Fantabulous Fan Fiction

Þetta er ekki bókmenntaumfjöllun í klassískum skilningi. Þetta er meira eins og viðvörun. Um daginn las ég bók sem var eitthvað það ógeðfeldasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað — og ég sá Þorsta eftir Steinda. Bókin heitir Fantabulous Fan Fiction og er eftir Egil Atlason. Ég hef ekki lesið „Fan Fiction“ áður en það snýst greinilega um að gera lítið úr verkum annara höfunda með því að láta sögupersónurnar haga sér eins og fífl. Hinsvegar hættir höfundurinn ekki þar.

Strax í formálanum lýsir hann ástaratlotum tveggja sögupersóna úr Harry Potter bókaflokknum. Hann þykist ekki einu sinni vera að tala um einhverja aðra en skýrir þá Happy Popper og Donald Westley. Reyndar skýrir hann allar sögupersónur svona. Höfundurinn virðist vera latur ásamt því að vera pervert. Hann þykist síðan hafa klippt sextíu og níu dónalegustu blaðsíðurnar úr fyrri útgáfu bókarinnar. Ég skoðaði málið aðeins betur og það var aldrei nein fyrri útgáfa.

Bókin sjálf er full af skopstælingum sem eru hver annari heimskulegri. Sú versta er líklega þegar hann gerir grín að einu besta bókmenntaverki allra tíma: Hamlet. Þessum manni fannst fyndið að gera grínþátt úr Hamlet. Getið þið ímyndað ykkur? Shakespeare að skrifa grínþætti. Var ég búin að minnast á að bókin er skrifuð eins og kvikmyndahandrit? Hver myndi einu sinni vilja lesa kvikmyndahandrit? Ef þú ætlar þér að vera hrottalegur þá getur þú allavega skrifað venjulegar sögur. Kæri lesandi. Ég bið þig. Ekki lesa þessa bók.

Egill Atlason, ef þú ert að lesa þetta: skríddu aftur niður í holuna sem þú komst úr. Ég vona að þú skrifir aldrei framar og ef þú gerir það vona ég að þér vegni illa. Mest af öllu þá vona ég að engin börn lesi skrifin þín.

-   Áhyggjufull móðir

MenningRitstjórn