Fékk umhverfismál á heilann

„Mig langar til þess að ræða við viðmælendur mína um það hvernig við hugsum um umhverfið.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Mig langar til þess að ræða við viðmælendur mína um það hvernig við hugsum um umhverfið. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Þann fjórtánda janúar hóf hlaðvarpsþátturinn Náttúrulaus í umsjón Sigrúnar Eirar Þorgrímsdóttur göngu sína á RÚV Núll. Þættirnir fjalla um umhverfismál með ýmis málefni í huga, svo sem veganisma, fólksfjölgun og samgöngumál. Sigrún hefur lengi haft áhuga á umhverfisvernd, en blaðamaður ræddi við hana um þáttinn og hennar upplifun og reynslu af umhverfismálum.

Áhugi á umhverfismálum alltaf til staðar

Sigrún, sem ólst upp í Stykkishólmi, segir umhverfismál hafa verið sér kær mjög lengi. Hún er einn af meðlimum umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ í ár, en áhugi hennar á umhverfisvernd hefur greinilega alltaf verið til staðar.

Hún rifjar það upp þegar hún var í grunnskóla og var látin horfa á heimildarmyndina An Inconvenient Truth í náttúrufræði, en myndin hafði mikil áhrif á hana. „Ég fékk þetta eiginlega á heilann, það er kannski smá lúðalegt,“ segir hún og hlær. „Ég átti nágranna sem ég umgekkst mikið, en þau voru líffræðingar og voru mjög meðvituð um þessi málefni. Þau höfðu örugglega mikil áhrif á mig. Grunnskólinn í Stykkishólmi tók líka þátt í grænfánaverkefninu, en ég tók þá eftir því að ég vissi einhvernveginn meira um umhverfismál heldur en margir jafnaldrar mínir.“

Sigrún telur vera auðveldara að koma hugmyndum sem þessum á framfæri í minni bæjarfélögum en stærri. „Það er allt svo mikið minna, það þarf færri til þess að koma einhverju af stað. Stykkishólmur var til dæmis fyrsti plastpokalausi bærinn.“

Áhersla á að gera málefnið aðgengilegt

Spurð um hugsunina á bak við Náttúrulaus, svarar Sigrún því að grunnmarkmið þáttanna sé að ræða umhverfismál á aðgengilegan og skemmtilegan hátt, með áherslu á mannlega nálgun, þó að fræðin styðji vissulega við. Hún tekur sem dæmi fyrsta þáttinn þar sem rætt var um veganisma: „Við vorum ekkert að hamra á rannsóknum, við vorum bara að ræða málin og skoða ýmis sjónarhorn frekar en að einbeita okkur að því að eitthvað sé betra en annað.

Það er til dæmis oft talað um að veganismi sé svo jákvæður vegna þess að hann er umhverfisvænn, betri fyrir dýrin, og að hann sé á einhvern hátt „the best of the best“. Eyja, viðmælandi minn kom svolítið inn á aðrar hliðar, til dæmis gerviefnafatnað, en ef þú sneiðir hjá dýraafurðum ertu líklega að kaupa föt úr pólýester og plasti og öðru, sem er náttúrulega verra fyrir umhverfið á annan hátt. Ég reyni þannig að skoða þetta allt út frá mörgum hliðum. Eftir hvern hlaðvarpsþátt er svo gefinn út pistill, út frá efni hans en með þeim hætti geta hlustendur nálgast þær heimildir sem ræddar eru í þáttunum, auk annars efnis.“

Rauði þráður þáttanna er að sögn Sigrúnar umhverfisvitund. „Mig langar til þess að ræða við viðmælendur mína um það hvernig við hugsum um umhverfið. Mér finnst forvitnilegt að sjá að okkar kynslóð sem er að taka við þessari jörð virðist hafa aðra sýn á umhverfismál en foreldrar okkar til dæmis. Þau fengu allt aðra kennslu og upplýsingar, og málefnið var ekki rætt jafn mikið áður.“

Sigrún segist vilja að þátturinn gefi aðra sýn en fræðigreinar og rannsóknir, og leggur áherslu á að höfða til sinnar kynslóðar. „Pabbi hlustaði á fyrsta þáttinn og sagði að ef einhver af sinni kynslóð hefði unnið hann væri hann líklegra mun formlegri. Umhverfismál eru mikið í umræðunni og almennt tel ég fólk hafa mikinn áhuga á þeim, en þegar þú lest aðallega fræðigreinar og fréttir getur umræðan orðið svo þurr, ég vil að mín nálgun sé mannleg. Það má alveg hlæja og pæla í sjálfum sér, þá er þetta allt svo miklu skemmtilegra,“ segir Sigrún. „Það er nauðsynlegt að tala um þessi málefni, en til þess að fólk nenni að hlusta og taka mark á því sem kemur fram þarf það að vera gert þannig að það höfði til fólks.“

Auðveldara að vera vegan nú en fyrir nokkrum árum

Sigrún er vegan og hefur verið það í nokkur ár. Fyrst um sinn borðaði hún fisk en minnkaði svo smátt og smátt dýraafurðirnar. Á þeim tíma bjó hún hjá frænku sinni sem var grænmetisæta og fékk stuðning frá henni. „Það er mjög mikilvægt að hafa stuðning,“ segir Sigrún. „Það er líka frábært hvað það er mun auðveldara að vera vegan núna heldur en þegar ég var að byrja að prufa mig áfram. Aðgengið að dýraafurðalausum matvörum er að batna og maður sér mun nánast dag frá degi, en bæði Bónus og Krónan standa sig rosalega vel miðað við fyrir örfáum árum.“

Sigrúnu finnst jákvætt að grænkeralífstíllinn sé orðinn eins útbreiddur og hann er, en henni finnst að sama skapi eðlilegt að fólk taki honum með fyrirvara. „Það er svo stutt síðan veganismi náði svona miklum vinsældum að það er ekkert skrítið að fólk sé skeptískt. Þetta er nýlega orðið að einskonar tískubylgju sem mér finnst vera mjög jákvætt.“ Hún bætir við að hún hafi orðið meðvitaðri um mataræðið sitt eftir að hún varð vegan. „Ég þurfti að skoða innihaldsefnin og ég fór í fyrsta skipti fyrir alvöru að skoða hvað ég var að borða, og fór auk þess að borða mun fjölbreyttari mat.“

Nauðsynlegt að beita gagnrýnni hugsun

Hvað varðar umfjöllunina um þau málefni sem varða umhverfið finnst Sigrúnu margt hafa breyst á undanförnum árum, og nefnir til dæmis allan þann fjölda af greinum og rannsóknum sem okkur berast nánast daglega. „Mjög oft eru þessar fréttir niðurdrepandi og maður fær bara nóg, en það er á sama tíma frábært að þessi mál séu rædd og mikilvægt er að greint sé rétt frá. Ég tók námskeið í kvikmyndafræðinni, Endalokanámskeiðið, þar sem til dæmis var fjallað mikið um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Mikil áhersla var lögð á það að nota gagnrýna hugsun við lestur á greinum og að athuga það í hvaða miðil er skrifað, hver höfundurinn sé, og hvort hann hafi einhverra hagsmuna að gæta. Þetta var eitthvað sem ég hafði ekki endilega hugsað mikið út í áður, en er mjög mikilvægt að við gerum.“

Mikilvægt að gefast ekki upp

Spurð hvað henni finnist um frammistöðu Íslands í umhverfismálum segist Sigrún vilja vera bjartsýn, en hún telur okkur geta gert mun betur. „Ég var bjartsýnni áður en ég las meistararitgerðina hennar Sólu, viðmælanda míns í öðrum þætti. Eftir lesturinn gerði ég mér betur grein fyrir því hversu oft við tölum um að bæta okkur en gerum svo ekkert í því. Íslendingar þykjast alltaf vera bestir í öllu, við tölum um að vera komin lengst hvað varðar femínisma, græna orku og fleira, en þegar þetta er skoðað nánar erum við ekkert komin neitt sérstaklega langt. Við erum mjög dugleg að benda á hvað aðrar þjóðir ættu að vera að gera, en við ættum að einbeita okkur að okkur sjálfum.

Mig langar að trúa því að við séum að hafa góð áhrif, en þegar maður virkilega fer að velta sér upp úr þessu kemur í ljós hversu mikið vantar upp á. Það kemur alveg fyrir að maður hugsi „þetta skiptir engu máli, þetta er hvort sem er orðið of seint,“ en þá er svo mikilvægt að standa með sjálfri sér í að halda áfram að reyna að gera betur.“

Tal okkar berst að mögulegum lausnum og hvað við sem neytendur getum gert. „Ég las grein um daginn sem fjallaði um endurvinnslu, og um þá staðreynd að við megum ekki hugsa um endurvinnslu sem lokaskrefið,“ segir Sigrún.

„Það er nauðsynlegt að við endurskoðum neysluna, hættum að kaupa vörur í plasti og kaupum notað frekar en nýtt. Mér finnst þess vegna ákveðin afturför vera falin í því að núna sé verið að opna svona margar keðjur hér á landi, H&M, Monki og COS. Við erum að greiða okkur aðgang að „fast fashion“ sem er kannski ekki í takt við tímann. Ég er ekki saklaus, ég versla alveg stundum í Monki og við höfum auðvitað ekki öll efni né tök á að versla einungis sjálfbæran fatnað, en það skiptir svo miklu máli að hugsa um það sem þú kaupir þér, sjá vel um það og nota það. Við þurfum að breyta hugsunarhættinum okkar, ég held að það sé í grunninn það sem skiptir mestu máli.“

Náttúrulaus er aðgengilegur á RÚV núll og í helstu hlaðvarpsforritum.