Geðheilbrigði er viðfangsefni samfélagsins í heild sinni

Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Ýmis mál sem snúa að heilbrigðisráðuneytinu hafa verið í brennidepli undanfarið. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur því haft mörgu að sinna síðustu vikur. Það eru einungis nokkrir mánuðir síðan hún hóf störf sem heilbrigðisráðherra og hún hefur þurft að koma sér inn í starfið hratt en örugglega.

„Menntun nýtist alltaf“
Svandís er fyrrverandi nemandi við Háskóla Íslands og er menntuð í málvísindum og íslensku. Í fyrstu er erfitt að ímynda sér hvernig það nám og heilbrigðisráðuneytið eigi saman. Um það segir Svandís: „Menntun nýtist alltaf. Það er alveg sama hvernig hún er samsett og ég held að að mörgu leyti nýtist menntun í hug- og félagsvísindum nánast allsstaðar í samfélaginu þar sem hún snýst um það að safna saman gögnum, koma á skipulagi, bera upp gögnin að kenningum og gera niðurstöðurnar jafnvel að sínum. Það er eitthvað sem maður er að gera í lífinu, alltaf.“

Mannréttindabarátta með málfræðina að vopni
Heilbrigðisráðherra segir málfræðina hafa orðið að verkfæri fyrir mannréttindabaráttu þegar á leið. „Undir lok míns háskólanáms fór ég að vinna á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra við rannsóknir á íslensku táknmáli. Það var kannski fyrst og fremst verkefni sem snerist um ákveðna réttindabaráttu hóps sem hefur verið með minni réttindi en aðrir í samfélaginu vegna þess að hópurinn talar annað mál. Mín vinna snerist um það að byggja upp nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í Háskólanum, sinna ráðgjöf og rannsóknum, ráðgjöf við foreldra og fjölskyldur og standa með heyrnarlausum í því að táknmálið yrði viðurkennt sem leið til þess að eiga samskipti. Þannig var málfræðin orðin verkfæri fyrir mannréttinda baráttu svo hlutirnir geta tekið óvænta snúninga. Þessi réttindabarátta hefur gagnast mér í öllu, mér finnst mjög mikilvægt að þeir sem fara með völd og áhrif hugi sérstaklega að þeim hópum sem ekki hafa rödd í samfélaginu. Þeir sem eru kosnir til þess að fara með völd í samfélaginu hafa mjög sterkar raddir og þær skila sér. Það hef ég lært í gegnum vinnuna með heyrnarlausum sem var  það sem ég fór út í vegna þess að ég fór í málfræði á sínum tíma.“ Svandís segir pólitík þó aðallega snúast um lífsskoðun og „afstöðuna til þess að samfélagið eigi að vera þannig að það sé ekki hindrun fyrir fólk, heldur frekar stuðningur.“

 

Geðheilbrigði viðfangsefni samfélagsins í heild
Geðheilbrigðismálum á Íslandi hefur verið ábótavant um nokkurt skeið, en í nýlegri rannsókn á líðan háskólanema kom í ljós að þriðjungur þeirra upplifir einkenni þunglyndis í einhverri mynd. Svandís segir betrumbætur í þeim efnum vera verkefni samfélagsins í heild. „Við tökumst einungis á við hluta einkenna með því að fjölga sálfræðingum og geðheilsuteymum þó að það sé vissulega mikilvægt. Það að svo stór hópur stúdenta upplifi sig með einhverskonar kvíða eða áhyggjur á sínum námsferli er augljóslega eitthvað sem er ekki bara geðheilbrigðismál heldur samfélagslegt verkefni. Það sem við þurfum að gera er að finna rót vandans, hvers vegna ungu fólki líður illa. Er þessi vanlíðan sprottin af því að það sé erfitt að vera ung manneskja, snýst þetta um framfærsluna, snýst þetta um lánakjör, snýst þetta um það að það sé erfitt að flytja að heiman þar sem húsnæðismarkaðurinn er erfiður, skiptir klámvæðingin máli, spila samfélagsmiðlar inn í þessa vanlíðan eða sprettur vanlíðanin af samspili allra þessara þátta? Að minnsta kosti er þetta ekki bara heilbrigðismál, ég held að það sé alveg klárt.“  

Þrátt fyrir að samfélagið hafi ábyrgðarhlutverki að gegna í þessu samhengi segir Svandís ábyrgðina líka einstaklingsins. „Ég held að það sé mikilvægt að samfélagið sé þannig að það sé gott að vera til og að fólk eigi greiðar leiðir til þess að tala um hvernig því líður. Það skiptir líka sköpum að um leið og samfélagið verður að sinna okkur öllum vel, þá þurfum við líka að bera ábyrgð á okkar eigin heilsu hvert um sig.“

Áform um sterkari geðheilsuteymi og fleiri sálfræðinga
Þrátt fyrir að Svandís telji samfélagið allt bera mikla ábyrgð í geðheilbrigðismálum segir hún ýmislegt sem hennar ráðuneyti geti gert til þess að stuðla að betrumbótum í geðheilbrigðismálum. „Í heilbrigðiskerfinu sjálfu eru til að mynda uppi áform um að styrkja geðheilsuteymi í heilsugæslum og ráða sálfræðinga í heilsugæsluna svo hægt sé að fá viðtal þar hjá sálfræðingi, ekki bara lækni. Ásamt þessu þurfum við í samstarfi við menntamálaráðuneytið að tryggja að það séu sálfræðingar í framhaldsskólunum og á háskólastiginu.“

Um mikla notkun Íslendinga á geðlyfjum segir Svandís: „Íslendingar innbyrða skuggalega mikið af geðlyfjum, kvíðalyfjum og þunglyndislyfjum, svefnlyfjum og ADHD-lyfjum, við erum allsstaðar að skora mjög hátt í því þannig að það er einhver menning líka hjá okkur að fara í gegnum lífið, þó að maður sé ungur, með lyfjum. Það umhugsunarvert.“

Geðheilsu-eftirfylgd á landsvísu
Þar sem Svandís talar um að fjölga geðheilbrigðisteymum verður að þykja athugavert að ríkið hafi nýverið ákveðið að hætta að fjármagna teymi Hugarafls, en starfsemi þeirra hefur reynst mörgum afar vel. „Hugarafl eru frjáls félagasamtök sem þróuðu Geðheilsu-eftirfylgd (GET), valdeflandi, þverfaglega nálgun. Þau störfuðu undir hatti heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en Alþingi ákvað á árinu 2016 í sinni geðheilbrigðis áætlun að teymis nálgun í geðheilbrigðismálum væri eitthvað sem ætti að innleiða í heilbrigðiskerfið allt og bjóða upp á um allt land. Hugarafl eru hins vegarfrjáls félagasamtök sem stjórnvöld taka engar ákvarðanir um að leggja niður.  Ég er sannfærð um að þessar breytingar eru til góðs vegna þess að við viljum í raun og veru bjóða sambærilega þjónustu á landsvísu sem ég held að sé mikilvægt.“ Hugmyndafræði nýjugeðheilsuteymanna er þverfagleg „það er ekki gert ráð fyrir því að það þurfi sérstaka greiningu til að komast að og að þetta sé tiltölulega opið og valdeflandi úrræði, það er markmiðið.“

Hugmyndir um nýtt sérnám í læknisfræði
Erfið staða hefur komið upp í hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni en Svandís hefur hugmyndir um að koma á fót sérstöku námi fyrir lækna sem ætla að starfa á landsbyggðinni, svokölluðum landsbyggðarlækningum. „Það væri þá sérnám eftir grunnnám í læknisfræði þar sem sérstaklega væri horft til þess hvaða þættir það eru við það að vera læknir á landsbyggðinni sem eru frábrugðnir því að vera læknir á höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðarlæknir þarf að geta leyst fjölbreyttari viðfangsefni heldur en sá sem er með þétt net af sérfræðingum í kringum sig og Landspítalann í næsta húsi.“

Engin lausn í sjónmáli í málefnum ungra fíkla
Mikil aukning varð á dauðsföllum ungra fíkla á síðastliðnu ári. Svandís segist ekki hafa neina töfralausn á því vandamáli enda stutt síðan hún settist á ráðherrastól. „Ég vildi óska þess að ég væri tilbúin með úrræði í þessum málaflokki. Vandi fíkla er heilbrigðisvandi fyrst og fremst, þá aðallega afeitrunar- og meðferðarhlutinn. Oft er vandi ungra fíkla afar flókinn, fíknivandanum fylgja gjarnan geðræn og félagsleg vandamál. Það er mitt mat að við þurfum að draga línu í sandinn og fara yfir þetta með þeim sem best kunna á þennan geira og horfast í augu við það að þetta er verkefni heilbrigðisyfirvalda eins og önnur heilbrigðisþjónusta. Það er ekki hægt að taka þetta til hliðar því þetta er óþægilegt eða erfitt, við þurfum að glíma við þetta samhliða öðrum verkefnum.“

Mönnun í heilbrigðiskerfinu mikil áskorun
Ljósmæður standa um þessar mundir í kjaradeilu við ríkið. 44% starfandi ljósmæðra fara á eftirlaun á næstu tíu árum og er því vert að velta fyrir sér hvernig ríkisstjórnin ætli sér að stuðla að endurnýjun þessarar mikilvægu starfsstéttar. Svandís tekur ljósmæður ekki sérstaklega út fyrir sviga í þeim efnum heldur segir hún mönnun í heilbrigðiskerfinu í heild sinni vera mikla áskorun og sú áskorun sé alþjóðlegt vandamál.

„Við stöndum frammi fyrir því núna á Landspítalanum að við getum ekki sinnt öllum sjúklingum vegna manneklu. Mönnun hjúkrunarfræðinga er gríðarleg áskorun og að mínu mati snýst þetta um marga þætti. Auðvitað snýst það að stórum hluta um kjör og starfsaðstæður, en þetta snýst líka um möguleika til starfsþróunar, það að fá að þróast og eflast í starfi. Það er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn fái að taka þátt í vísindum, rannsóknarstarfi og öflugu háskólaumhverfi. Það skiptir máli að það séu ekki bara allir að hlaupa yfir daginn fyrir of lág laun heldur að fólk sé líka að taka þátt í því að efla sitt fag.“

Þarft að fara yfir mannaflaspá heilbrigðiskerfisins
Svandís, ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra, skrifaði undir yfirlýsingu þess efnis að þarft væri að fara yfir mannaflaspá heilbrigðiskerfisins í heild og kanna hvaða mönnun þurfi á næstu áratugum. „Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og einnig væntingar til heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að hafa þessa spá fyrir framan okkur og ræða hana við bæði háskólaumhverfið og stéttarfélögin og taka á þessu heildstætt, við getum ekki bara horft á eina stétt núna heldur þurfum við að horfa á þetta til lengri tíma.“

Skoðar hvernig sé mögulegt að gera starf ljósmæðra meira aðlaðandi
Árið 2014 voru nemalaun ljósmæðranema felld niður. Við veltum fyrir okkur hvort það væri ekki vænlegt að endurvekja þau til að laða fleiri að náminu. Svandís segir það ekki vera hennar ákvörðun. „Það sem hinsvegar er á mínu borði eru starfsaðstæður og starfsumhverfi sem ég kom inn á áðan. Einnig hef ég til skoðunar það sem hægt er að gera varðandi vaktakerfið og vinnusamsetninguna ef svo má að orði komast, það sem hægt er að gera til þess að gera starfið og vinnudaginn meira aðlaðandi. Landspítalinn hefur lýst yfirvilja til þess að koma með sitt innspil inn í þessar kjaraviðræður í þeim efnum. Stóri pakkinn, kaup og kjör, er á borði samninganefndar ríkisins, hjá fjármálaráðherra.“