðarbretti og skera í stykki - stærð að eigin vali. 

  7. Pakkið stykkjunum í smjörpappír og takið með í ferðalagið!