Hversu vel þekkir Facebook þig? Söfnun persónuupplýsinga á tækniöld

Mynd/William Iven

Mynd/William Iven

Fyrir mörgum eru samfélagsmiðlar orðnir órjúfanlegur partur daglegs lífs. Á aðeins fáum árum hafa þeir náð gríðarlegri útbreiðslu og gjörbylt því hvernig fólk á samskipti. Langstærstur þeirra miðla er Facebook og virðist fjölgun notenda þar engan enda ætla að taka.

Fram kom í nýlega birtu fjárhagsuppgjöri fyrirtækisins að alls 1,86 milljarður manns noti nú samfélagsmiðilinn í hverjum mánuði og þar af noti 1,23 milljarður miðilinn á degi hverjum. Það jafngildir því að einn af hverjum sex jarðarbúum noti Facebook á hverjum einasta degi og þá er ekki búið að draga frá börn eða fólk sem hefur ekki aðgang að internetinu.

Tilkoma samfélagsmiðla hefur auðveldað fólki um allan heim að eiga samskipti hvar og hvenær sem er og það að kostnaðarlausu. Facebook er þó síður en svo starfrækt í góðgerðarskyni. Um er að ræða alþjóðlegt stórfyrirtæki sem á stuttum tíma fór úr því að vera með höfuðstöðvar á heimavist yfir í að verða eitt af verðmætustu fyrirtækjum heims.

Upplýsingar inn, peningar út

Heildartekjur Facebook á síðustu þremur mánuðum síðasta árs námu alls 8,81 milljörðum Bandaríkjadollara eða sem jafngildir yfir 1.000 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar eru áætlaðar heildartekjur íslenska ríkisins fyrir allt þetta ár 772 milljarðar króna samkvæmt fjárlögum, eða sem nemur u.þ.b. fjórðungi árstekna Facebook.

Nánast allar þessar tekjur koma til vegna auglýsinga sem Facebook birtir og selur öðrum fyrirtækjum. Þær miklu upplýsingar sem Facebook býr yfir um hvern einasta notenda gefur þeim vissa yfirburði fram yfir hefðbundnari auglýsingamiðla s.s. sjónvarp og dagblöð. Þessar upplýsingar gera fyrirtækjum kleift að velja af mikilli nákvæmni hverjir sjá auglýsingar þeirra, s.s út frá aldri fólks, búsetu, menntun o.fl. Í stað þess að auglýsa til allra geta fyrirtæki einbeitt sér að fólki sem líklegt er til þess að hafa áhuga á því sem verið er að selja.

Hefur í för með sér nýjar hættur og ógnir

Til þess að þetta fyrirkomulag gangi upp hefur Facebook safnað gríðarlegum upplýsingum um notendur sína. Mikið af þessum upplýsingum höfum við gefið upp sjálf án þess að hugsa mikið út í það en einnig á sér stað söfnun upplýsinga sem margir notendur vita ekki af. Þar má m.a. nefna að fyrirtækið fylgist með öllum vefsíðum sem notendur heimsækja, líka þeim sem ekki eru opnaðar í gegnum Facebook. Þetta á við um allar vefsíður sem eru með Facebook „like” eða „share” takka. Vefsíðurnar senda upplýsingar til Facebook, jafnvel þó ekki sé smellt á þessa takka.

Þess má geta að þessi mikla söfnun persónulegra upplýsinga á ekki eingöngu við um Facebook heldur líka um flesta aðra samfélagsmiðla, mörg snjallsímaforrit og flestar vefsíður sem birta auglýsingar. Í nýjustu ársskýrslu Persónuverndar viðraði forstjóri stofnunarinnar áhyggjur sínar af mikilli söfnun persónuupplýsinga með tilkomu samfélagsmiðla og snjallsíma. Kallaði hún eftir vitundarvakningu meðal fólks um þær nýju hættur sem þessu fylgir.

Samtenging veldur auknum áhyggjum

Facebook hefur á síðustu árum verið gagnrýnt sérstaklega fyrir að láta notendur sína ekki vita af því að fyrirtækið kaupi líka upplýsingar um þá frá svokölluðum gagnamiðlurum (e. data brokers). Þetta er gert í alls sjö löndum en Ísland er ekki þar á meðal. Gagnamiðlarar safna fjölbreyttum upplýsingum um fólk, þ.á.m. hæð, þyngd, heilsu, hvað fólk verslar og hvar, fjárhag og jafnvel hvort það sé líklegt til að erfa ættingja á næstunni. Í New York Times hefur því t.a.m. verið haldið fram að þessi fyrirtæki búi yfir meiri þekkingu um fólk í Bandaríkjunum en Facebook, Google og FBI.

Með þessum kaupum getur Facebook skoðað virkni auglýsinga, s.s. séð hvort þeir einstaklingar sem sjá kexauglýsingu séu líklegri til að kaupa það en þeir sem sjá hana ekki.

Öll þessi söfnun gerir það að verkum að fyrirtækið býr yfir gríðarlegu safni upplýsinga um hvern einasta notanda. Austurrískur laganemi óskaði eftir því að Facebook sendi sér öll gögn sem til væru um hann og fékk til baka 1.200 blaðsíðna PDF skjal. Þar á meðal var hvert einasta „poke,” IP-tölur allra tækja þar sem hann hafði notað Facebook, vinir, póstar og skilaboð sem hann hafði löngu eytt og staðsetning hans áætluð út frá upplýsingum úr öðrum snjallsímaforritum, IP-tölum og hvar ljósmyndir voru nýlega teknar.

Vakning gæti verið að eiga sér stað

Persónuupplýsingar eru verðmætar fyrirtækjum og út frá þeim er hægt að útbúa nákvæma mynd af einstaklingum og einkalífi þeirra. Þegar slíkar upplýsingar eru látnar af hendi er auðvelt að missa stjórn á þeim og erfitt að fá þeim eytt. Notendaskilmálar Facebook og margra annarra fyrirtækja, sem fæstir notendur nenna að lesa áður en smellt er á „agree,” leyfa að upplýsingum um notendur sé deilt með öðrum (en ekki seldar) og að þær fylgi fyrirtækinu ef það er seinna selt. Þannig er nánast ómögulegt að vita hvar þessar upplýsingar eiga eftir að enda með tíð og tíma. Dæmi eru um að heilsufarsupplýsingar sem snjallsímaforrit safna séu seldar til tryggingafélaga en slíkt gæti haft áhrif á tryggingakjör.

81% svarenda í samevrópskri könnun Eurobarometer töldu sig hafa takmarkaða eða enga stjórn á þeim upplýsingum sem þeir gáfu upp á netinu. Vonast margir til þess að ný endurskoðuð persónuverndarlög Evrópusambandsins eigi eftir að setja fyrirtækjum þrengri skorður. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um verðmæti persónuupplýsinga og hvernig fyrirtæki á borð við Facebook noti þær í gróðaskyni. Sama hver afstaða fólks er til þessa ættu flestir að geta verið sammála um að vilja hafa stjórn yfir sínum eigin upplýsingum, bæði hverju sé safnað og hvernig það sé notað.

Nokkur af alls 98 atriðum sem notuð eru til að sníða auglýsingar á Facebook

·Stærð fjölskyldu ·Stærð heimilis ·Fjarlægð frá fjölskyldu ·Fólk í fjarsamböndum ·Fótboltamömmur ·Hvar fólk verslar · ·Aldur ökutækis ·Líklegir hús-/bílakaupendur ·Gefur til góðgerðarmála ·Staðsetning ·Trúlofað ·Von á  barni ·Starf ·Áhugamál ·Ofnæmi

Hægt er að fara inn á fb.com/ads/preferences til að sjá allt sem maður hefur líkað og það sem Facebook telur sig vita út frá því. Þar er oft bæði hægt að sjá óþægilega nákvæma hluti og aðra sem stemma ekki. Þetta er þó bara brot af þeim upplýsingum sem Facebook safnar.

Meðal þeirra upplýsinga sem Facebook safnar

·Áhugamál ·Hvaða fólk þú hefur samskipti við og hversu mikið ·Persónuleg skilaboð ·Pólitískar skoðanir ·Landfræðileg staðsetning; verslanir sem farið er inn í ·Fjölskylduhagir ·Símanúmer (stundum fengið úr símaskránni hjá öðru fólki) ·Allar heimsóttar vefsíður með „like“/„share“ takka ·Hvað þú skoðar á Facebook; hversu oft og hversu lengi ·Hvað þú ert að líka og hvað ekki ·Upplýsingar um öll tæki þar sem þú hefur notað Facebook og hver annar hefur notað þau.

Nokkrar leiðir til að takmarka söfnun persónuupplýsinga á netinu

Setja upp Disconnect Free í Chrome/Safari/Firefox - Viðbót sem lokar m.a. fyrir söfnun Facebook á öðrum vefsíðum en þeirra eigin.

Hreinsa reglulega út kökur (e. delete cookies). Þær eru m.a. notaðar til að tengja saman heimsóknir þínar á mismunandi vefsíður svo auglýsendur viti að það sé sama manneskjan.

Slökkva á staðsetningu (e. location) í símanum þegar ekki er verið að nota GPS og fylgjast með hvaða „permissions“ snjallsímaforrit eru að biðja um s.s. upplýsingar um staðsetningu eða aðgang að símaskrá.

Prófa aðrar leitarvélar s.s. Startpage eða DuckDuckGo sem safna ekki persónuupplýsingum líkt Google gerir í miklum mæli.

Blaðamaður: Eiður Þór Árnason
Grein birtist fyrst í 3. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins