Úr þægindaramma til útgáfu

Hönnun bókar: Elín Edda

Hönnun bókar: Elín Edda

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Á Þrykk er námskeið sem er frekar ólíkt öðrum í skapandi skrifum. Námskeiðið er samstarf ritlistarnema og nema í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu þar sem unnið er að smásagnasafni sem er svo gefið út á bók. Ár hvert kjósa nemendur um titil, hönnun og þema bókarinnar. Að þessu sinni ber bókin heitið Þægindarammagerðin. Þema hennar er spor, sem getur þó merkt margt, til að mynda fótspor, slóð eða saumar, það fer allt eftir samhenginu.

Eftirvænting eftir einhverju nýju

Þetta hefur verið skyldunámskeið hjá meistaranemum í ritlist frá upphafi. „Ég vissi reyndar ekki að þetta væri skyldunámskeið,“ segir Birna Hjaltadóttir, nemandi í ritlist, og bætir við: „en þetta er námskeið sem ég vildi taka til að fá tækifæri til þess að vinna með ritstjóra í stað þess að fara bara yfir efni hvert frá öðru, því við gerum mikið af því í ritlistinni. Það er allt annað að fá endurgjöf frá ritstjóra en öðrum rithöfundum.“ Fáeinir ritlistarnemanna hafa gefið efni út áður en þó fæstir. 


„Þetta er í fyrsta sinn sem einhver okkar vinna með ritstjórum,“ segir Birna. Auk þess að bíða eftir því að vinna með ritstjóra með eftirvæntingu finna nemarnir líka fyrir töluverðum spenningi fyrir því að verða útgefnir rithöfundar. „Við erum byrjendur á þessu sviði,“ segir annar nemandi, Númi Arnarson. Hvorki Birna né Númi hafa áður gefið út efni. „Og þess vegna er mjög mikilvægt að við stöndum okkur vel svo fólk kaupi verkin okkar í framtíðinni,“ bætir Birna við og hlær. „Ef þessar smásögur eru lélegar eigum við ekki séns.“

Þú verður bara að setjast niður og skrifa

Þó svo að þau hafi ekki gefið neitt út áður hafa bæði Birna og Númi skrifað í dágóðan tíma. Númi hefur verið að „í mörg ár, en ekki stanslaust eins og ég vinni við það. Ég geri það bara í sirka hálftíma á dag,“ segir hann og bætir við að hann hafi byrjað að skrifa með því að halda dagbók. „Ég hélt dagbók í mörg ár. Og eftir að hafa skrifað út daginn minn svo vikum skipti byrjaði ég að skrifa eitthvað heimskulegt og skapandi inn á milli og svo vatt það upp á sig.“ Skapandi ferli Núma er mjög skipulagt. „Ef þú ert alltaf að bíða eftir að andinn grípi þig og að þú fáir innblástur þá mun ekkert gerast. Í mínu tilfelli virkar þetta þannig að ég sest niður og skrifa og sé hvað kemur úr því. Sumt af því er nothæft en annað ekki.“

Mynd: Lárus Sigurðarson

Mynd: Lárus Sigurðarson

Reynsla Birnu er svipuð en hún játar þó að vera meiri byrjandi. „[Ég skrifa] ekki eins reglulega,“ segir hún. „Stundum tekur lífið stjórnina. Börn og alvöru starf,“ segir hún og hlær. „Ég er bara að stíga mín fyrstu skref sem rithöfundur, þannig ég er enn að finna út hvernig er best að fara að hlutunum. En margt á sér stað í höfðinu áður en ég sest niður, þannig ég þarf að þekkja það ferli. Ég er enn að æfa mig í hlutanum þar sem ég raunverulega sest niður og geri hlutina.“ 

Sigríður Inga Sigurðardóttir, einn ritstjóranna, er sammála Birnu. „Ég held að þetta sé bara æfing. Ég hef unnið sem blaðamaður í mörg ár … þú verður að setjast niður, byrja á einhverju og á endanum kemur eitthvað úr því.“

Hlutverk ritstjórans

Sigríður tekur hlutverk sitt sem ritstjóri mjög alvarlega. „Fyrst les ég sögurnar til þess að fá tilfinningu fyrir þeim. Síðan tek ég mjög djúpan lestur. Síðan reyni ég að finna út hvort fólk sé með ákveðinn stíl eða hvort það sé ákveðið þema. Stuttar eða langar setningar, eitthvað slíkt,“ segir hún. „Eftir það skoða ég málfræðina og athuga hvort staðreyndirnar séu réttar.“ Ritstjórar hjálpa höfundunum líka að sjá hversu raunhæf skrifin þeirra eru. „Þau gefa okkur ábendingar,“ segir Birna. Ef að barn myndi til að mynda ekki orða eitthvað á einhvern ákveðinn hátt gæti ritstjóri bent á það. „Ég er alltaf að bíða eftir að þau segi kannski ‘þetta er rusl, vinsamlegast reyndu aftur seinna,’ en enginn gerir það,“ segir hún að lokum með bros á vör. 

Sigríður fullyrðir að hún myndi aldrei segja höfundi að henni líki ekki við söguna hans. Hún vill gefa höfundum uppbyggilegar athugasemdir frekar en neikvæðar. „Mér finnst þú þurfa að bera virðingu fyrir því að fólk sé að skrifa … Fólk hefur mismunandi skoðanir. Ég er bara að reyna að gera textann betri.“

Bókin er væntanleg í júní og hópurinn vonast til að geta haldið útgáfuhóf 10. júní ef aðstæður leyfa. Fylgist með!