Skóladagur í lífi Þórhalls Auðs

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Fimmtudagurinn minn 9. október hófst þannig að ég vaknaði sem draugur. ÚúúúÚÚúú. Drauginn særði ég síðan burt með kaffilögg en sökum þess hvað draugar hafa lélegt tímaskyn varð mér þá fyrst ljóst að ég væri orðinn of seinn. Í miklum hamagangi burstaði ég tennurnar og í æsingnum burstaði ég á mér tunguna með aðferð sem hreinsar hana með því að skafa efsta millimetrann af henni með handafli. Þetta var ekki ætlunin, enda hoppaði kaffið mitt upp úr maganum eftir stutta dvöl, baðaði tungu og tennur með brúnni magasýrulausn og hélt þaðan leið sinni áfram, að mestu leyti, ofan í vaskinn.

Ég gerði ekki aðra tilraun til þess að bursta tennurnar. Ég hljóp þess í stað upp í Sal 1 í Háskólabíó og komst að því að það að mæta í miðjan tíma í línulegri algebru er smá eins og að byrja að horfa á Lost í 4. seríu. Í tímanum voru þrír nemendur sofandi í mínu nánasta umhverfi, einn af hverjum hraut. Þú veist hver þú ert. Samt líklega ekki.

Ég sat í fyrsta sal Háskólabíós frá 8:20-11:30 þennan morgun eins og aðra morgna fimmtudags, eitthvað sem ég hefði haldið að væri áhugaverðari reynsla á yngri árum en raunin hefur sýnt. Undir lok eðlisfræðitímans sem fylgdi algebrunni var mig farið að svima og verða frekar bumbult. „Ég er að verða veikur,“ hugsaði ég þungur á brún. Þegar ég var yngri man ég eftir því að hafa hugsað, ég er að verða veikur! og sál mín lyftist við tilhugsun um margra daga þátta-binge í rúminu. Aldurinn hefur eyðilagt þetta.

Í ljós kom að ég þurfti bara að kúka öllu kaffinu, sem ég gerði í Tæknigarði (frábær klósett). Ég þvoði mér með eplahandsápu og alkógeli og lyktarafurðin kallaði fram minningar um morguninn eftir eplasnafsfyllerí í menntaskóla, sem bætti ekki úr skák.
Allavega, ég fer að klára þessi rúmlega 300 orð sem ég hafði til að lýsa deginum mínum – og það í vitleysu. Ég faldi leynigjöf inni á einu klósettinu í Tæknigarði. Hún er klárlega ferðarinnar virði. Það er bara spurning hver verður fyrstur.

LífstíllStúdentablaðið