Stúdentaráð 100 ára! (framhald)

Úrklippa úr Stúdentablaðinu 1952.

Úrklippa úr Stúdentablaðinu 1952.

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar aldarafmæli í desember 2020. Eins og nefnt var í 3. tölublaði verður haldið áfram með umfjöllun í tengslum við afmælið í þessu blaði. Stúdentaráð hefur barist fyrir hagsmunum stúdenta í 100 ár og hefur jafnrétti verið eitt af aðalmálefnum ráðsins. Eitt mál var sérstaklega til umræðu á fyrsta fundi Stúdentaráðs árið 1920, en það var jafnrétti til náms og tillögur um fjármögnun námsins fyrir þau sem minna höfðu milli handanna. Burtséð frá lána- og styrkjamálum hefur Stúdentaráð helgað sig ýmsum öðrum störfum í nafni jafnréttis á öllum sviðum háskólasamfélagsins. Að vissu leyti er hægt að líta á SHÍ sem eins konar stéttarfélag námsmanna og sigrum þess ber að fagna á aldarafmælinu.  

Stefna SHÍ í jafnréttismálum

Átta málefni eru skráð í jafnréttisstefnu SHÍ. Til að byrja með telur ráðið að aðgengismálum sé verulega ábótavant. Skert aðgengi er að byggingum skólans ásamt skólastofum og öðrum rýmum. Hægt er að auka aðgengi fyrir öll á háskólasvæðinu ásamt auknu námsframboði fyrir námsmenn með þroskahömlun. Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á aukna sálfræðiþjónustu fyrir nemendur en krefst einnig þess að kennarar fái fræðslu um andleg veikindi og hvernig bregðast eigi við slíku. Hvað málefni hinsegin fólks varðar vill Stúdentaráð stuðla að aukinni hinseginfræðslu ásamt ókynjaðri orðræðu og umhverfi í Háskóla Íslands. Þá á kynningarefni á vegum Háskóla Íslands að endurspegla fjölbreytni og sýna að við skólann sé fólk með mismunandi bakgrunn. Upptökur á fyrirlestrum í tímum eru nauðsynlegar þar sem mismunandi ástæður liggja að baki fjarveru nemenda. Háskólasamfélaginu ber skylda til að vinna að kynjajafnrétti og útrýma kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni innan veggja skólans. Þá ber því einnig skylda til að útrýma fordómum vegna m.a. trúar, uppruna og kynþátta. Öll eiga að vera velkomin í Háskóla Íslands. Að lokum er þörf á að tengja jafnréttismál og umhverfismál, en fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum samfélaga finnur hvað mest fyrir áhrifum hamfarahlýnunarinnar. Stefnu Stúdentaráðs í jafnréttismálum má lesa í heild sinni á vefsíðu þess, student.is.

Barátta SHÍ fyrir námsstyrkjum og lánum

Frá 1579 til 1918 var í boði svokallaður Garðstyrkur fyrir íslenska námsmenn sem vildu stunda nám í Kaupmannahöfn. Þá tók Alþingi við að úthluta styrkjum til  íslenskra námsmanna erlendis næstu tíu árin og síðar Menntamálaráð árið 1928. Námsstyrkir innanlands voru veittir stúdentum við Háskóla Íslands frá því að skólinn var stofnaður árið 1911. Skrifað var í reglugerð skólans að efnilegir námsmenn ættu rétt á styrkjum. Þá var einnig gerð krafa um góðan námsárangur en það var ekki samþykkt í reglugerð fyrr en 1938. Styrkjunum var skipt í tvennt til að byrja með, annars vegar námsstyrki og hins vegar húsaleigustyrki. Með tímanum fór fjöldi námsmanna vaxandi og fengu sömuleiðis færri nemendur styrki, og þeir sem fengu styrki fengu lægri upphæðir. Stúdentar urðu óánægðir yfir því hversu lítil áhrif þeir höfðu á styrkina og kröfðust aðgerða. Árið 1927 var fyrri Lánasjóður stúdenta tekinn í notkun sem starfaði til 1952. 

Lúðvíg Guðmundsson, sem nefndur var í síðasta tölublaði, var upphafsmaður lánasjóðsins og gaf Háskóla Íslands 50 krónur við stofnun hans. Fulltrúaráð sjóðsins var skipað einum einstaklingi frá Stjórnarráði, einum frá Háskólaráði og einum frá Stúdentaráði. Skömmu fyrir 1952 var Stúdentaráð ekki lengur sátt við styrkina sem námsmenn fengu þar sem upphæðin var ekki lengur fullnægjandi. Stúdentaráð var ákveðið í að bæta aðstöðu námsmanna og vildi frekar fá hærri lán á hagstæðum kjörum. Þá vildi Stúdentaráð vera í samstarfi við ríkið til að byrja með en með tímanum vildi það gera lánasjóðinn að sjálfstæðri stofnun. Frumvarp um seinni Lánasjóð stúdenta var samþykkt af Alþingi 11. janúar 1952 og staðfesti forseti lögin 20. janúar sama ár. Lánasjóðurinn varð á endanum sjálfstæð stofnun eins og lofað var en árið árið 1961 var starfseminni breytt og voru styrkja- og lánamál íslenskra námsmanna sameinuð undir Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Stúdentaráð fagnaði þessu en menntamálaráð hélt að vísu áfram að veita námsfólki erlendis námsstyrki og námslán þar til 1967. Þá tók LÍN við allri starfsemi er varðar námslán. Árið 1976 varð síðan enn önnur breytingin en þá var ákveðið að verðtryggja öll námslán. 

Frá 1976 hafa ýmsar reglugerðir og lög breytt umgjörð námslána en ekki verður nánar farið í það hér. Í dag er stefnt að því að 30% námslána verði felld niður við náms­lok ef frumvarp um Menntasjóð náms­manna verður samþykkt á Alþingi. Hægt er að líta á þetta sem styrk, en aðeins ef tekið er lán. Sömu­leiðis munu vextir taka mið af vaxta­kjörum ríkisins í stað fastra 1% vaxta sem eru í núverandi kerfi. Aldur lánþega verður takmarkaður við 67 ár og lántakendur sem ljúka námi eftir 35 ára aldur fá ekki kost á tekjutengdum afborgunum. Stúdenta­ráð hefur gagnrýnt þessar breytingar og segir þetta fyrirkomulag boða mikla óvissu og aukna hættu fyrir lánþega. Þá verður einnig boðið upp á óverðtryggð lán og hefst endur­greiðsla lánanna einu ári eftir náms­lok, í stað tveggja. Annars staðar á Norður­löndum er fyrirkomulagið öðruvísi. Auk hagstæðari lánakjara fá námsmenn náms­styrki og almennt eru engin skólagjöld. Vonandi verður þróun námslánakerfisins á Íslandi í átt að því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Ef einhverjar spurningar vakna varðandi lánasjóðinn er alltaf hægt að leita til lána­sjóðsfulltrúa Stúdenta­ráðs sem starfar á skrifstofu SHÍ, en Marínó Örn Ólafsson gegnir því embætti þetta skólaárið.