Getur ekki hugsað sér að búa ekki við sjóinn - Salóme Katrín um plötuna Water

Plötualbúm Water / Kata Jóhanness

Plötualbúm Water / Kata Jóhanness

Salóme Katrín er 25 ára tónlistarkona frá Ísafirði. Hún flutti til Reykjavíkur haustið 2015 og hóf nám við heimspekideild HÍ en komst fljótlega að því að tónlistin ætti hug hennar allan. Hún kvaddi því háskólann og hóf tónlistarnám við tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan síðastliðið vor. Nú er hún að stíga sín fyrstu skref sem tónlistarkona og lagahöfundur og gaf nýverið út sína fyrstu stuttskífu sem ber nafnið Water. Salóme semur, syngur og leikur á píanó en ásamt henni má heyra í strengjahljóðfærum, blástur- og slagverki á plötunni.

Ferlið hefur verið mikill tilfinningarússíbani

Eins og aðrir hefur Salóme þurft að hliðra ýmsu til vegna ástandsins. „COVID hefur óneitanlega haft töluverð áhrif á útgáfuna. Upprunalega átti platan að koma út vorið 2020 og ég hafði skipulagt stóra útgáfutónleika til þess að fagna útgáfunni. Þess í stað kom hún út í nóvember. Eftir á að hyggja held ég að í raun og veru hafi það verið fullkominn tími. Ég vil nefnilega trúa því að allt sem gerist eigi að gerast.“ segir Salóme. Þegar ég spyr út í vinnslu plötunnar og ferlið á bak við slíkt verk, segir Salóme: „Ferlið hefur verið mikill tilfinningarússíbani! Ég held að það sé allt sem segja þarf að mörgu leyti. Þetta byrjaði allt saman haustið 2017 þegar ég samdi fyrsta lagið mitt Elsewhere en það er einmitt á plötunni. Sjálfar upptökurnar hófust svo sumarið 2019 og þeim lauk síðastliðið vor. Þegar öllu er svo á botninn hvolft var þetta fyrst og fremst fallegt og gríðarlega lærdómsríkt ferli og í því kynntist ég ótrúlega mikið af mögnuðu og kláru listafólki. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.“

Myndir / Kata Jóhanness

Myndir / Kata Jóhanness

Afkvæmi Kate Bush og Reginu Spektor

Innblástur Salóme kemur úr ýmsum áttum: „Það er fyrst og fremst mínar eigin tilfinningar, fólkið og umhverfið í kring um mig. Svo hlusta ég á ótrúlega mikið af tónlist og dreg mikinn innblástur frá fjölmörgu tónlistarfólki. Bæði sem ég þekki persónulega og sem ég þekki ekki en ég elska, dýrka og dái,“ segir Salóme en hún hefur verið kölluð afkvæmi Kate Bush og Reginu Spektor og því kemur ekki á óvart að hún nefni þær sem innblástur auk Angel Olsen og Aldous Harding. Í spilun hjá Salóme þessa stundina er Songs, nýja platan hennar Adrianne Lenker, „þar er lag sem heitir „Anything” og það er einstaklega fallegt lag,“ segir hún.

Salóme semur mestmegnis á ensku og þegar ég spyr hana hver ástæðan sé segir hún að það gerist bara óvart. „Mikið af tónlistinni sem ég hef hlustað á um ævina er á ensku. Enska er fallegt tungumál. Ég ætlaði alltaf að læra ensku í Háskólanum en endaði í heimspeki sem ég reyndar hætti í til þess að fara í Tónlistarskóla FÍH. En hver veit? Kannski geng ég til liðs við enskudeild háskólans næsta haust,“ segir Salóme.

Aðsend mynd

Aðsend mynd

Platan var bæði gefin út á netinu og vínyl, þegar ég spyr út í ástæðuna segir Salóme: „Mig langaði að gefa plötuna út á raunverulegu og áþreifanlegu formi, það býður upp möguleikann að skapa einskonar margþætt listaverk. Ég fékk hjálp frá þremur mögnuðum listamönnum, ljósmyndaranum Kötu Jóhanness, myndlistarkonunni Gabríelu Friðriksdóttur og grafíska hönnuðinum Antoni Kaldal. Þau færa fram ólíka hluti til útgáfunnar og þegar öll þeirra vinna kom saman urðu til einhverjir töfrar sem ná án efa að endurspegla og stækka þann heim sem Water býður manni að kanna.“

Myndir / Kata Jóhanness

Myndir / Kata Jóhanness

Vatnið og næstu skref

Platan Water kom út 20. nóvember síðastliðinn. Aðspurð um heitið segir Salóme að platan heiti eftir lagi. „Maður á víst ekki að velja uppáhalds en þetta er eiginlega uppáhalds lagið mitt á plötunni. Það nær að fanga allt sem ég hef verið að upplifa og semja um á síðustu árum. Þetta er plata um tilfinningar og vatn er eins og tilfinningar að mörgu leiti. Vatn er alls staðar. Vatn er lífsnauðsynlegt. Vatn mótast af umhverfi sínu og umhverfið mótast af því. Alveg eins og tilfinningar,“ segir Salóme.

Nú kemur þú frá Ísafirði, bæ sem liggur við sjóinn, hvernig hefur það haft áhrif á þig sem tónlistarkonu? „Að alast upp í návígi við sjóinn og fallegu náttúruna við Ísafjörð veitir óendanlegan innblástur. Ég gæti ekki ímyndað mér að búa ekki við sjóinn. Ég er hrædd við hann en á sama tíma hugfangin af honum. Magnað fyrirbæri. Sjórinn tekur og gefur, verður úfinn en svo aftur spegilsléttur“ segir Salóme og bætir við „Að koma frá Ísafirði hefur einungis haft jákvæð áhrif á mig sem tónlistarkonu! Þegar ég bjó á Ísafirði lærði ég að spila á píanó og syngja, bæði í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og í Tónlistarskólanum á Ísafirði og ég bý að því enn þann dag í dag. Svo var svolítið eins og allur bærinn væri með mér í liði þegar ég kom fyrst fram með mína eigin tónlist og spilaði á tónlistarhátíðinni „Aldrei fór ég suður” páskana 2019. Þá fann ég fyrir svo fallegum og sterkum meðbyr, skyndilega fannst mér eins ekkert væri ómögulegt.“

Um næstu skref segir Salóme: „Næst á dagskrá er að halda áfram að vinna með Kötu Jóhanness og Moniku Kiburyté við að búa til tónlistarmyndband við titillag plötunnar „Water” sem var tekið upp á Ísafirði og þar í kring. Ég hlakka til að sýna öllum það. Svo hlakka ég til að halda tónleika og tralla og leika og taka upp meiri tónlist!“

Eftir útgáfu 2. tölublaðs hlaut Salóme Kraumsverðlaunin. Stúdentablaðið óskar henni innilega til hamingju.

Myndir / Kata Jóhanness

Myndir / Kata Jóhanness