Sjálfshjálp á tímum loftslagsbreytinga

Ungt fólk um allan heim hefur mótmælt aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum síðustu vikur.  Stúdentablaðið/Unsplash

Ungt fólk um allan heim hefur mótmælt aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum síðustu vikur. Stúdentablaðið/Unsplash

Við unga fólkið á Íslandi erum uppi á skrítnum tímum. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti í síðasta tölublaði Stúdentablaðsins að útlitið hafi „aldrei verið jafn bjart fyrir neina kynslóð og þá sem er núna að komast á fullorðinsár á Íslandi“. Lesendur verða sjálfir að taka afstöðu til þeirra ummæla. Við höfum það vissulega mjög gott á heimsvísu þó ekki sé hægt að fullyrða neitt um aðstæður hvers og eins. Hér ríkir ekki stríðsástand eða hungursneið. Hér er menntun að hafa og atvinnu, hér er heilbrigðiskerfi og hér er lýðræði. Þó flest geti verið sammála um að gera megi betur höfum við það nokkuð gott og okkar nánasta framtíð tiltölulega björt, að minnsta kosti í einhverjum skilningi.

Þó er eitt víst, kæri Bjarni: útlitið er ekki bjart ef litið er til framtíðarhorfa plánetunnar Jörð. Við búum við fullkomið öryggi en engu að síður hangir yfir okkur ógnvænlegt óveðursský sem hótar að rústa þeirri heimsmynd sem við þekkjum. Við erum nú þegar farin að sjá skógarelda og flóðbylgjur. Dýrum í útrýmingarhættu fjölgar stöðugt. Kóralrif deyja og jöklar bráðna. Framtíðin sem blasir við okkar kynslóð, og ekki síður börnum okkar og barnabörnum, einkennist af náttúruhamförum, vatnsskorti, fæðuskorti og trúlega fylgir því stríðsástand þar sem barist verður um það sem eftir er af auðlindum.

Stormur í vatnsglasinu Jörð

Í neysluparadísinni, Íslandi, er auðvelt að loka augum og eyrum, munni og nefi, fyrir ógnvænlegum fréttum um að við höfum einungis örfá ár til að snúa við blaðinu. Það er auðvelt að neita að trúa að endalok heimsins sem við þekkjum séu í raun og veru í sjónmáli. Það er auðvelt að hugsa með sér að þessi stormur í vatnsglasinu Jörð muni leysast á einn eða annan hátt. Förum með möntru okkar Íslendinga: „Þetta reddast“ og gröfum höfuðið í sandinn. Það er líka auðvelt að segja „fokk it“, ákveða að njóta þess sem njóta má, á meðan við getum, og sökkva okkur í sjálfhverft kapítalískt líferni. Ef allt er farið til fjandans hvort sem er þá er kannski ekkert vit í því að drekkja sér í áhyggjum. Afneitunin er þægileg.

Hin leiðin er sú upplýsta og hún er alls ekki jafn þægileg. Þá ber manni að kynna sér vandamálin sem steðja að og reyna að finna út úr því hvernig skal breyta heiminum til batnaðar. Sú leið er, hins vegar, líkleg til að leiða fljótt út í vonleysi. Á tímum þar sem forseti eins áhrifamesta ríkis heims neitar tilvist hnattrænannar hlýnunar þá er auðvelt að missa trúna og gefast upp. Ekki bætir úr skák að þau ríki heimsins sem hafa heyrt viðvörunarbjöllurnar klingja og sýnt vilja til að snúa við blaðinu gengur allt of hægt að efna loforð sín um breytingar. Neyðaróp vísindanna drukkna í sjálfhverfu einstaklingsins.

Móðir náttúra er ekki lengur það afl sem þarf að óttast heldur mannkynið. Ég, þú og allir hinir. Tilhugsunin um sekt manns sjálfs er ekki auðmelt. Þegar maður áttar sig á að það er neyslumynstur manns sjálfs sem er að granda heiminum þá byggist upp samviskubit yfir öllum þeim óskunda sem maður gerir bara með því að lifa lífinu. Samviskubitið borar sér leið inn að sálinni og allt í einu verður allt ömurlegt. Hver máltíð veldur stöðugum vangaveltum um skaðlegan uppruna matvælanna. Fötin sem maður klæðist minna mann á hryllileg áhrif fataiðnaðarins á umhverfið. Ferðalögin til sólarlanda, sem áður voru vin í eyðimörk hversdagsins sem er umlukinn myrkri og kulda, verða efniviður í enn eina glímuna við samviskuna.

Neyslan er vandamálið en neysluleysi er ekki endilega lausnin. Hvert peð hefur ekkert vægi en þó hefur okkur peðunum í sameiningu tekist að breyta loftslagi heillar plánetu.  Stúdentablaðið/Unsplash

Neyslan er vandamálið en neysluleysi er ekki endilega lausnin. Hvert peð hefur ekkert vægi en þó hefur okkur peðunum í sameiningu tekist að breyta loftslagi heillar plánetu. Stúdentablaðið/Unsplash

Hefur peðið eitthvað vægi?

Þessar vangaveltur og áhyggjur fara smám saman að hljóma fáránlega ómerkilegar og á endanum fer maður að efast um að þær skili sér nokkuð. Það liggur beint við að efast um að eitt lítið peð geti haft einhver áhrif á heimsmyndina. Neyslan er vandamálið en neysluleysi er ekki endilega lausnin. Hvert peð hefur ekkert vægi en þó hefur okkur peðunum í sameiningu tekist að breyta loftslagi heillar plánetu.

Maður spyr sig: hvers konar framtíð bíður minnar kynslóðar og kynslóðanna sem á eftir fara? Nei, Bjarni, ég skal fullyrða að hún er ekki björt, sama hvernig á það er litið. Framtíðin gæti engu að síður orðið bærileg ef við hugsum aðeins um okkar eigin hagsmuni. Okkar kynslóð, hér á landi, mun líklega hafa það ágætt ef henni tekst að halda í áhyggjuleysið og kæruleysið og ekki síst hversdagslega persónulega græðgi sína. Verða litlu vernduðu vesturlandabúarnir, börnin mín og barnabörnin, fyrir áhrifum loftslagsbreytinga? Nei, líklega ekki í miklum mæli. Það gæti farið að kræla á örlitlum óþægindum en ekkert sem má ekki blaka frá sér eins og ágengri ávaxtaflugu. Það eru ef til vill bræður þeirra og systur í þriðja heims ríkjum sem fyrst lenda í skellinum. Afkomendur mínir munu líklega einungis erfa samviskubitið mitt eða þá forréttindahyggjuna og sjálfhverfuna. Ég veit ekki hvort er verra, að þau kveljist að innan og séu étin upp af samviskubiti sem hefur borist til þeirra með blóði forfeðranna eða að þau hugsi einungis um sinn hag og verndi hann með kjafti og klóm eins og sönnum börnum kapítalismans sæmir.

Þessar tvær leiðir sem standa okkur unga fólkinu á Íslandi til boða, afneitunin og vonleysið, enda báðar í aðgerðaleysi og aðgerðaleysi er það sem mun granda þessum heimi ef því hefur ekki nú þegar tekist það.

Mistök Pandóru

Svo hver er þriðja leiðin? Er hún til? Hvert leitar maður þegar engin lausn er í sjónmáli?

Við skulum leita aftur til grískrar goðafræði; nánar til tekið, til sögunnar af Pandóru. Hún er sá fulltrúi mannkynsins sem, með klaufaskap sínum og forvitni, hleypti öllum plágum og öllu böli lausu til að hrjá heiminn. Þessi mistök hinnar mannlegu Pandóru má auðveldlega yfirfæra á frammistöðu mannkynsins í heild undanfarnar aldir. Við skulum þó ekki velta okkur upp úr liðnum mistökum. Það sem skiptir okkur máli, hér og nú, er það fyrirbæri sem leyndist í öskjunni þegar allt hið illa hafði flúið út í heim. Það var lítil vera sem bar nafnið Von. Skilja má söguna þannig að óhjákvæmilegur fylgifiskur alls óláns sé vonin. Vonin er sú leið sem mannkynið nýtir til að horfast í augu við óþægilegan sannleikann. Vonin er það sem gerir það að verkum að við gefumst ekki upp.

Það er líklega þessi von sem er þriðja leiðin, meðalvegurinn.

Ragnheiður Birgisdóttir, höfundur pistilsins og nemi í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ragnheiður Birgisdóttir, höfundur pistilsins og nemi í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Markmið okkar kynslóðar er að finna þennan meðalveg og það er ekki auðvelt starf. Þá á ég ekki við að vonin ein og sér bjargi heiminum en hún gæti verið fyrsta skrefið í að bjarga sálarlífi okkar á þessum erfiðu tímum. Hvernig komumst við annars í gegnum daginn með heiminn á herðum okkar, ábyrg fyrir dauða bláa hnattarins? Við peðin verðum að finna einhverja huggun sem er ekki að finna í orðum þjóðarleiðtoganna, enn sem komið er. Vonleysið, þunglyndið og örvæntingin er rétt handan við hornið og það er aðeins eitt sem getur skýlt okkur fyrir því. Vonin.

Við getum kosið að trúa á einstaklingsframtakið og haldið þar með í vonina. Við getum ekki spáð fyrir um hvort það hafi nokkur áhrif en það bjargar í það minnsta sálarlífi okkar til styttri tíma. Við getum jafnvel gengið svo langt að trúa á mannkynið í heild. Trúað því að mannkynið taki höndum saman og krefji leiðtoga sína til að bregðast við aðstæðum og þannig takist því að snúa við taflinu og já, kæru vinir, bjarga heiminum. Ég stórefa að það takist, en ég held í vonina því það er það eina sem ég get gert. Ég hef engin svör, enga lausn, ekkert haldreipi sem ég get huggað mig við annað en þessa litlu veru sem leyndist í öskju Pandóru, vonina.  

Hugrekkið er fylgifiskur hættunnar

Við þurfum líka á hugrekkinu að halda til að horfa fram á veginn, hugrekki til þess að meðtaka sannleikann sama hve ógnvekjandi hann er. Hugrekkið er nefnilega annar fylgifiskur hættunnar. Baráttan gegn loftslagsbreytingum snýst um að gefast ekki upp þegar vonleysið býður opinn faðminn og okkar bestu vopn í þeirri baráttu eru vonin og hugrekkið.

Við þurfum að tala saman, kynna okkur ástandið og kynna það fyrir öðrum. Við þurfum að fræða börnin okkar og ömmur okkar og afa, fræða þá sem vilja hlusta og þá sem vilja ekki hlusta, og ekki síst þrýsta á stjórnvöld, því þaðan koma róttækar breytingar ef þær koma þá einhvers staðar að. Hvert okkar hefur eitthvað til málanna að leggja og hvert okkar hefur rödd. Þó sú rödd nái ekki eyrum nema örfárra þá er hún engu að síður mikilvæg. Hverri rödd á að beita. Þetta verðum við að gera án þess að missa móðinn og gefast upp sama hve litlum árangri við virðumst ná. Með vonleysi eða afneitun komumst við stutt en vængir vonarinnar bera okkur hálfa leið til tunglsins, ef ekki alla leið.