Jólabókaflóðið 2019

Eins og flestir Íslendingar telur Stúdentablaðið að jól séu ekki jól án bóka. Blaðið hefur því beðið spennt eftir að sjá hvernig úrvalið verður í jólabókaflóðinu þetta árið. Félag íslenskra bókaútgefanda hefur þegar látið hafa eftir sér að árið í ár sé metár en aldrei hafa fleiri íslensk skáldverk verið gefin út heldur en í ár. Á þessum síðustu og verstu tímum í lestri mætti jafnvel velta fyrir sér hvort fleiri skrifi en lesi. Stúdentablaðið hvetur lesendur sína til þess að taka sér bók í hönd í jólafríinu og sökkva sér niður í lesturinn. Eftirtaldar bækur þykir Stúdentablaðinu spennandi kostur.

o__lyfjan_ka__pa-240ppi.png

Ólyfjan eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

Díana Sjöfn sat í blaðamannateymi Stúdentablaðsins skólaárið 2015-2016. Hún hefur áður gefið út ljóðabókina Freyja hjá útgáfuforlaginu Partusi. Ólyfjan er hennar fyrsta skáldsaga og segir frá Snæja sem vinnur á sjó og lifir lífinu á þann hátt að hann bíður frá einni fríviku til annarrar en hann eyðir frívikunum yfirleitt niðri í bæ. Bókin gerist á einni slíkri fríviku þegar hann og Ragnar félagi hans fara á útihátíð fyrir norðan. Díana fæst við ýmislegt í bókinni, eins og eitraða karlmennsku og skáldsagnaformið sjálft.

vetragulraetur.jpg

Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur

Ragna Sigurðardóttir hefur sent frá sér sex skáldsögur en Vetrargulrætur er smásagnasafn sem samanstendur af fimm smásögum, flestum í lengra lagi. Sögurnar gerast á ýmsum tímum, frá samtíma og aftur á átjándu öld. Sögurnar segja frá leiðbeinanda á frístundaheimili sem verður fyrir því óláni að týna barni. Sögurnar segja frá hollensku pari sem reynir að komast áfram í listasenunni þar í landi; íslenskri myndlistarkonu sem á miðri tuttugustu öld hefur fá tækifæri en hún finnur sína leið þrátt fyrir þöggun; flóttakonu frá Þýskalandi sem flýr til Íslands í seinni heimsstyrjöld og sú síðasta frá blindum unglingsdreng á Norðurlandi á átjándu öld. Sögurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk sem á sér drauma og skapar eigið líf.

edda.jpg

Edda eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur

Harpa Rún hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið að ljóðabókinni Eddu. Harpa hefur áður birt ljóð í tímaritum og skrifað ljóðprósa í ljósmyndabækur. Dómnefnd segir um Eddu að bókin sé látlaust verk um dramatísk augnablik mannsævinnar eins og upphaf hennar og endi. Í ljóðunum veltir hún fyrir sér æsku og elli og þar má finna hugleiðingar um lífsins gang sem er tekinn í sátt þrátt fyrir að hann geti verið sársaukafullur.

adferdir-kapa.jpg

Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Aðferðir til að lifa af er nýjasta skáldsaga Guðrúnar Evu. Í bókinni eru fjórar aðalsöguhetjur sem glíma við mismunandi hluti; Borghildur er nýorðin ekkja, Árni er orðinn öryrki vegna offitu, unglingsstúlkan Hanna glímir við átröskun. Þungamiðja bókarinnar er þó ef til vill ellefu ára drengurinn Aron Snær sem býr hjá einstæðri móður sem þjáist af þunglyndi. Bókin gerist í smábæ úti á landi þar sem persónurnar búa allar í jaðri bæjarins. Þegar Aron þarf að flytja til Borghildar vegna veikinda móður sinnar fléttast sögur persónanna saman.

ledurjakkavedur.jpg

Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg

Leðurjakkaveður er nýjasta ljóðabók Fríðu Ísberg en hún kallast á suma vegu á við fyrri ljóðabók hennar, Slitförin, en í báðum bókum veltir Fríða því fyrir sér hvernig við sköpum okkur sjálf. Í bókinni veltir Fríða einnig fyrir sér móðurmálinu og merkingu orða á sniðugan hátt. Í bókinni verður leðurjakkinn nokkurs konar tákn um þykkan skráp, vörn gegn heiminum en ljóðin í bókinni fjalla einmitt mikið um berskjöldun. Líkt og áður fjallar Fríða um nútímann og líf á tímum einstaklingsdýrkunar. Þeim tímum fylgir togstreita milli sviðsetningar og sannleika.