Taubleyjur til hjálpar umhverfinu

Vissir þú að hvert barn notar um 6000 bleyjur á fyrstu tveimur árum ævi sinnar, og margfalt það magn af blautþurrkum í ofanálag?  Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Vissir þú að hvert barn notar um 6000 bleyjur á fyrstu tveimur árum ævi sinnar, og margfalt það magn af blautþurrkum í ofanálag? Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Fljótlega eftir að ég vissi af tilvist dóttur minnar ákváðum ég og kærastinn minn að við skyldum nota taubleyjur á hana. Margir sjá eflaust fyrir sér hvíta stóra bómullartusku sem maður þarf að brjóta saman á ákveðinn hátt, binda á barnið, festa með nælum og setja svo plastdúk yfir til þess að vætan fari ekki í gegn. Þannig var þetta vissulega fyrir þrjátíu árum. Sem betur fer hefur þróun taubleyja farið mikið fram, og í dag eru þær margar hverjar alls ekki ósvipaðar bréfbleyjum í notkun.

Taubleyjur fá allt of sjaldan að vera valmöguleiki þegar kemur að bleyjuvali barna, að mínu mati. Það er sennilega sökum þess að fólk er almennt óupplýst um það hversu einfaldar þær eru í notkun. Þess vegna ákvað ég að skrifa stuttlega um mína reynslu af taubleyjum. Að öðrum kosti er það vel við hæfi í blaði þar sem umhverfismál eru í forgrunni, enda eru einnota bréfbleyjur mikill skaðvaldur fyrir náttúruna. Ég mun rekja ástæður þess að við völdum taubleyjur á dóttur okkar, almennar upplýsingar um taubleyjur, ásamt því að benda á síður á Internetinu sem geyma nytsamlegar upplýsingar. Að lokum geri ég grein fyrir vinsælustu vörumerkjunum samkvæmt óformlegri könnun sem ég gerði meðal taubleyjuforeldra. Ég vona að þessi grein geti verið hvatning fyrir verðandi eða núverandi foreldra í að velja umhverfisvænsta bleyjukostinn fyrir barnið sitt.

Bæði tau- og bréfbleyjur skilja eftir sig umhverfisspor. Það eina sem við getum því gert er að gera okkar besta - velja vistvænni tegundir, minnka orkuþörfina með því að þvo taubleyjurnar á lægri hita og þurrka bleyjurnar á ofni í staðinn fyrir í þurrkara, svo dæmi séu nefnd.  Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Bæði tau- og bréfbleyjur skilja eftir sig umhverfisspor. Það eina sem við getum því gert er að gera okkar besta - velja vistvænni tegundir, minnka orkuþörfina með því að þvo taubleyjurnar á lægri hita og þurrka bleyjurnar á ofni í staðinn fyrir í þurrkara, svo dæmi séu nefnd. Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Vissir þú að hvert barn notar um 6000 bleyjur á fyrstu tveimur árum ævi sinnar, og margfalt það magn af blautþurrkum í ofanálag? Margir nota svo plastpoka undir hverja og eina kúkableyju, hver bleyju- og blautþurrkupakki er keyptur vel innpakkaður í plasti og ekki má gleyma öllum ruslapokunum sem fara undir notaðar bleyjur. Megináhrifin sem bréfbleyjur hafa á náttúruna er því augljóslega úrgangurinn sem safnast upp í landfyllingu og tekur svo 500 ár að eyðast. Að auki er gengið á óendurnýjanlegar auðlindir við gerð bréfbleyja. Aðeins í Norður-Ameríku er 30 billjón bréfbleyjum hent árlega. Í þessar bleyjur þarf trjákvoðu úr 250.000 trjám ásamt 90.000 tonn af frauðplasti sem unnið er úr jarðolíu. Því er um mikla náttúruvá að ræða, bæði hvað varðar framleiðslu og úrgang.

Það má þó ekki gleymast að það þarf einnig að ganga á náttúruna við gerð taubleyja. Þær eru margar hverjar búnar til úr bómull, sem er ekki talinn umhverfisvænn í framleiðslu. Það þarf talsvert magn af vatni til að þvo bleyjurnar, ásamt orku, notkunar á þvottaefni og svo meiri orku ef notast er við þurrkara eftir hvern þvott. Bæði tau- og bréfbleyjur skilja því eftir sig umhverfisspor. Það eina sem við getum því gert er að gera okkar besta - velja vistvænni tegundir, minnka orkuþörfina með því að þvo taubleyjurnar á lægri hita og þurrka bleyjurnar á ofni í staðinn fyrir í þurrkara, svo dæmi séu nefnd. Þegar allt er upptalið eru taubleyjur almennt umhverfisvænni kostur, þó þær hafi sína vankanta hvað varðar áhrif þeirra á umhverfið. Það er ástæða númer 1,2 og 10 fyrir því að við völdum tauið framyfir bréfið.

Taubleyjur eru ódýrari og umhverfisvænni en bréfbleyjur en ótal fleiri kostir eru við notkun þeirra.  Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Taubleyjur eru ódýrari og umhverfisvænni en bréfbleyjur en ótal fleiri kostir eru við notkun þeirra. Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Næsti kostur sem við sáum við taubleyjurnar var kostnaðurinn. Ef við reiknum með að hvert barn noti um 6.000 bleyjur yfir ævi sína og að hver bleyja kosti 35 krónur þá er kostnaðurinn rúmlega 200.000 krónur á barn. Þá á enn eftir að kaupa blautþurrkur. Ef notast er við taubleyjur er hins vegar nóg að eiga um 15-30 bleyjur, allt eftir því hversu ört bleyjurnar eru þvegnar. Hægt er að selja bleyjurnar áfram eftir að barnið vex upp úr þeim eða kaupa notaðar bleyjur. Svo er hægt að halda bleyjunum og nota áfram fyrir næsta barn. Með þessum aðferðum er auðvelt að takmarka kostnaðinn enn frekar. Flestir taubleyjuforeldrar nota svo fjölnota tauklúta sem rassaþurrkur og svokallaða PUL poka undir notaðar bleyjur, sem hvorttveggja fer í þvott með bleyjunum. Taubleyjum fylgir því hærri startkostnaður, en maður getur aðeins stjórnað hversu mikinn pening maður ætlar að leggja í safnið.

Taubleyjurnar hafa fleiri kosti í för með sér: minni líkur eru á að börn fái sveppasýkingar undan bleyjunum, þær valda síður bleyjubruna eða útbrotum, gefa frá sér minni lykt og sjaldgæfara er að hægðir nái upp úr bleyjunum. Bleyjurnar klárast aldrei og það þarf að fara sjaldnar út með ruslið. Fyrir utan allt ofantalið eru þær mjúkar og fallegar, sem skemmir sannarlega ekki fyrir! Það eru því ótal kostir við notkun taubleyja.

Þegar ég byrjaði að kynna mér taubleyjur, notkun þeirra og markaðinn vöknuðu ótal spurningar. Það er til ógrynni af vörumerkjum, tegundum og undirtegundum, og ég segi það alveg eins og er að upphaflega féllust mér hendur. Ég sá þó fljótt að það var algjör óþarfi. Það eina sem þarf er örlítið skipulag og örfáar mínútur á dag til að þvo. Fyrst um sinn krefst þetta einnig örlítillar auka vinnu, þ.e. það þarf að finna bleyjutegundir sem henta þínu barni sem og þvottarútínu. Þegar komin er regla á ofangreint þá finnur maður ekki fyrir þessu!

Langvinsælasta vörumerkið samkvæmt könnuninni er Bumgenius, sem fékk tvöfalt fleiri atkvæði en Totsbots, sem var næst í röðinni.  Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Langvinsælasta vörumerkið samkvæmt könnuninni er Bumgenius, sem fékk tvöfalt fleiri atkvæði en Totsbots, sem var næst í röðinni. Stúdentablaðið/Birna Almarsdóttir

Ef þig langar að taka skrefið en veist ekki hvar þú átt að byrja ætla ég að benda á hvar hægt er að nálgast nytsamlegar upplýsingar. Þar má fyrst nefna bæklinginn Taubleyjur fyrir byrjendur, en hann er ómissandi fyrir nýja taubleyjuforeldra. Um er að ræða eins konar handbók eða leiðarvísi fyrir foreldra sem hafa í hyggju að notast við taubleyjur. Þar má finna upplýsingar um helstu bleyjugerðir, fjölda bleyja sem þarf, þvottaleiðbeiningar og meðhöndlun notaðra bleyja, svo fátt eitt sé nefnt. Bæklingurinn er aðgengilegur á Internetinu. Ég mæli einnig með að gerast meðlimur í Facebook-hópunum Taubleiutjatt, þar sem fer fram almenn umræða um taubleyjur, og Taubleiutorg, sem er sölusíða fyrir bæði nýjar og notaðar bleyjur.

Í lokin langar mig svo að greina frá niðurstöðum óformlegrar könnunar sem ég gerði inni á Facebook-síðu taubleyjuforeldra um vinsælustu vörumerkin. Ég vil þó taka fram að það er rosalega misjafnt hvað fólki finnst best og hvað hentar hverju barni fyrir sig. Langvinsælasta vörumerkið samkvæmt könnuninni er Bumgenius, sem fékk tvöfalt fleiri atkvæði en Totsbots, sem var næst í röðinni. Þar á eftir kom Alva og loks íslensku vörumerkin Obbossí og Hnoðrar. Fjölmörg önnur vörumerki fengu atkvæði, til dæmis Grovia, Blueberry, JóGu, Best Bottoms og Chelory.

Nú er ekkert að vanbúnaði en að kynna sér málið og prófa! Gangi þér vel.

Heimild