„Eilífðarunglingur inn í mér“: Viðtal við Dominique Gyðu Sigrúnardóttur

Mynd: Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd: Sædís Harpa Stefánsdóttir

Eflaust kannast margir við Dominique Gyðu Sigrúnardóttur, einhverjir hafa jafnvel séð hana á göngum skólans eða setið með henni í tímum. En Dominique er ekki bara meistaranemi í ritlist, heldur líka hæfileikarík leikkona og leikstjóri. Dominique útskrifaðist af leikarabraut í LHÍ árið 2015 og hefur fengist við margvísleg verkefni síðan þá, fyrst og fremst þau sem snúa að ungu fólki. Dominique er um þessar mundir í samstarfi við kynfræðinginn Siggu Dögg og Þjóðleikhúsið að vinna að sýningu fyrir ungt fólk og ber verkefnið vinnutitilinn Trúnó. Ég settist niður með Dominique og forvitnaðist um verkefnið og feril hennar.

KMB: Geturðu sagt mér frá þessu verkefni með Þjóðleikhúsinu?

DGS: Markmið Trúnó er að  fá ungt fólk á menntaskólaaldri, miðum við svona 15-20 ára, til þess að senda okkur hvað það vill sjá fjallað um í Þjóðleikhúsinu tengt þeirra aldurshópi. Þetta er þessi aldurshópur sem fer oft ekki mikið fyrir innan leikhúsanna, því miður og því viljum við breyta. Við Sigga Dögg erum að taka á móti þessum tillögum og komum til með að þróa áfram 1-3 hugmyndir sem verða fyrir valinu. vinna áfram með einhverjum 1-3 einstaklingum sem senda inn þessar tillögur. Við stefnum að því að einhverskonar grind að verki verði til fyrir lok þessa leikárs. Verkefnið er á mjög spennandi stað eins og er því það er í raun alveg frjálst í hvaða formi Trúnó endar. Þetta gæti orðið uppistand, leikrit, einleikur. Við erum algjörlega opin fyrir öllum hugmyndum og viljum skapa eitthvað nýtt, fyrir og um ungt fólk, á þeirra forsendum.

KMB: En af hverju þið Sigga Dögg? Hvað kemur til að þið eruð saman í þessu?

DGS: Við þekktumst lítið sem ekkert áður en þetta verkefni kom til, en Þjóðleikhúsið auglýsti fyrir ári síðan eftir nýjum íslenskum barnaverkum og við sendum sitthvora hugmyndina, báðar í pínu uppreisnarhug því það voru ekki barnaverk. Ég fór í þá átt að segja bara: „Hvað með unglingana?“ og nefndi áhuga minn á að búa til nýtt íslenskt verk fyrir ungt fólk með aðferðum samsköpunarleikhúss eða það sem heitir á ensku devised theater. Ég var boðuð á fund upp í Þjóðleikhúsi og Sigga Dögg líka og við kynntum í sitthvoru lagi okkar hugmyndir. Og það kviknaði á einhverri peru hjá stjórninni, um að við ættum eflaust vel saman. Sigga Dögg hefur unnið frábært starf og hefur  mikla reynslu af því að kenna unglingum kynfræðslu og ég er leikaramenntuð og hef verið að leikstýra unglingum. Þannig að þegar þau kynntu okkur, vorum við vissar um að við gætum leitt hesta okkar saman og gert eitthvað geggjað. Við stefnum á það.

„Þetta er ákveðin orka sem maður sækir í, ég fæ kannski smá kikk úr því að vinna með svona orkuríku fólki sem hefur ekki fastmótað sig enn þá. Kannski svolítið eins og ég sjálf.“

KMB: Geturðu sagt aðeins frá því hvað þú hefur verið að gera síðan þú útskrifaðist úr LHÍ?

DGS: Já, ég útskrifaðist 2015 og eftir það fór ég að vinna svolítið við kvikmyndagerð. Ég var hálfgerður lærlingur hjá Ragnari Bragasyni í um hálft ár, við undirbúning og tökur á sjónvarpseríunni Fangar. Þar lærði ég heilmargt og varð staðráðin í því að gera kvikmyndagerð hluta af lífi mínu ásamt leiklistinni. Leikstjórn hefur alltaf heillað mig mikið og þar upplifi ég mig í essinu mínu.. Eftir það fór ég að leikstýra Listafélagi Verzlunarskólans, sem var með því skemmtilegra sem ég hef gert. Svo skrapp ég norður á Akureyri að leika með leikfélaginu þar og kom svo aftur og leikstýrði öðru á Versló leikriti, en það var einmitt unnið með og upp úr leikhópnum, og heppnaðist einstaklega vel. Næst vann ég að kvikmyndinni  Kona fer í stríð , sá um leikaraval og var aðstoðarkona leikstjórans, Benedikts Erlingssonar. En vinna með unglingum kallar á mig. Kannski er ég hálfgerður eilífðarunglingur inn í mér, mér finnst ótrúlega gaman að vinna með þessum aldurshópi. Það eru svo margir möguleikar, þau eru enn þá að mótast, prufa margt og feta mismunandi slóðir og eru áhugasöm. Þetta er ákveðin orka sem maður sækir í, ég fæ kannski smá kikk úr því að vinna með svona orkuríku fólki sem hefur ekki fastmótað sig enn þá. Kannski svolítið eins og ég sjálf. 

Mynd: Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd: Sædís Harpa Stefánsdóttir

KMB: Langar þig að halda áfram á þessari braut og fara dýpra? Eða langar þig að róa á ný mið?

DGS: Ég er að klára mastersverkefnið mitt í vor sem er kvikmyndahandrit í fullri lengd. Ég stefni að því að sækja um styrk hjá kvikmyndasjóði til að þróa það verkefni áfram. En svo er annar draumur að Trúnó, þetta verkefni, gangi vel og að beinagrindin sem við skilum af okkur núna í vor verði eitthvað sem Þjóðleikhúsið hefur áhuga á að fjárfesta í áfram. Þá myndum við taka aftur upp þráðinn í haust og opna fyrir prufur fyrir fólk á þessum aldri til þess að leika í verkinu. Og það er draumurinn, að þetta komist alla leið. Úr því að þetta verkefni þurfti að skiptast í tvennt út af COVID. 


KMB: Nú er ég forvitin, af hverju heldurðu að það sé svona mikið sneitt hjá unglingum? Unglingssystir mín kvartar t.d. mikið undan skorti á íslenskum unglingabókum.

DGS: Ég held að hluta til sé þetta ótti við að eitthvað sem maður gerir falli ekki í kramið. Vegna þess að tíska og áhugi ungs fólks er alltaf að breytast. Og maður dettur mjög hratt út úr lúppunni á því sem þykir áhugavert eða kúl ef maður heldur sér ekki við. En ég held að það séu allir pínu forvitnir um þennan aldur, enda unglingsárin í flestum tilfellum mjög spennandi tími. Allir geta tengt við sinn innri ungling, bara ef þau fá tækifæri til þess. Ég man til dæmis að á einni sýningunni á Skömm, sem var seinna verkið sem ég leikstýrði, þá voru ónefndir þjóðþekktir karlmenn sem sátu í salnum og táruðust. Það rifjuðust upp fyrir þeim einhver augnablik frá þessum aldri og þetta er tími sem fylgir manni. Hlutirnir sem maður lærir, samskiptin sem maður á við vini sína og nánustu. Meira að segja Guðni forseti kom til mín eftir á og sagðist hafa séð sjálfan sig þarna í einni týpu sem var á sviðinu. 


KMB: Já, unglingurinn blundar kannski í okkur öllum?

DGS: Akkúrat! Og það að Þjóðleikhúsið sé að opna fyrir þetta verkefni er frábært. Það er ekki bara að fjárfesta í þessum aldurshópi, þetta er líka tækifæri fyrir foreldra, kennara, eldra fólk sem umgengst þennan aldurshóp til að koma og læra eitthvað nýtt, skilja betur hvað er í gangi hjá þessum einstaklingum í dag. Hvað þau eru að hugsa, hvað þau þrá og, hvað þau óttast. Þetta er nauðsynlegt samtal, til hvers ekki að nota leikhúsið í það?

Tekið var við tillögum til 1. febrúar en Dominique vill vekja athygli á prufunum sem verða í haust og hvetur ungmenni á aldrinum 2000-2005 til að fylgjast með þeim.