Gotasæla fyrir byrjendur

Gotarokkið gerði fyrst vart við sig í lok áttunda áratugarins í framhaldi af þróun síðpönks úr pönkinu. Tilgangs- og vonleysi lífsins eru þar í brennidepli og er mikið sótt í bókmenntir frá rómantíska tímabilinu. Jafnvel er hægt að segja að gotarokk eigi sér kannski ekki neinn ákveðinn hljóm heldur sameini frekar ákveðna hluta síðpönks, nýbylgju (þá sérstaklega kuldabylgju), pönks og ýmislegs fleira í ákveðinni fagurfræði, tísku og umfjöllunarefni. Hvítmáluð andlit ásamt svörtum klæðnaði og hári eru staðalútlitsbúnaður gota. Í tónlistinni eru það drungalegar bassalínur, skærir og oft mikið bjagaðir gítarar og hljóðgervlar, djúpur söngur og trommuheilar sem ráða ríkjum. Ef trommuheili sér ekki um að slá taktinn er trommuleikurinn yfirleitt einfaldur og síendurtekinn líkt og um einn slíkan sé að ræða. Hér eru nokkur lög sem byrjandi í gotatónlist gæti unað sér vel við:

1. The Sisters of Mercy – Marian

Töffararnir í Sisters of Mercy gáfu út sína fyrstu plötu árið 1985, First And Last And Always. Þar á meðal var lag sem talið er vera samið til þýskrar hjásvæfu söngvarans, Andrew Eldritch. Transylvanísk bassalínan og byljandi söngurinn harmónera saman í óviðjafnanlegum melankólískum kynþokka.

2. The Cure – Siamese Twins

Gotatrílógía The Cure frá upphafi ferils þeirra (Seventeen Seconds, Faith og Pornography) er öll sem ein með því betra sem fyrirfinnst í þessum geira. Opnunarlínur Pornography; „It doesn‘t matter if we all die“ eru mjög lýsandi fyrir stefnuna. Þessi síðasta plata trílógíunnar, sem er jafnframt sú myrkasta og best heppnaða, inniheldur þetta lag. Eins og oft á við hjá Cure er melankólían hér íðilfögur, trommuslátturinn minnir á frumstæðan leiðslutrans-undirslátt og sjálfseyðingarhvöt Roberts Smith vellur út bæði í innihaldi textans og flutningi.

3. Bauhaus – She‘s in Parties

Bela Lugosi‘s Dead með sömu sveit er oft talið fyrsta alvöru gotarokklagið – og Bauhaus þar með fyrsta gotarokksveitin – svo undarlegt væri að setja saman slíkan lista án þess að minnast á það. She‘s In Parties er tindurinn hjá Bauhaus, ekki jafn tilraunakennt og margt úr þeirra lagaflóru, en feikinóg notkun á chorus- og flanger-gítarfetlum, drungaleg yfirvegun og fljótandi en einföld uppbygging. Slagari.

4. Siouxsie and the Banshees – Arabian Knights

Siouxsie and the Banshees eru frumkvöðlar innan greinarinnar. Bjagaðar gítarlínur, drungi og mið-austurlenskt þema einkenna lagið. Aðdáendum Siouxsie er bent á að gefa íslensku hrollrokksveitinni Börn gaum, því söngur Alexöndru í Börnum minnir um margt á Siouxsie.

5. Joy Division – New Dawn Fades

Mörk síðpönks og gotarokks eru svo óljós að oft er varla hægt að greina þar á milli. Margir vilja meina að Joy Division eigi ekkert skylt við gotasenuna en mörg laga þeirra stinga í stúf við þá fullyrðingu, ekki einungis með baritónsöngnum og myrku umfjöllunarefni, heldur ófrágreinanlegum hljóðheimi í þokkabót. Þetta lag er eitt af mörgum góðum dæmum um það.

6. Borghesia - Noćne šetnje

Borghesia var stofnuð í Ljubljana í Slóveníu árið 1982 og þjónaði sveitin í raun þeim megintilgangi að vera mótmæli gegn þöggun og afturhaldi á því sem talið var tabú á þeim tíma (og kannski enn). Sveitin var mjög kynferðisleg og í sterkum tengslum við bæði BDSM- og LGBT-samfélögin á þessum tíma. Myndband þeirra við lagið On sýnir þessi tengsl sterkt. Þetta lag inniheldur bjögun sem jaðrar við að vera ógeðfelld. Frábært.

7. Christian Death – Romeo‘s Distress

Christian Death eru oftast settir undir hatt hrollrokksins (e. death rock) en þetta lag er eins goth og það verður, þrátt fyrir augljósan hráleika og hörku í ætt við pönk. Söngvarinn kveinkar sér eins og honum einum er lagið yfir fallega gítarlínuna og öran bassann.

8. Oppenheimer Analysis – The Devil‘s Dancers

Ekki er hægt annað en að láta eitt lag frá Minimal Wave útgáfunni fylgja með. Hún sérhæfir sig í að kafa eftir týndum kuldabylgjukassettum frá fyrri hluta níunda áratugarins og gefa út í endurbættum útgáfum. Þessi slagari er á fyrstu útgáfu þess, sem kom út 2006 (upprunalega kassettan er frá 1982). Lagið hefur eflaust sjaldan verið kallað goth, en kynóræði söngurinn og umfjöllunarefnið ljær þessari kuldabylgju gotablæ. Nú er mál að reima á sig dansskóna og sveima um til eilífðarnóns í synþaparadís.

9. Lebanon Hanover – Gallowdance 

Dæmi um nýlegt gæðagotarokk. Gallowdance er helsti slagari plötunnar Tomb For Two sem er afar vel heppnuð. Upprunalega var lagið Midnight Creature valið á listann en í því syngur William Maybelline í stað Larissu Iceglass sem er afar sjaldgæft, en þau tvö mynda sveitina. Svo tók höfundur eftir hvað karlsöngur væri í miklum meirihluta á listanum, í þessari tónlistarstefnu þar sem feikinóg er af konum, og ákvað að endurskoða lagavalið.

10. She Past Away - Rituel

Þetta nýlega tyrkneska dúó sýnir að frasinn „goth báðum megin“ getur einnig átt við Svartahafið. Af fyrstu plötu þeirra, Belirdi Gece, sem kom út árið 2012. Meðlimirnir spila á gítar og bassa en nýta sér þó bæði hljóðgervla og trommuheila til að fullkomna hljóðheim sinn. Bæði She Past Away og Lebanon Hanover eru á mála hjá Fabrika Records frá Grikklandi.

Texti og lagaval: Hjalti Freyr Ragnarson 

MenningStúdentablaðið