Kvalir hvala: Vistmorð Hvals hf. á langreyðum

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

AÐ MORGNI FÖSTUDAGS, þann 22. september, leikur létt gola um risavaxið hræ í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði. Það er tekið að hausta og sólargeislarnir gægjast varfærnislega í gegnum skýjabakkana sem hylja himininn. Starfsfólk gengur rösklega til verka og hlutar dýrið í sundur, dregur svo stærðarinnar búta í burtu til að verka þá frekar - frysta, og senda á endanum þvert yfir heiminn, til Japan. Starfsfólkið, klætt í svarta vinnugalla í bláum hönskum, sker í sundur kviðinn á langreyðinni og skyndilega rennur stórt fóstur út úr móðurkviði dauðrar móður sinnar. 

Ein síðasta hvalveiðiþjóðin

Ísland er ein af þremur þjóðum sem enn stundar hvalveiðar í atvinnuskyni. Þessi áframhaldandi starfsemi brýtur í bága við bann Alþjóðlega hvalveiðiráðsins (IWC) sem tók gildi árið 1986. Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á því að gefa út hvalveiðileyfi sem þarf að endurnýja á fimm ára fresti. Hvalur hf., eina íslenska fyrirtækið sem enn stundar hvalveiðar, hefur leyfi sem gefið var út árið 2019 af Júlíusi Þóri Júlíussyni, þáverandi matvælaráðherra. Það þýðir að leyfið gildir eingöngu út árið 2023. Sú tegund sem Hvalur hf. veiðir er langreyður, næststærsta dýrategund á jörðinni. 


Á þessu ári hefur samfélagsumræðan um hvalveiðar orðið háværari, sérstaklega í kjölfar svartrar skýrslu MAST, Matvælastofnunar, sem sýndi að hvalveiðar síðasta árs samræmdust ekki markmiðum laga um velferð dýra. Skýrslan leiddi í ljós að skjóta þurfti 24% hvalanna sem veiddir voru oftar en einu sinni, suma jafnvel þrisvar eða fjórum sinnum. Þar að auki týndist eitt dýr sem búið var að skjóta - sem dó án efa kvalafullum dauðdaga. Meðaltíminn sem það tók hvali sem dóu ekki samstundis að láta lífið var 11 og hálf mínúta. Þetta þýðir að Ísland er ekki einungis að hunsa alþjóðabann við hvalveiðum í atvinnuskyni með því að veiða langreyðar, tegund sem er í útrýmingarhættu samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN), heldur líka að brjóta sín eigin lög um dýravelferð. 

Tímabundið hvalveiðibann í júní

Eftir afhjúpun skýrslunnar um hvalveiðitímabil ársins 2022, beið fólk í ofvæni eftir því að sjá hvort skýrslan, sem útlistaði fjölmarga þætti sem brutu gegn lögum um velferð dýra, myndi hafa áhrif á hvalveiðitímabil ársins 2023 sem nálgaðist óðfluga. Venjulega hefjast hvalveiðar um miðjan júní, eftir sjómannadaginn, og aðgerðasinnar stóðu fyrir fjölda mótmæla eftir því sem veiðitímabilið nálgaðist. Fólk streymdi um götur Reykjavíkur og fjölmennti á mótmælin í þeirri von um að Svandís Svavarsdóttir, núverandi matvælaráðherra, myndi bregðast við. Á sama tíma hlaut herferð á Change.org meira en 600.000 undirskriftir, þar af yfir 20.000 undirskriftir frá Íslandi. Önnur könnun í júní sýndi að einungis 29% Íslendinga væru hlynntir hvalveiðum, þar af voru flestir yfir 60 ára gamlir. Hins vegar væru 51% landsmanna andvígir hvalveiðum.

Á heildina litið bar þrýstingur almennings árangur. Svandís Svavarsdóttir tilkynnti tímabundið bann á hvalveiðum - einum degi áður en veiðitímabilið átti að hefjast, sem hlýtur að teljast mjög íslenskt - sem tók gildi samstundis og gilti út ágústmánuð. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Kristján Loftsson og velunnarar hans í Sjálfstæðisflokknum (en hann er dyggur stuðningsmaður flokksins) urðu æfir, kölluðu Svandísi „kommúnista“ og sögðu hana bregðast við þvert á vilja ríkisstjórnarinnar. Til allrar hamingju skall hið víðfræga sumarfrí þingsins á fljótlega eftir þetta og ríkisstjórnin hélt velli. Á meðan biðu hvalveiðiskipin tvö, Hvalur 8 og 9, átekta í Reykjavíkurhöfn á meðan sumarið leið. Ákvörðun Svandísar um hvort leyfa ætti hvalveiðar á nýjan leik um haustið vofði yfir annars björtum sumardögum.

Seinkun hvalveiðitímabilsins að haustlagi

Þrátt fyrir að hvalveiðum Kristjáns Loftssonar hafi verið mótmælt áfram, ákvað Svandís Svavarsdóttir að aflétta hvalveiðibanninu þann 30. ágúst. Hvalur hf. hóf starfsemi að nýju með því skilyrði að hertum reglugerðum yrði fylgt. Þessi ákvörðun kom þjóðinni í opna skjöldu, þar sem afstaða Vinstri grænna, stjórnmálaflokks hennar, gegn hvalveiðum hefur verið skýr svo árum skiptir. Mörgum þótti ráðherra hafa brugðist skyldum sínum í ljósi þessa tækifæris til að binda endi á hvalveiðar og sýna í verki fjarlægð Vinstri grænna frá afstöðu Sjálfstæðisflokksins - en hún kaus að gera það ekki.


Fjölmargir aðgerðasinnar hafa lýst yfir óánægju sinni með ákvörðun ríkisstjórnar um að leyfa áframhaldandi hvalveiðar. Snemma morguns þann 4. september, rétt áður en hvalveiðiskipin tvö áttu að leggja af stað, klifruðu tveir aktívistar upp í möstur skipanna tveggja og komu í veg fyrir að skipin gætu siglt úr höfn. Aktívistarnir Anahita Babaei og Elissa Bijou héldu kyrru fyrir um borð í skipunum í samtals 33 klukkutíma, kaldar og hraktar og án aðgangs að vatni og mat. Fljótlega eftir að þær höfðu komið sér fyrir tók lögreglan bakpoka Anahitu af henni, sem innihélt bæði nesti og vatn. Á endanum urðu aðgerðasinnarnir tveir að yfirgefa svæðið og hvalveiðiskipin héldu úr höfn, þann 6. september. Þrír hvalir voru skotnir næsta dag. 

Regla frekar en undantekning

Kristján Loftsson hefur lagt mikla áherslu á rétt sinn til að stunda hvalveiðar nú í haust. Bæði vill hann halda arfleifð fyrirtækis síns á lofti, en einnig sanna að starfsfólk þess geti betrumbætt verklag sitt til að hægt verði að endurnýja hvalveiðileyfi fyrirtækisins árið 2024. Í sumar ræddi hann nýjar og betri veiðiaðferðir, til dæmis notkun raflosts til að deyða dýrin ef ekki dygði að skjóta þau einu sinni. En þó að það kunni að virðast rökrétt, raflost til að tryggja skjótan dauðdaga, er sú aðferð mjög umdeild því bæði japanskir og norskir hvalveiðimenn segja hana ekki virka sem skyldi. Svandís ákvað á endanum að leyfa ekki þessa vafasömu aðferð við hvalveiðar ársins.

Fyrstu þrír hvalirnir sem voru dregnir í land þann 8. september leiddu strax í ljós að ekki hefði allt farið fram eins og reglugerðirnar nýju kváðu á um. Einn hvalanna var skotinn tvisvar og hinir tveir voru hæfðir utan þess svæðis sem lögum samkvæmt stuðlar að skjótari dauðdaga. Í kjölfarið var öðru hvalveiðiskipinu bannað að sigla út aftur eftir að ljóst varð að það hafði ekki starfað í samræmi við reglugerðir. Þar að auki týndist fimmtánda langreyðurin sem var skotin, sem þýðir að hún dó hægt lengst úti á hafi.


Hlutverk hvala í vistkerfum sjávar

Hvalur hf. hefur drepið einungis 25 langreyðar í haust, og um það bil 184 öðrum hefur verið hlíft. En þessar 25 langreyðar eru 25 einstaklingum of mikið, sérstaklega í ljósi þess hlutverks sem hvalir gegna í umhverfislegum skilningi - ein langreyður getur bundið jafn mikið kolefni og 1,500 tré. Einnig hafa hvalir jákvæð áhrif á villta stofna í sjónum. Úrgangur sem langreyðar losa við yfirborð sjávar inniheldur lífræn næringarefni sem nýtast sem fæða fyrir ótal lífverur. Langreyðar hlúa meira að segja að lífi eftir dauða sinn, þegar lík þeirra sökkva til sjávarbotns. Hræið tryggir að sjaldgæf næringarefni ná dýpra ofan í sjóinn og nærir óteljandi lífverur sem finnast á sjávarbotni. Þetta gerist hins vegar eingöngu ef hvalir deyja náttúrulegum dauðdaga.


Stríð á hendur hvölum - Vistmorð

Það sem er að gerast á Íslandi er hægt að skilgreina sem vistmorð. Áhrif Hvals hf. á samvægi náttúrunnar er ekki hægt að skilgreina öðruvísi: verknaður þeirra lýsir kærulausu viðhorfi hvað varðar náttúruvernd á heimsvísu og að stuðla að lífvænni plánetu fyrir komandi kynslóðir. Í nýlegu viðtali við Morgunblaðið lýsti Kristján Loftsson hvalveiðum meira að segja sem vistvænum, þar sem veiðarnar minnkuðu kolefnisspor dýranna með því að drepa þau. Það er vonandi óþarfi að útlista hvers vegna sú staðhæfing nær engri átt.

„VISTMORГ er orð sem nær yfir það sem er að koma fyrir plánetuna okkar; stórtækur skaði og eyðilegging hins náttúrulega heims. Það þýðir bókstaflega „að drepa eigið heimili“. Og einmitt núna, á flestum stöðum í heiminum, er enginn gerður ábyrgur. 

(Stop Ecocide International) 


Hér á Íslandi er hins vegar hægt að gera einhvern ábyrgan. Kristján Loftsson neitar að sjá að liðin tíð á ekki við um nútímann, og Svandísi Svavarsdóttur ber að svara fyrir pólitískar ákvarðanir sínar.

Mun Ísland taka nauðsynleg skref í átt að vistvænni framtíð?

Svandís Svavarsdóttir og íslenska þjóðin standa frammi fyrir mikilvægri ákvörðun. Eru hvalveiðar og allt sem þeim fylgir virkilega eitthvað sem halda ætti áfram? Eru þær þess virði - að drepa þessar risavöxnu verur einungis í útflutningsskyni til lands sem er þúsundir kílómetra í burtu, og fórna alþjóðlegri ímynd okkar í leiðinni? Munu kálfar langreyða vera öruggir í framtíðinni, eða munu þeir enda á hvalveiðistöð þar sem þeir eru skornir út úr köldu líki móður sinnar og drepnir langt fyrir aldur fram? Mun Ísland geta verið stolt af fjölbreyttu lífríki sínu, eða halda áfram að ofnýta auðlindir hafsins eins og mannkyn hefur gert í allt of langan tíma?

Einungis tíminn og pólitíkin munu leiða svarið í ljós.