Hröð breytileg átt: Að sjá skóginn fyrir trjánum

„Klukkuna vantar 90 sekúndur í miðnætti.“

Snemma árið 2023 þokuðust vísar Dómsdagsklukkunnar enn nær miðnætti, sem þýðir að stórslys á heimsvísu stendur nær okkur en nokkru sinni fyrr. Þessar fréttir berast á sama tíma og stríð geisar í Úkraínu og eru lifandi dæmi um það hvernig aðgerðir fáeinna manna geta haft stórtækar afleiðingar fyrir heiminn í kringum þá. Það eru hins vegar fleiri þættir en stríðið sem komu okkur hingað.

Áhrif mannkyns á umhverfið eru ekki bara óumdeilanleg, þau eru auðséð og því engin þörf á því að ímynda sér framtíðina til þess að gera sér grein fyrir áhrifum mannkyns á umhverfið. Ef við hugsum rúm þúsund ár aftur í tímann til Ingólfs Arnarsonar, er þar skýrt dæmi um hvernig leiðangur manns í leit að betra lifi olli (ó)beinum skaða á viðkvæmu umhverfi lítillar eyju í köldum viðjum Atlantshafsins.

Eyjan sem nefnist Land elds og íss.

Hið trjásnauða land.

Eitt lítið skref fyrir mann…

Ingólfur Arnarson er meira en stytta á gróinni hæð í miðborg Reykjavíkur. Hann er gjarnan talinn fyrsti (norræni) landnámsmaður Íslands, en hann nam land í lok 9. aldar og settist að í Reykjavík. Þetta var upphafið á þjóðveldisöld Íslands, og víkingarnir sem hingað fluttu höfðu umtalsverð áhrif á náttúruna í kringum sig, þó ekki sé við þá að sakast vegna þessa. Þá vantaði fæðu og skjól, og besta leiðin til að tryggja hvoru tveggja var að höggva niður tré; þau var hægt að nýta sem eldivið og verkfæri, og landið sem stóð eftir nýttist sem beitiland fyrir sauðfé. Það bætti ekki úr skák að kindur átu upp græðlingana sem gerði trjám ómögulegt að dafna. Þetta leiddi á endanum til þess að skóglendi, sem áður þakti um 25-40% landsins, hvarf að mestu leyti og er í dag innan við 1% af landsvæði Íslands. Svo gríðarleg var skógeyðingin að í byrjun 20. aldar höfðu sumir Íslendingar aldrei barið tré augum, og aðrir töldu að skógrækt væri hreinlega ómöguleg. Á þeim tímapunkti urðu hins vegar kaflaskil, og aftur voru það gjörðir eins manns sem höfðu víðtæk áhrif - Hákons Bjarnasonar. 

Hákon var lykilmeðlimur í Skógræktarfélagi Íslands, hann var viðstaddur stofnun félagsins og gekk meira að segja svo langt að leggja til sitt eigið land til þess að styðja við vinnu félagsins. Framlag Hákonar var byggt á starfi annarra frumkvöðla sem á undan honum komu, en hann nálgaðist varðveislu íslenskrar náttúru á hagsýnan, akademískan og sannarlega framúrstefnulegan hátt.

„Stærsta áskorunin sem við höfum verið að glíma við er að endurheimta skógarþekjuna; heildarflatarmál skóglendis er hvergi minna í Evrópu, fyrir utan Vatíkanið,“ segir Einar Örn Jónsson, fyrrum blaðamaður og núverandi skógarvörður. 

Einar hefur verið virkur meðlimur Skógræktarfélagsins í fjölda ára og segir Hákon vera manninn á bak við fjólubláu huluna sem leggst yfir eyjuna á hverju vori.

„Hann var í hópi íslenskra skógræktarmanna sem fluttu lúpínu [til Íslands] árið 1945. Hann sáði lúpínufræjum á gróðurvana svæðum í þeim tilgangi að frjóvga jarðveginn og gróðursetja tré í kjölfarið.“ 

lúpínan:bjargvættur eða skaðvaldur?

Lúpínan er stundum nefnd frumkvöðlaplanta vegna getu hennar til að þrífast í afar ófrjórri jörð og auðga jarðveginn næringarefnum með tímanum. Vegna þessa hefur henni verið sáð á örfoka landsvæðum til að gera öðrum gróðri auðveldara um vik að dafna þar - hins vegar hefur sáning hennar sætt talsverðri gagnrýni vegna hraðrar útbreiðslu hennar, og deilt hefur verið um hvort kostirnir við frjórri jarðveg vegi upp á móti göllunum við ágengt eðli lúpínunnar og áhrifin sem hún getur haft á gróðurríki landsins.

Út úr skóginum

Harðneskjulega loftslagið sem einkennir Ísland hefur hindrað líffræðilega fjölbreytni gróðurs hér á landi, en aðeins þrjár tegundir af trjám teljast innlendar: ilmbjörk (Betula pubescens), ilmreynir (Sorbus aucuparia) og afar sjaldgæf tegund aspar, blæösp (Populus tremula) sem finnst ekki nema á 6 stöðum. Í ofanálag eru allar þrjár tegundirnar meira í ætt við kjarr, þar sem þær verða í mesta lagi 15 metra háar.

„Hvað gerirðu ef þú villist inni í íslenskum skógi? Þú stendur einfaldlega upp,“ segir Aneta Feręczkowska glöðum rómi þegar hún rifjar upp sumardvöl sína sem sjálfboðaliði á Íslandi. Hún var í hópi fimm sjálfboðaliða frá mismunandi löndum sem ferðuðust til Íslands árið 2022 til að leggja Skógræktarfélaginu lið í að styðja við íslenskt skóglendi. 

„Við fórum nánast í hverjum mánuði í vikuferðir, til dæmis heimsóttum við Bíldudal og sinntum ýmsu viðhaldi, lögðum göngustíga og settum upp svæði fyrir þorpsbúa þar. Í Stykkishólmi grisjuðum við trjágreinar og gerðum skóga aðgengilegri fyrir almenning. Við gróðursettum tré í grunnbúðunum okkar [við Úlfljótsvatn] og settum upp girðingar til að halda sauðfé frá græðlingunum.“

Narfi „hinn vitri“, Rudi „DJ”, Aneta „hjúkrunarfræðingurinn”, forseti Íslands Guðni Th., David „hinn sterki”, Ana „myndbandsupptökukona”, og Simone „keðjusagarmeistari”

Lífið á gresjunni

Því er haldið fram að allt að 40% íslensks landsvæðis sé hægt að breyta í skóglendi og Skógræktin (ríkisstofnun sem hefur umsjón með skógrannsóknum og viðhaldi) vinnur ötullega að þeirri hugsjón, en markmið stofnunarinnar er að ná 12% skógarþekju fyrir árið 2100. Þó að fjármagn til Skógræktarinnar hafi verið skorið niður í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 er að birta til hvað starfsemina varðar, og árið 2021 hafði stofnunin sáð yfir 5 milljón fræum. „Kjarninn í starfseminni er framlag sjálfboðaliðanna okkar,“ er Einar fljótur að segja þar sem stór hluti framkvæmda er inntur af hendi af hálfu sjálfboðaliða, bæði innlendra og erlendra, með Skógræktarfélagið í öndvegi. 

Tré þjóna margþættum tilgangi; þau skapa skuggsæla griðastaði á sólríkum sumardögum, bera ávexti sem seðja hungur, eru griðastaður fyrir litlar lífverur, veita vernd gegn sandstormum og eru „lungu jarðarinnar“. Í krafti smæðar sinnar hefur Ísland tækifæri til þess að gera breytingar til hins betra, að því skildu að við áttum okkur á feilsporum okkar í tæka tíð. Hvað viðkemur því að hlúa að viðkvæmu umhverfi, liggur sú ábyrgð að stærstum hluta í höndum fólks. Ef aðgerðir eins manns geta stuðlað að breytingu, hversu mikið betra gæti líf okkar verið ef við myndum öll einsetja okkur að gera betur?

vissir þú:

  • Description text goes here
  • Description text goes here
  • Description text goes here
  • Item description
  • Item description