Kynjakvóti stuðlar ekki að jöfnu hlutfalli kynjanna, hann tryggir það

Lög um kynjakvóta hafa verið afar umdeild undanfarin ár, einhverjum finnst kynjakvótinn óréttlátur, sumir hafa litla trú á honum og aðrir vanmeta ávinning hans fyrir fyrirtæki, stofnanir og samfélagið sjálft. Steinunn Rögnvaldsdóttir og Arnar Gíslason, kynjafræðingar, fullyrða í samtali við Stúdentablaðið, að kynjakvóti sé án alls vafa skilvirk leið til þess að jafna hlut kynjanna á ýmsum sviðum samfélagsins.

Árið 2012 sat Ísland efst á lista árlegrar úttektar Alþjóðlega efnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna. Íslendingar hafa setið makindalega á fleiri listum er varða jafnrétti ásamt því að eiga karlkyns borgarstjóra sem klæddi sig upp í kjól og upphlut og dansaði stoltur á götum Reykjavíkur. Nú í ár var forsætisráðherra Íslands nefndur á lista Financial Times yfir einn af fremstu karlkyns femínistum heims og 10 þúsund íslenskir karlmenn hafa skráð sig í HeforShe átak UN women.

Þrátt fyrir að ekki séu allir sammála um leiðir að jafnrétti, eða hvort forsætisráðherra eigi heima á téðum lista, þá stærir íslensk stjórnsýsla sig af því að vera jafnréttissinnuð og íslenska þjóðin telur sig vera þjóð þar sem karlar og konur hafa jöfn tækifæri. Þrátt fyrir aukinn áhuga á jafnrétti mælist leiðréttur kynbundinn launamunur 7,8% árið 2015. Kom það fram í niðurstöðum sérstaks rannsóknarhóps stjórnvalda sem falið var að rannsaka málið. Er hann 0,8% meiri á almennum vinnumarkaði en á opinberum.

Ein af þeim ástæðum sem gefin er upp er að karlar semji almennt um hærri laun og að vinnuveitendur séu tregari til þess að fjárfesta í starfsþróun kvenna sem og að bjóða frekar karlmönnum hærri laun. Nú hefur stjórnsýsla landsins varið bæði tíma og peningum í málefnið og vilji til breytinga er greinilega fyrir hendi, allavega ef marka má þessar yfirlýsingar.

Með jafnréttislögum sem sett voru 2008 átti að gæta að jöfnum rétti karla og kvenna. Á sínum tíma var sett á  laggirnar Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð innan Alþingis og jafnréttisfulltrúar starfa hvarvetna.  

Eitt af því sem stjórnvöld settu í lög árið 2008 er sú aðgerð sem nefnist í daglegu tali kynjakvóti. Kynjakvóti er samkvæmt lögum sértæk aðgerð sem er skilgreind sem „sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi.“ Þar af leiðandi snúast þessir svokölluðu kvótar um að jafna bilið milli karla og kvenna á vinnumarkaði og stuðlar að því að opna dyr sem áður hafa verið læstar.

Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands og kynjafræðingur, segir að kynjakvóti sé ekki eitthvað sem beri að óttast og hann sé oft misskilinn. Slík aðgerð sé mjög beitt verkfæri sem tryggi tiltekna niðurstöðu, ólíkt öðrum verkfærum sem stuðli að t.d. jöfnu hlutfalli kynja án þess að tryggja það. Þannig geti kvótafyrirkomulag stuðlað að fjölbreyttri samsetningu og aðkomu ólíkra sjónarhorna á ýmsum sviðum.

Flestir hafa heyrt minnst á þennan kvóta og fáir komist hjá því að verða vitni að eða taka þátt í hinum reglubundnu erjum í fjölmiðlum varðandi málið. Þar af leiðandi er mikilvægt að átta sig á því hvað kynjakvóti sé í raun og hvað vakir fyrir stjórnvöldum með lagasetningunni.

Samkvæmt Arnari er ekki óalgengt að afstaða til kynjakvóta verði jákvæðari þegar reynsla er komin á notkun hans, sér í lagi í stjórnum fyrirtækja á Íslandi þar sem töluverðar efasemdir voru til staðar í upphafi. Viðhorfið breyttist mikið þegar fólk sá árangurinn. Samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ráða jafnhæfan einstakling ef hallar á annað kynið í þeirri stöðu sem sótt er um. Má þá ekki segja að kynjakvóti sé leið til þess að opna læstar dyr í atvinnulífinu hratt og örugglega?

Samkvæmt Steinunni Rögnvaldsdóttur kynjafræðingi munum við ekki leiðrétta hin kynbundna launamun nema með því að brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað. „Kynjakvóti getur verið mikilvægt tæki til að vinna á þessu, til dæmis til að opna konum leið inn í heima atvinnulífsins sem hafa hingað til verið þeim torfærar, til dæmis inn í stjórnir fyrirtækja.“

Steinunn tekur einnig Hæstarétt sem dæmi en Karl Jónsson var ráðinn hæstaréttardómari þann 9. október. Var ráðning hans gagnrýnd vegna þess að fimm karlmenn sátu í dómnefnd um hæfasta umsækjenda. Í hvert skipti sem að umræðan um kynjakvóta hefst í fjölmiðlum, nú síðast í tengslum við Hæstarétt, hefst umfjöllun um hvort kynjakvóti þyki ekki niðurlægjandi fyrir þá aðila sem eru ráðnir inn „á þessum kvóta“. En þar sem kynjakvóti snýst um að ráða inn einstakling eftir kyni ef um tvo jafnhæfa umsækjendur er að ræða, hvers vegna á það þá að þykja niðurlægjandi?

Arnar Gíslason nefnir í þessu samhengi að í raun notum við kvóta á ýmsum vettvangi án þess beinlínis að kalla þá kvóta, t.d. á Alþingi þar sem fyrirkomulag kosninga stuðlar m.a. að því að tryggja tiltekinn lágmarksfjölda þingmanna í hverju kjördæmi. Segir Arnar að oft verði umræða um slíkar aðferðir eldfimari um leið og kyn bætist við jöfnuna. Steinunn segir það „ekki vera meira niðurlægjandi að hafa kynjakvóta í lögum og reglum en þann óformlega en viðvarandi og augljósa kynjakvóta sem hefur verið til staðar árum saman í samfélaginu.“ Hér talar Steinunn um þann kvóta sem lýsir sér á þann hátt að karlmenn hafa oft forskot á konur í krafti kynferði síns. Segir hún það vera hinn raunverulega niðurlægjandi kynjakvóta.

Virk jafnréttisstefna innan fyrirtækja, stjórnsýslu og skólakerfisins hlýtur að skila sér í auknum árangri og auka jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði sem og öllum öðrum hliðum samfélagsins. Nú er Háskóli Íslands opinber háskóli og þar af leiðandi afar mikilvægt að halda uppi jafnrétti meðal nemenda og kennara innan hans. Arnar Gíslason segir að almennt hafi ekki verið notast við kynjakvóta sem verkfæri til að jafna t.d. hlutfall nemenda eða kennara innan Háskóla Íslands. Hann telur að nemendur og starfsfólk sé almennt meðvitað um mikilvægi jafnréttismála og hafi almenn áhersla á málaflokkinn farið vaxandi undanfarin misseri á Íslandi.

Eftir að jafnréttislög voru samþykkt árið 2008 hefur Háskóli Íslands unnið samkvæmt 20. grein laganna þar sem miðað er við að „í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar.“ Ætti þetta að stuðla að aukinni fjölbreytni í skoðunum því líkt og Arnar segir stuðlar kynjakvóti að aukinni fjölbreytni sem í raun allir græða á þegar á heildina er litið.

Kynjakvótar eru tímabundin aðgerð til þess að brúa bilið á milli karla og kvenna á vinnumarkaði en það virðist bæði vera mikilvægt til þess að öðlast fjölbreyttari sjónarmið innan fyrirtækja og stofnana sem og að leysa það vandamál sem kom upp í niðurstöðu fyrrnefnds rannsóknarhóps um að karlar semji almennt um hærri laun en konur.

Þrátt fyrir að jafnréttislög hafi verið sett árið 2008 virðast enn margar dyr vera luktar á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur er enn til staðar. Það er ekki nóg að veifa jafnréttisflagginu á tyllidögum og halda upp á hundrað ára kosningarafmæli kvenna heldur er mikilvægt að halda áfram þeim aðgerðum sem stefnt hefur verið að til þess að byggja brýr í samfélaginu og stuðla að auknu jafnrétti.  


-Bryndís Silja Pálmadóttir