Hver er besta frosna pítsan?

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Ég elska frosnar pítsur. Og ég viðurkenni það fúslega. Þær eru ódýrar, fljótlegar og þægilegar. Hin fullkomna máltíð þegar þú nennir ekki að elda og hefur ekki endilega mikinn pening á milli handanna. Þegar ég spyr vini mína út í þetta mál hafa allir mjög miklar skoðanir á því hvaða frosna pítsa sé best á markaðnum. Þessar skoðanir eru allar mjög ólíkar. Það virðist sem enginn sé á sama máli. En hver er þá besta frosna pítsan á markaðnum? Ég hef ákveðið að taka málin í mínar hendur og útkljá þessar deilur fyrir fullt og allt. 

Í þessari rannsókn hef ég ákveðið að taka fyrir fimm gerðir af frosnum pítsum. Þær eru töluvert fleiri á markaðnum en heilsu minnar vegna taldi ég best að taka fyrir þær fimm vinsælustu. Fá þær einkunnir út frá eftirfarandi flokkum: Kostnaður, gæði og útlit í raunveruleikanum á móti mynd framan á kassanum. Jafnframt verða aðeins ostapítsur teknar fyrir til að einfalda samanburðinn.


Euroshopper: 

Margaritapítsan frá Euroshopper kostar ekki nema 198 kr. í Bónus. Það er gjöf en ekki gjald. Hún er jafnframt ódýrasta pítsan á þessum lista. Ég hef klárlega borðað betri pítsu, aftur á móti hef ég ekki borðað jafn ódýra pítsu. Sósan er ágæt ef þú kannt að meta vel kryddaðar pítsasósur, en kryddið gat þó verið yfirþyrmandi á köflum. Osturinn á pítsunni er ekki upp á marga fiska. Hann er lélegur, plastkenndur og er mjög lítið magn af honum. Botninn var mjúkur og fínn en um leið þurfti að tyggja vel. Í fullri hreinskilni sagt var hún ekkert frábær. Hins vegar hef ég heyrt góða hluti um að setja auka ost og bæta hvítlauksolíu á pítsuna. Í þessari rannsókn erum við þó aðeins að ganga út frá pítsunni sjálfri.

Kostnaður: 10

Gæði: 5

Mynd á kassa / raunveruleiki: 4

Meðaleinkunn: 6,3

Goodfella´s stonebaked thin crust margarita:

Þessa pítsu hafði ég ekki prófað áður en hef heyrt marga góða hluti um hvítlauksbrauðið frá sama fyrirtæki. 398 kr. í Bónus sem ég tel nokkuð ágætt verð. Þessi var ágæt. Botninn er það sem ég taldi mest ábótavant við hana en botninn var mjúkur en blautur. Einnig gat reynst erfitt að tyggja skorpuna. Osturinn var góður, það var ekki skrýtið gervibragð af honum eins og reynist vera á sumum frosnum pítsum. Ostamagnið var líka til fyrirmyndar. Sósan er krydduð en það er ekki eins yfirgnæfandi og á Euroshopper pitsunni.

Kostnaður: 7

Gæði: 7,5

Mynd á kassa / raunveruleiki: 7,5

Meðaleinkunn: 7,3

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Ristorante mozzarella pizza:

Ristorante mozzarella pítsan kostar 427 kr. í Bónus sem setur hana ofarlega í kostnaðarhlutann. Ég hef ekki lagt það í vana minn að grípa í Ristorante þegar ég kaupi frosnar pítsur en margir í kringum mig eru miklir aðdáendur. Mér fannst hún góð en það verður hins vegar að taka mið af því að hún er með pestó og tómötum sem gefur henni vissulega annan brag heldur en þær pítsur sem samanstanda einungis af osti og pítsusósu. Fyrir gæði er verðið sanngjarnt og hún er ekkert svo ólík myndinni á kassanum. Ég er almennt ánægð með hana og það verður að segjast að hún kom mér skemmtilega á óvart. Það er þó vert að taka það fram að hún var nokkuð vatnskennd og ég var ekki sérlega hrifin af því. Ég held ég muni ekki byrja að grípa hana að staðaldri.

Kostnaður: 6

Gæði: 7

Mynd á kassa / raunveruleiki: 8

Meðaleinkunn: 7,7


Chicago Town 2 - 4 cheese pizzas:

Þetta er pítsan sem mig dreymdi um að fá að taka með mér í nesti í skólann sem barn. Hún er bæði lítil og krúttleg og í hæfilegri stærð. Tvær saman kosta 328 kr. í Bónus en ég hef lítið að setja út á það verðlag. Það er mikið af osti en ennþá meira af sósu. Sósumagnið er ekki fyrir alla en ég fíla mikla sósu. Hún er ekki mikið krydduð og gefur tómatssósukeim. Ég var almennt nokkuð sátt við þessa.

Kostnaður: 7

Gæði: 6

Mynd á kassa / raunveruleiki: 8

Meðaleinkunn: 7,7


Grandiosa 4 cheese pizza:

Mér blöskraði þegar ég sá verðmiðann á þessari pítsu. 799 kr. í Hagkaup kæru lesendur. Og er hún þá jafnframt langdýrasta pítsan á listanum. Hún var vissulega keypt í Hagkaup á meðan hinar pítsurnar voru keyptar í Bónus og ég tek mið af því. En að mínu mati afsakar það ekki þennan gríðarlega verðmun. Hins vegar þegar við lítum á pítsuna sjálfa þá er þetta önnur pítsa sem ég hafði ekki smakkað. Til að byrja með var osturinn ekkert til að hrópa húrra fyrir. Kryddið á pítsunni var ekki gott og gaf pítsunni beiskt eftirbragð. Botninn var hins vegar mjúkur án þess að vera blautur. Ég var sem sagt ekkert sérstaklega ánægð með hana, sér í lagi þegar hún kostar jafn mikið og hún gerir, þá bjóst ég við meiru. Þrátt fyrir fremur neikvæða umsögn er ég opin fyrir að prófa hana aftur.

Kostnaður: 4

Gæði: 7

Mynd á kassa / raunveruleiki: 7

Meðaleinkunn: 6

Niðurstöður: 

Ég skal sko segja ykkur það, kæru lesendur Stúdentablaðsins, að þessar niðurstöður koma engum jafn mikið á óvart og mér sjálfri. Aldrei hefði mig órað fyrir því þegar ég byrjaði þessa rannsóknarvinnu að Chicago Town og Ristorante myndu bera sigur úr býtum. Og það svona hnífjafnar í einkunn. Ég taldi einnig að það myndi vera töluvert meiri afgerandi munur á einkunnargjöfum, því eins og sést dreifast þær ekki mikið um einkunnaskalann. En það má líta svo á að frosnar ostapítsur séu í grunninn allar afskaplega svipaðar. Eftir á að hyggja hefði verið gaman að gera viðameiri rannsókn, til að mynda taka fleiri pítsur og skoða þær út frá fleiri flokkum. En heilsu minnar vegna hefði það líklegast ekki verið ráðlagt. Það hefði verið of mikið af því góða. Einnig er vert að taka það fram að ég hef alltaf verið aðdáandi bæði Iceland pítsunnar og Gestus en það hefði verið gaman að sjá hvernig þær hefðu staðið sig. Þá hafiði það. Rannsóknin sýnir fram á það að bæði Ristorante og Chicago Town eru bestu frosnu pítsurnar sem völ er á.