Heilbrigt kynlíf og heilbrigt viðhorf

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir

Þegar ég kom til Íslands tók ég eftir því að flest voru töluvert opnari um kynhneigðir sínar, og að umræðan um kynlíf væri opinskárri en það sem ég átti að venjast í Englandi. Ég ræddi við Gerði Huld Arinbjarnardóttur, sem rekur kynlífstækjabúð, um það hvort viðhorf til kynlífs og kynhneigðar væri að breytast.

Grafík: Sóley Ylja A. Bartsch

Sjónarmiðin breytast

Gerður svaraði spurningu minni um það hvernig best væri að stuðla að heilbrigðu viðhorfi til kynlífs með áherslu á mikilvægi fræðslu og opinnar umræðu. Hún benti sérstaklega á það að sem stendur miði kynfræðsla helst að því að kenna fólki að forðast ótímabæra þungun og kynsjúkdóma, frekar en að beina sjónu sinni að skemmtilegri hliðum kynlífs. Fólk ætti að alast upp við þann skilning og vitneskju að kynhvöt og kynórar séu ekkert til að skammast sín fyrir.

Samkvæmt Gerði hafa viðhorf Íslendinga til kynlífs breyst mikið síðustu 10 árin og eftirspurn eftir kynlífstækjum hefur einnig aukist. Fólk sé farið að kaupa mörg mismunandi tæki til ýmissa nota. Hún minnist þess að afar hennar og ömmur hafi haft áhyggjur af því að hún væri að spilla mannorði sínu. Hún lítur það bjartsýnum augum að fólk sé farið að vera opnara þegar kemur að kynlífi og stendur föst í þeirri trú að öll eigi jafnan rétt á því að upplifa unun, ekki bara karlar og konur. Því meira sem fólk fræði sig og þrói með sér heilbrigt viðhorf, verði unaðurinn sem fólk fær út úr því meiri.

Samskipti og samþykki eru lykilatriðin

Gerður tók þá ákvörðun að flokka kynlífstækin í verslun sinni ekki eftir kyni til að gæta gæta þess að öll upplifi sig velkomin. Í staðinn flokkar hún þau eftir kynfærum; „píka, typpi og rass“, sem gerir fólki auðveldara að finna það sem þau leita að, og útilokar ekki neinn frá umræðunni um heilbrigt viðhorf til kynlífs. Hún nefnir einnig að fullt af fólki hafi jafnvel ekki áhuga á kynlífi: „Með því að tala um mismunandi langanir og það að ekki öll vilji, upplifi eða hafi áhuga á því sama þegar kemur að kynlífi er okkur mikilvægt. Kynlíf er mun meira en bara innsetning. Sum hafa engan áhuga á þeim hluta kynlífsins, en elska forleik, eða jafnvel bara nándina sem skapast.“

Að sjálfsögðu inniheldur ekki allt kynlíf hjálpartæki, en getan til að tjá þarfir þínar og langanir er mikilvægur liður í því að stunda heilbrigt kynlíf. Gerður minntist á tvö lykilatriði sem mér finnst nauðsynlegt að leggja áherslu á: samskipti við þig sjálft eru alveg jafn mikilvæg og samskipti við rekkjunaut, fyrsta skrefið í átt að heilbrigðu kynlífi er að leyfa þér að prófa þig áfram og njóta. Seinna atriðið er hve mikilvægt það er að upplýsa rekkjunaut þinn hvort tveggja um það sem þú fílar og hvað þú fílar alls ekki. Það stuðlar að heilbrigðum mörkum að vita hvers þú nýtur.

Mörk og örugg svæði

Það er undir þér komið hvaða mörk þú setur sjálfu þér enda er kynlíf mjög persónuleg upplifun. Sumum reynist það mjög auðvelt að stunda kynlíf á meðan aðrir hafa ekki sama sjálfstraust og áhyggjuleysi. Það er mikilvægt að virða mörk fólks í öllum aðstæðum, en það á þó sérstaklega við í innilegum samböndum.

Eins og fram kom hér að framan er kynlíf ekki allra, og það er í góðu lagi að njóta þess ekki eða hafa áhuga á því. Kynhneigðir falla inn í róf og það er orðið auðveldara fyrir fólk að átta sig á staðsetningu sinni á því rófi eftir því sem umræðan verður framsæknari. Það er mikilvægt að öll fái öruggt umhverfi til þessarar íhugunar og að fólk upplifi sig óhult. Hér að neðan er listi sem ég tók saman yfir nokkrar íslenskar vefsíður og greinar sem gætu komið þeim að gagni sem eru að reyna að átta sig á kynhneigð sinni. 

 

Gagnlegar vefsíður:

Um kynhneigð og hinseginleika í heild sinni:

https://positivesexuality.org/resources/sexuality-resources/

https://samtokin78.is/english/

https://queer.is/

Um eikynhneigð:

https://www.asaraislandi.is/

Um jákvætt kynheilbrigði og femínisma:

Það eru margar greinar um Druslugönguna (milliþjóðlega hreyfingu sem hefur það að markmiði að spyrna gegn nauðgunarmenningu) á netinu sem hægt er að nálgast með snöggri Google-leit.

Húð og kyn:

https://samtokin78.is/for-std-tests/


Ef þú hefur spurningar um hluti allt frá notkun kynlífstækja og möguleika sem fela ekki í sér innsetningu, upp í vinnusmiðjur í kynheilbrigði og unun, má hafa samband við Gerði í gegnum netfangið blush@blush.is.

Lífstíll, Mest lesiðSam Cone