Verkefnavikan: Óþarfi eða nauðsyn?

Námsfyrirkomulag er talsvert frábrugðið milli deilda innan Háskóla Íslands en deildirnar eru sjálfstæðar einingar sem falið er að ákvarða hvernig álagi er dreift yfir misserið. Á Hugvísindasviði hefur skapast hefð fyrir því að brjóta upp misserið með kennslulausri viku, svokallaðri verkefnaviku. Sambærilegt fyrirkomulag er einnig við lýði á sumum námsbrautum Félagsvísindasviðs, til að mynda lögfræði, mannfræði og safnafræði.

Nemar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði fá fyrir vikið fleiri kennsluvikur á misserinu en hug- og félagsvísindanemar sem hins vegar njóta góðs af því að fá stutt frí sem gæti nýst til upplesturs eða verkefnavinnu. Upplifun nemenda á verkefnavikunni er af ólíkum toga og er rík ástæða til að kanna hvort breytingar á núverandi fyrirkomulagi myndu bæta kennsluna. 

Ekki frívika – en þó engin kennsla

Samkvæmt Ásdísi Guðmundsdóttur, kennslustjóra Hugvísindasviðs, er verkefnavikan fyrst og fremst liður í því að bæta skólastarfið og skapa svigrúm fyrir nemendur og kennara. „Verkefnavikan á sér 10–20 ára sögu og því má segja að hún sé orðin töluvert rótgróinn hluti skólastarfsins. Tilgangurinn með henni er kennslufræðilegur og á að skapa bæði kennurum og nemendum svigrúm. Nemendur fá tíma til þess að lesa, vinna verkefni og kafa dýpra í námsefnið. Þess ber að geta að verkefnavikan er alls ekki hugsuð sem frívika heldur er hún hugsuð til þess að hafa fjölbreyttara námsmat og vinnulag og kemur í veg fyrir að námið verði eintóna,“ segir hún.

Eitt misseri á Hugvísindasviði er samkvæmt kennsluskrá fimmtán vikur, að meðtöldu tveggja vikna prófatímabili og verkefnavikunni. Þannig eru kenndar vikur alls tólf talsins. Til samanburðar eru kenndar vikur á Verkfræði- og náttúruvísindasviði yfirleitt fjórtán og þar gætir verkefnaviku ekki við. Því eru kennsluvikur á Verkfræði- og náttúruvísindasviði að jafnaði tveimur fleiri en gengur og gerist á Hugvísindasviði.

Ástæðan fyrir þessu ósamræmi eru ólíkar áherslur milli deilda. „Hér í Háskóla Íslands eru deildirnar akademískar einingar og í raun ræður hver deild fyrir sig sínu fyrirkomulagi,“ segir Ásdís. Þess ber einnig að geta að kennarar geta hagað því þannig að hlutapróf lendi á þessum tíma eða í kringum hann. Það er þó miðað við að ekki sé kennt í þessari viku og því um undantekningartilvik að ræða.  

Eðlismunur milli raunvísinda og hugvísinda

Aðspurð fullyrðir Guðrún Helga Agnarsdóttir, kennslustjóri Verkfræði- og náttúruvísindadeildar, að ástæðan fyrir því að engrar verkefnaviku njóti við í deildinni sé einfaldlega að enginn tími gefist til þess að fella niður kennslu. „Hér áður fyrr var misserið fimmtán vikur, ásamt prófatíð, en fyrir nokkrum árum var það skert um eina viku. Auk þess er mjög mikið um verklega kennslu á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og nýta þarf húsakynnin til hins ítrasta. Við álítum að ekki sé hægt að fórna kennslu í heila viku því álagið er einfaldlega of mikið. Ef við færum að skera kennsluna niður þá myndi slíkt bitna á náminu. Við teljum að nemar þurfi að fá alla þessa kennslu til þess að geta kallað sig verkfræðing, stærðfræðing eða líffræðing,“ segir hún. „Við reyndum þetta að vísu í smækkaðri mynd haustið 2013 (frí var gefið frá kennslu frá föstudegi til mánudags) en það gekk mjög illa og starfsemin fór meira og minna á hliðina.“

Þess má geta að tvær námsbrautir á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hafa stundum verkefnaviku á kennslualmanaki sínu en þetta eru landfræði og ferðamálafræði. Guðrún segir að innan þessara námsbrauta hafi verkefnavikan gefist nokkuð vel enda eru þessi fög ef til vill skyldari félagsvísindum en raunvísindum. Að sama skapi segir Ásdís, kennslustjóri Hugvísindasviðs, að verkefnavikan sé í „anda hugvísindanna“ og að andrými til djúprar rýni sé nauðsynlegt í þeim kima fræðanna. Það er því ljóst að eðlismunur milli raunvísinda og hug- og félagsvísindanna hefur talsvert að segja í þessu samhengi.

Nemendur á öndverðum meiði

Bæði Ásdís og Guðrún Helga telja að nemar Háskóla Íslands séu afar ólíkir innbyrðis og misjafnlega virkir og duglegir námsmenn. Því hlýtur að teljast eðlilegt að viðhorf nemenda til verkefnavikunnar skulu vera af ólíkum toga. Slíkt hefur þó ekki verið kannað formlega.

Eflaust eru þeir ófáir nemarnir sem myndu gjarnan vilja fá að njóta góðs af kennslulausri viku til þess að vinna upp eða einfaldlega pústa aðeins. „Ég tel að ef verkefnaviku nyti við í sálfræðinni þá myndi það breyta öllu fyrir mig. Það vill oft vera þannig að verkefnin hrannast upp á sama tíma og það væri gott að geta lesið upp ef maður hefur dregist aftur úr, eða jafnvel veikst,“ segir Hilma Rós Ómarsdóttir, grunnnemi í sálfræði.

Hins vegar eru ekki allir sammála um að yfirleitt sé þörf á verkefnavikunni. Aðspurður segir Daði Þór Pálsson, grunnnemi í ensku, að það sé fínt að fá frí en það nýtist honum ekki endilega námslega séð. „Ég ætla bæði að læra smá og leika mér smá í verkefnavikunni. Ég er vanur því að læra jafnt og þétt yfir misserið og þess vegna finnst mér að þessi verkefnavika þyrfti ekki endilega að vera til staðar.“

Ekkert er meitlað í stein

Samkvæmt alþjóðlegu viðmiði er misseri í háskóla um það bil 14–20 vikur þótt slíkt sé auðvitað breytilegt eftir menntastofnunum. Misserið á Hugvísindasviði er fimmtán vikur að meðtaldri kennslulausri verkefnaviku og tveggja vikna prófatíð.

Ef til vill kunna nemar sem fá kennslufrí í verkefnaviku því að spyrja sig hvort mögulega sé verið að snuða þá um kennslu, sérstaklega í ljósi þess að kenndar vikur á öðrum sviðum eru fleiri. Þótt margir séu eflaust sammála þeirri staðhæfingu að andrými og djúp rýni skuli vera í „anda hugvísindanna“ má þó ekki vanmeta mikilvægi kennslu og fyrirlestra.

 Það er þó ekki þar með sagt að fella þurfi niður verkefnavikuna enda eru margir ánægðir með hana. Hins vegar væri hægt að grípa til ýmissa ráða til þess að halda í þrettán kenndar vikur. T.a.m. væri hægt að hefja kennslu fyrr á misserinu, þ.e. á sama tíma og flestar námsbrautir innan Verk- og náttúrufræðisviðs og Heilbrigðisvísindasviðs. Þannig myndu kennsluvikurnar verða þrettán að verkefnavikunni frátalinni.

Samkvæmt Ásdísi snýst verkefnavikan að vissu leyti um fjölbreytt námsmat og í ljósi þess væri hægt að velta upp möguleikanum á því að verkefnavikan yrði nýtt til óhefðbundnari kennslu, s.s. málstofur, örnámskeið eða hópaverkefni. Slíkt tíðkast til dæmis í Listaháskóla Íslands en Ásdís segir að þetta hafi verið reynt í guðfræðideildinni. „Við prófuðum að  hafa málstofur og málþing í verkefnavikunni eitt árið en því miður var mæting ekki eins góð og ætla mætti. Við höfðum það á tilfinningunni að verið væri að losa fólk úr einu prógrammi til þess að setja það í annað og það gafst einfaldlega ekki vel.“

Það er hins vegar ljóst að til þess að hámarka gæði námsins þurfa nemendur að vera gagnrýnir og vel vakandi gagnvart ríkjandi kennsluháttum. Í Háskóla Íslands er leitast við að veita nemendum áheyrn og skólayfirvöld reyna að vera opin fyrir hugmyndum um breytingar. „Þótt verkefnavikan myndi ekki henta núverandi fyrirkomulagi á Verkfræði- og náttúruvísindasviði er ekkert meitlað í stein og við verðum að vera opin fyrir viðhorfum nemenda í garð kennslufyrirkomulagsins,“ segir Guðrún Helga að lokum.

Hvað finnst þér um verkefnavikuna? Sendið okkur línu á studentabladid2014@gmail.com eða á Facebook-síðu okkar, www.facebook.com/studentabladid