Hugleiðingar um sjálfbær áhugamál

Mynd: Heimatilbúin

Mynd: Heimatilbúin

Öllum er hollt að eiga sér áhugamál. Þau þurfa ekki að vera gagnleg, sniðug eða einu sinni skynsamleg, þau mega bara vera skemmtileg. Ég á mér mörg áhugamál. Einhver þeirra hafa dottið upp fyrir í áranna rás og önnur haldist inni í gegnum þær ýmsu persónuleikabreytingar sem ung kona hlýtur að ganga í gegnum. En svo bætast alltaf reglulega ný við. Eins og mörg önnur ákvað ég að prófa súrdeigsbakstur þegar liðið var á Covid og ekki útlit fyrir það að hlutirnir færðust í eðlilegt horf í bráð. Í fyrstu gerði ég þetta með hálfum hug, var eiginlega búin að ákveða að þetta væri of erfitt og flókið fyrir mig. Ég er ein af þeim sem á það til að hætta einhverju ef ég er ekki frábær í því í fyrstu tilraun, þið skiljið. En eftir mánuð af smá harki og blíðuhótum á víxl við súrmóðurina small þetta einhvern veginn saman. Ég gerði mér í kjölfarið grein fyrir því að ánægjan sem ég fékk við að sinna þessu nýja áhugamáli tengdist meira afurðinni (og gæðum hennar) en vinnunni sjálfri. 

Ég pældi ekki meira í þessu þá. Enda eðlilegt að þykja skemmtilegra að borða gott brauð en að standa í bakstri, held ég. Litla gula hænan og allt það. En smátt og smátt fór ég að sjá þetta munstur í fleiri áhugamálum hjá mér. Mér finnst miklu skemmtilegra að ganga í flík eftir sjálfa mig en að prjóna hana. Og enn ánægjulegra að sjá fólkið mitt í flík eftir mig en að raunverulega prjóna á þau (þá get ég ekki einu sinni hlakkað til að eiga ný föt meðan á verkefninu stendur). Það veitir mér líka miklu meiri gleði að eiga falleg blóm en að umpotta þeim eða vökva. Og svo framvegis. Ég varð mjög leið að komast að þessu um sjálfa mig - er ég svona ógeðslega löt að finnast áhugamálin mín leiðinleg nema þegar þau gefa af sér afurð? Ef svo er, af hverju kaupi ég þá ekki bara prjónaflíkur og brauð úti í búð?

Og það er alveg ótrúlega góð spurning, kæri lesandi. Því að öllum þessum áhugamálum, brauðbakstri, prjónaskap, saumaskap, fataviðgerðum og blómaeign fylgir einn leynikostur í viðbót. Sjálfbærnin sem í þeim felst. Ég veit að ég er ekki að finna upp hjólið. Það er ekki svo langt síðan þessi upptalning var hluti af eðlilegu heimilislífi. Ég geri mér líka fulla grein fyrir kaldhæðninni sem felst í því að kalla heimilisstörfin sem neyddu formæður mínar til þess að vera upp á karlmenn komnar fjárhagslega og undirokunarinnar sem í því fólst, áhugamál. Sú hlið málsins er svo sannarlega mikilvæg en ég er að skrifa á orðafjöldatakmörkunum og fæ bara að eiga þá umræðu inni.

Í dag bý ég, ung kona fædd á 21. öldinni, við þann kost (eða ókost, það fer eftir því hvernig litið er á málin) að geta sinnt þessum áður-nauðsynjaverkum í frítíma mínum og notið sköpunarinnar sem í því felst. Ég þarf ekki að prjóna til að eiga föt, en ég get gert það og notið þess að vita nokkurn veginn hvaðan flíkurnar mínar koma. Ég þarf ekki heldur að baka brauðin mín sjálf, guð má vita að nóg er af súrdeigsbakaríum í Reykjavík þessa dagana. En ég get lært eitthvað nýtt og nytsamlegt og skorið út sæt hjörtu í brauðin mín ef ég vil. Ég get notið þess að gera alla þessa hluti á eigin forsendum og klappað loftslagskvíðanum mínum blíðlega á bakið í leiðinni.