Ekki aðeins barátta kvenna 

Ljósmynd/Aðsend

Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður Stúdentablaðsins hafði samband við ungar athafnakonur (UAK) og spurðist fyrir um starfsemi félagsins, jafnréttismál og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu fór viðtalið fram með rafrænum hætti.

Jafnrétti skiptir okkur öll máli

UAK er félagsskapur fyrir ungar konur sem vilja stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jöfnum fæti og bjóðast sömu tækifærin. Félagið er tilvalinn vettvangur fyrir konur sem vilja skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins, mynda tengslanet og efla styrkleika sína. Aðspurðar hverjir eigi heima í þessum félagsskap svara stjórnarkonur UAK: „UAK er fyrir alla sem finna sig í starfi félagsins. Við erum ekki með neitt aldurstakmark og ef einstaklingur hefur áhuga á að taka þátt í starfinu með okkur þá er hann velkomin. Við leggjum mikið upp úr því að skapa öruggt umhverfi fyrir konur til þess að þær geti tjáð sig, komið sér á framfæri og eflt tengslanet sitt. Við höldum reglulega opna viðburði og hvetjum þá alla til að koma. Jafnrétti skiptir okkur öll máli.“

Karlmenn fráhverfir kvennastörfum

Í ljósi þess að yfirskrift blaðsins að þessu sinni er jafnréttismál var sjónum beint að stöðu kvenna á vinnumarkaði. „Þegar við tölum um jafnrétti hér á landi þá er því mjög oft haldið fram að jafnrétti kynjanna sé nú þegar komið. Ef við horfum á vinnumarkaðinn í heild er ljóst að karlmenn eru fráhverfir kvennastörfum (sem eru yfirleitt verr launuð) og konur eiga erfitt með að komast í stjórnunarstöður innan karllægra atvinnugreina.“  

Kvenfyrirmyndir eru mikilvægar fyrir ungar konur til þess að þær sjái að atvinnumöguleikar þeirra takmarkist ekki af kynbundnum þáttum. „Kvenfyrirmyndir eru mjög mikilvægar, sem og sýnileiki þeirra. Engin kona er forstjóri skráðs félags á Íslandi og eru einungis 11% forstjóra í 100 stærstu fyrirtækjum landsins konur. Eftir því sem kvenstjórnendum fjölgar eiga konur meiri möguleika á því að komast langt og vera þær sjálfar á sama tíma. Ungar stelpur þurfa líka að sjá að þær geti unnið við hvað sem þær vilja.“ 

Ásamt því benda þær á að hlutur karla sé ekki síður mikilvægur í jafnréttisumræðunni. „Það er einnig mikilvægt að fá karlmenn með í umræðuna um jafnrétti kynjanna. Karlarnir eru yfirleitt í valdameiri stöðum og það eru þeir sem þurfa að átta sig á stöðunni, axla ábyrgð og bregðast við. Ef þeir gera það ekki þá gerist ekki neitt. Þetta er ekki aðeins barátta kvenna, heldur eigum við að taka þennan slag saman. Það er samt svo galið að við þurfum að berjast fyrir því að láta karlana hlusta, í staðinn fyrir að þeir sjái þetta sjálfir.“

UAK er tilvalinn vettvangur fyrir ungar konur til að efla tengslanetið sitt enn frekar og hefur félagið lagt mikla áherslu á það. Til að mynda með því að halda svokallað tengslakvöld. „Við í UAK leggjum mikið upp úr tengslanetinu, þótt það sé kannski gömul klisja, þá er hún alltaf jafn gild. Í gegnum tíðina hefur ákveðið ósýnilegt net karla tryggt framgang þeirra án þess að það sé endilega eitthvað sem er áþreifanlegt. Við konur höfum oft þurft að berjast fyrir stöðunni sem „eina konan“ og þá sjálfkrafa ekki verið að efla hvor aðra. Núna hefur þetta sem betur fer breyst og erum við í auknum mæli að styðja hvor aðra.“

Fjölbreytt teymi skila bestu niðurstöðunum

Árið 2010 samþykkti Alþingi lög sem gera ráð fyrir því að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skuli hlutfall hvors kyns í stjórninni vera að minnsta kosti 40%. Lögin tóku gildi árið 2013 og eru enn í gildi. Aðspurðar um slíkar aðgerðir af hálfu stjórnvalda svöruðu stjórnarkonur UAK á þennan veg: „Í fullkomnum heimi væri jafnrétti nú þegar við lýði án þess að einhvers konar lagasetningar eða þvinganir ættu að eiga sér stað. Því miður er raunveruleikinn sá að stjórnvöld hafa þurft að taka til ýmissa aðgerða til þess að stuðla að breytingum. Hér má nefna lög um kynjakvóta í stjórnum skráðra félaga, sem og eldri dæmi eins og leikskólavistun fyrir hjón.“ Þær nefna fleiri aðgerðir sem hægt væri að grípa til sem að gætu haft áhrif niður valdapýramídann. „Fleiri aðgerðir sem væri hægt að grípa til væru t.d. að setja upp hvatakerfi fyrir fyrirtæki sem mundi tryggja að lágmarki 40% af öðru kyni í framkvæmdastjórn. Vonin yrði að áhrifanna gæti gætt hvað varðar kynjahlutfall millistjórnenda. Það hefur þó því miður ekki skilað sér.“ 

UAK-dagurinn var haldinn þann 7. mars síðastliðinn og þar var umræða um fjölbreytni á vinnumarkaðinum áberandi. „Mikið var rætt um fjölbreytni á vinnumarkaðinum á UAK-deginum í ár. Miklu máli skiptir að hugtakið fjölbreytni eigi ekki bara við um fjölbreytni kynja heldur einnig aldur,  bakgrunn, trúarbrögð og svo mætti lengi telja. Mismunandi reynsla starfsfólks, bakgrunnur og menning gerir fyrirtæki betur í stakk búin á alþjóðavettvangi. Íslensk fyrirtæki eins og Marel, Össur og CCP hafa náð góðum alþjóðlegum árangri. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að stór hluti starfsfólks þeirra er af erlendum uppruna. Fjölbreytt teymi skila bestu niðurstöðunum.“

Hvar vilja konur vinna

Þær benda jafnframt á mikilvægi þess að fyrirtæki spyrji sig af hverju konur eru ekki að sækja um störf. „Ef við ræðum svo aðeins hvað fyrirtækin sjálf geta gert, þá snýst þetta um að taka ákvörðun og fylgja henni eftir. Ekki bara innantóm loforð og stefnur, heldur grípa til aðgerða. Ef konur eru ekki að sækja um störf þurfa fyrirtæki að spyrja sig af hverju? Hvers vegna vilja konur ekki vinna hérna? Hvernig getum við náð til þeirra? Fyrirtæki hafa gripið til ýmissa úrræða til að ná til kvenna, til dæmis starfsnám. Slík úrræði virðast skila fleiri konum inn í fyrirtækið. Ásamt því þarf að huga að hvers konar umhverfi vinnustaðurinn býður upp á, til að mynda hvað varðar jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, stefnur varðandi áreitni og vinnustaðamenningu. Þetta skiptir allt máli.“

Neytendur halda á spilunum

Stjórnarkonur UAK benda á að með því að ákveða að versla við fyrirtæki á grundvelli jafnréttisstefnu þess þá getum við, almenningur, haft áhrif á sjónarmið fyrirtækja. „Almenningur getur sett kröfur og hann getur sett pressu á fyrirtæki að þau hafi jafnréttismálin sín í lagi. Það er til fullt af fólki sem verslar bara við fyrirtæki eins og banka, tryggingafélög og verslanir sem eru með jafnrétti á dagskrá. Það er hins vegar enginn að fara að ýta á einn takka með þeim afleiðingum að jafnrétti verði náð. Þetta er þróun sem tekur tíma og miðað við stöðuna sem við vorum í fyrir 30 árum þá erum við á góðri leið. Það er fínt að hafa í huga að það erum við sem stjórnum því hvar við eyðum peningunum okkar, völdin liggja hjá neytendum og við getum reynt að velja að versla við fyrirtæki sem eru með þessi mál á hreinu.“ 

Ásamt því benda þær á að mikilvægt sé að auka umræðuna um jafnréttismál því án umræðunnar eigi litlar framfarir sér stað. „Aukin umræða um jafnréttismál og fjölbreytni er mikilvæg og bara það að taka þátt í umræðunni og láta í sér heyra getur skipt sköpum. Þórey Vilhjálmsdóttir sagði á UAK-deginum að um leið og við byrjum að tala um þetta getum við farið að breyta heiminum.“  

Þær benda á hreyfingar á borð við Karlmennskuna og Fávita (Instagramsíða) sem hafa átt stóran þátt í að auka umræðuna um stöðu jafnréttismála hér á landi og hvetja til hugarfarsbreytingar í samfélaginu. „Sem dæmi eru líka síður eins og Fávitar og Karlmennskan að gera mjög góða hluti þegar kemur að því að stuðla að auknu jafnrétti og hugarfarsbreytingu í samfélaginu. Við lifum á tímum þar sem auðvelt er að taka þátt í umræðunni og við ættum að nýta það til að tala um þau málefni sem okkur þykja mikilvæg.“

Viljum stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis

Aðspurðar hvert UAK stefni svöruðu þær: „Við í UAK viljum stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifærin. Þar til konur og karlar standa jöfnum fæti í íslensku samfélagi munu Ungar athafnakonur starfa áfram og vinna að jafnrétti með fræðslu, umræðu og hvatningu“. 

Hvað er í vændum

Að lokum var farið yfir þá atburði sem eru í vændum hjá UAK en þar er meðal annars námskeið hjá Andrési Jónssyni og Sesselju Birgisdóttur en yfirskrift þess er „Vörumerkið þú“ og fjallar um hvernig maður kemur sér á framfæri. Í lok starfsársins, í maí, er haldinn aðalfundur þar sem ný stjórn verður kosin fyrir næsta starfsár. Hápunktur hvers starfsárs er UAK- dagurinn sem er ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu.