Háskólafélag Suðurlands opnar fyrir umsóknir um styrki

Nemendur við Háskóla Íslands sem eru að vinna að lokaverkefnum sem hafa gildi fyrir sunnlenskt samfélag geta nú sótt um styrk hjá Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands á vefsíðunni hfsu.is. Þá hafa verkefni stundum hlotið styrk eftir á og geta nemendur sem hafa lokið eða eru að ljúka verkefni líka sótt um styrk. Sjóðurinn styrkir lokaverkefni á öllum stigum, BA/BS-verkefni, meistaraverkefni og doktorsverkefni en umsóknarfrestur er 5. janúar 2024 og styrkþegum verður tilkynnt um úthlutun í lok janúar. Þá eru alþjóðanemar sérstaklega hvattir til að sækja um og mega skila umsókn á ensku. „Við erum meðvituð um að það getur reynst erfitt fyrir vel menntaða innflytjendur að finna störf við sitt hæfi en svona styrkir geta verið byrjunarpunktur þegar kemur að því að koma á tengslum milli nemenda og fyrirtækja og það getur hjálpað til þegar kemur að framtíðarstarfi,‟ segir Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Háskólafélagsins í viðtali við Stúdentablaðið.

Fyrsta úthlutun Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands var árið 2002 en síðan þá hefur sjóðurinn styrkt sunnlensk nemendaverkefni á hverju ári. Þá hafa 42 verkefni fengið styrk frá sjóðnum, eða 1 til 3 verkefni á ári, og er árleg úthlutun um 1 til 1,5 milljón. Helstu styrktaraðilar sjóðsins hafa verið sunnlensk sveitarfélög ásamt einkafyrirtækjum á borð við Landsvirkjun og Mjólkursamsöluna. Verkefnin hafa verið alls konar og ekki einskorðuð við raunvísindaverkefni. Til að mynda hafa ýmis lokaverkefni í ferðamálafræði, menntavísindum og landfræði fengið styrki úr sjóðnum á síðastliðnum árum, en eina skilyrðið fyrir úthlutun er að verkefnið tengist Suðurlandi. Dæmi um verkefni sem hafa hlotið styrk eru að finna á heimasíðu Háskólafélagsins.


Háskólafélagið hefur nýlega gert ýmsar umbætur á umsóknarferlinu, með því meðal annars að útbúa umsóknarform inni á heimasíðu HfSu, einfalda ferlið og gera upplýsingar um sjóðinn aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Þá var líka ákveðið að lengja umsóknartímabilið með það fyrir augum að auðvelda nemendum að sækja um. Styrkþegum verður áfram boðið til hátíðarfundar Vísinda- og rannsóknarsjóðs þar sem þeir veita styrknum viðtöku úr hendi forseta Íslands eins og venjan hefur verið.

Starfsmenn á skrifstofu Háskólafélags Suðurlands: Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri, Ingibjörg Rúnarsdóttir and Berglind Sigmundsdóttir.

Hlutverk Háskólafélags Suðurlands er að færa menntun, rannsóknir og nýsköpun nær Sunnlendingum. Stofnunin veitir viðurkennda prófaþjónustu fyrir framhalds- og háskólanema í Fjölheimum á Selfossi (rétt hjá sundlauginni), með um og yfir 1000 próftökur á ári hverju. Í Fjölheimum er einnig lesaðstaða sem hægt er að fá aðgang að og er hún opin alla sjö daga vikunnar frá kl. 7-24 (sjá nánar á hfsu.is). Lesaðstaðan er með lesbásum, auk kaffistofu fyrir nemendur. Þá rekur félagið einnig Hreiðrið - frumkvöðlasetur sem hefur það hlutverk að styðja við og efla frumkvöðla á Suðurlandi.