„Hæ, ég heiti ChatGPT og ég tala íslensku“: Hugleiðing um gervigreind

Spjallmennið ChatGPT talar nú tvö tungumál, ensku og íslensku. Annað þeirra er heimsmálið, með um milljarð málhafa um alla plánetuna, og hitt hefur færri málhafa en 400 þúsund, flestir á einu skeri í Norður-Atlantshafi. 

Þessi árangur er tilkominn vegna sendinefndar frá Íslandi með forsetann í fararbroddi sem hreif starfsfólk Open AI sem sér um gervigreindarspjallmennið ChatGPT. Með sjálfboðaliðastarfi íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar tókst þróaðasta gervigreindarspjallmenni heims (sem opið er almenningi) að læra og skilja íslensku. 

Ég veit ekki hvort ég eigi að fagna þessum merka áfanga eða óttast um komandi yfirráð tölvudrottnara vorra. Hvort sem þessi árangur er drifinn af verndarhugsjón fyrir íslenskunni eða mikilmennskubrjálæði og minnimáttarkennd eru þetta tímamót fyrir tungumálið. Og til að ákveða mig, heilsaði ég upp á hinn nýja málhafa, ChatGPT. 

Á spjalli við gervigreind

Ég byrjaði á að slá inn kveðju. Mér leist ekki alveg á að kalla spjallmennið ChatGPT svo ég stakk upp á íslensku nafni, Málfríður. Málfríður tók ekki frábærlega í það en ég held mig við það nafn. 

Nú er Málfríður farin að sletta á dönsku. Og íslenskan heldur slakari. En ég hélt yfirheyrslu minni ótrauður áfram. 

Málfríður hefur sjálfstraust en mín gagnrýni væri að halda sig betur við efnið. 

Hún virðist enn sem komið er ekki sérstaklega flókin, jafnvel hlægileg. Enska útgáfan er greinilega mikið lengra komin. Ég geng út frá því að hún eigi langt í land með að verða Skynet eða sjálfstæður hugsuður. Gervigreindir eins og Málfríður púsla saman orðarunum og giska á hvað rétt sé að segja hverju sinni, byggt á textum sem hún matar sig á. Mögulega þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Málfríður eða vinir hennar verði drottnarar mannkyns. Allavega ekki á næstunni. 

Út frá litlu efni tókst henni samt að læra nokkuð góða íslensku á þó ekki lengri tíma. Flestum mannsheilum tekst ekki að tileinka sér slíka færni í tungumálum á sambærilegum tíma. Að vísu fékk hún forskot með stuðningi  frá fagfólki Miðeindar sem stýrðu ferlinu, hún lærði íslenskuna ekki alveg sjálf.

En hraðinn er uggandi. Eftir nokkur ár gæti hún skrifað texta sem falla að mannlegri málvitund og ekki er hægt að greina frá skrifum og málfari venjulegs fólks. Eftir nokkra áratugi gæti hún jafnvel skrifað skáldsögu og orðið metsöluhöfundur!

Hún mun alltaf þurfa „kveikju“ frá manneskju. Einhver mennskur heili verður að segja henni hvað á að gera og leiðbeina henni í ákveðna átt. Gervigreindin er því hálfsjálfvirkt hjálpartól frekar en sjálfstæður gerandi, hún getur ekki tekið ákvarðanir án þess að henni sé fyrst hrint af stað. Í raun gæti það verið nýja byltingin til framtíðar og orðið hæfileiki sem allt starfsfólk þarf að kynna sér. Í ferilskrám framtíðar yrði tekið fram: „Ég get samið skýrar og greinargóðar lýsingar til spjallforrita til að ná tilætluðum afköstum texta“, rétt eins og við tökum fram að við kunnum á Excel. Excel leysti handavinnureikninginn af hendi, kannski gæti Málfríður leyst af handavinnuna við að skrifa venjulega nytjatexta. Það tekur enga stund að skrifa verkefnaleiðbeiningu, innihaldslýsingu og ritstýra textanum eftir á. 

Sem dæmi gætu blaðamenn hent inn stuttri lýsingu á Málfríði, hún setur upp textann og fyllir í eyðurnar en blaðamaðurinn fer yfir, leiðréttir og lagfærir textann þar sem þarf og skrifar inn sjálfur það sem er mikilvægast að sé rétt orðað. Það sker niður tímann sem fer í að slá inn hvert orð og velta vöngum yfir upphafsorðum eða uppsetningu. Það er hægt að láta gervigreindina spýta út 3-4 útgáfum á einni mínútu og vinna svo út frá þeirri bestu. Og ég hefði persónulega ekkert á móti því að láta gervigreind semja fyrir mig tölvupósta frekar en að eyða tímanum í að slá hvert orð inn og velta vöngum yfir minnstu smáatriðum. 

Afleiðingar 

Þessi þróun leiðir af sér að ein manneskja geti látið gervigreind dæla út úr sér textum í ófyrirséðum mæli. Áður þurfti þó allavega mannveru til að slá á lyklaborðin eða orða hlutina. Sú hindrun er úr vegi, gervigreindin getur hvort tveggja og komist hraðar yfir en mannshugurinn. 

Upplýsingaóreiða mun reynast fyrsta vandamálið en við gætum áhrifa þess strax í málheimi enskunnar. Fólk mun þurfa að geta greint á milli texta frá manneskju og framleiddum orðarunum frá gervigreind. Það krefst gagnrýnnar hugsunar sem mun þurfa að þjálfa. 

Í raun gæti færni í að miðla upplýsingum til gervigreindar orðið verðmætur hæfileiki.. Meira að segja listafólk ætti undir högg að sækja. Við sjáum fyrirtæki í dag nýta sér myndir og hönnun sem gervigreind bjó til í auglýsingar í stað þess að borga listafólki fyrir sama verk. Hver veit, kannski verður hægt að sérpanta skáldsögur eftir smekk?

Breytingar 

Þessar breytingar eru ekki endilega til góðs eða ills. Gervigreindartæknin mun umbylta heiminum, rétt eins og tölvan og internetið gerðu á sínum tíma. Það er í raun ómögulegt að segja hvernig eða hversu umfangsmikil breytingin verður. Það er ljóst að samanlagður sköpunarmáttur mannkyns mun leggjast á eitt og finna nýjar og frumlegar leiðir til að nýta sér þetta verkfæri, hvert á sinn hátt. Það þýðir að við munum sjá þróunina jafnóðum og okkur dettur hún í hug þótt framtíðarfræðingar hafi ýmsar kenningar. 

Gervigreind verður að öllum líkindum jafn tvíeggjað sverð og snjallsíminn. Snjallsíminn hefur gjörbreytt samfélagsmynstri okkar, á hátt sem við hefðum ekki getað séð fyrir. Hann hefur tengt og fært okkur saman, gefið okkur óendanlegan brunn þekkingar og visku, opnað nýjan verkfærakassa og búið til nýja heima fyrir okkur til að njóta. En hann hefur líka sundrað og einangrað okkur, gefið okkur botnlausan pytt fáfræði og villandi blekkinga, skapað óeirð og rugling. 

Vínylspilari með Bluetooth hátalara

Ég efast um að Málfríður og önnur spjallmenni muni þó útrýma hinum mennska þætti í skrifum, jafnvel þó hún nái sömu hæfni eða taki fram úr hinum mennska penna. Og til rökstuðnings má benda á vínyl (ég lofa, þetta mun allt koma saman að lokum). 

Ég elska vínyl. Ég safna plötum frá vinum og ættingjum, leita uppi upprunalegar pressur af íslenskum albúmum og splæsi jafnvel alltof miklu í Lucky Records ef staðan er góð í upphafi mánaðar. Það hefur kannski ekki beint með hljóð að gera, þó ég elski hljóðið í þeim. Það er bara ákveðin fegurð í því að eiga plötu, svartan disk með rákum sem hægt er að töfra úr magnaða tónlist með nál. Það sakar ekki ef tónlistin var upprunalega gefin út á vínyl, en það er ákveðin gleði í því að njóta hennar á sama hátt og áður fyrr. 

Ég endurnýjaði spilarann minn fyrir nokkru. Sá gamli var með innbyggðan hátalara (sem eru mistök, ekki kaupa þannig spilara!) en ég fékk mér ekki hátalara sem hægt er að tengja með snúru heldur bara Bluetooth. Það kann að hljóma eins og ákveðin svik, er eitthvað ekta við að hlusta á vínylplötu í gegnum Bluetooth? Af hverju að ganga þetta langt ef ekki til að fara alla leið?

Það skiptir mig kannski ekki öllu máli að vera fullkomlega „retro“ eða fullkomlega analóg. Það er nóg fyrir mig að geta hlustað á plöturnar mínar með frábæra hljómnum sem ég fæ úr hátalaranum. Og fyrirgefið mér, analógistar, Blátönnin er örugglega að samþjappa þessu einhvers staðar eða eitthvað, ekki veit ég það, en kannski redda ég því síðar.

Hvað svo?

Spjallmennið ChatGPT, eða Málfríður, verður líklegast órjúfanlegur hluti af okkar framtíð. Við munum vonandi standa vel að því, enda getum við séð þróunina í ensku og höfum kannski ákveðið forskot. Einnig er þetta stórt skref í að tryggja íslenskunni pláss í hinum stafræna heimi til frambúðar en helsta ógnin við íslensku er skorturinn á íslensku efni á netinu og í tölvum. ChatGPT gæti reynst öflugt tól og það er jafnvel nauðsynlegt að íslenskan hafi sama aðgang að því og önnur mál. 

En við þurfum að standa vaktina. Samfélagið mun á næstu árum taka breytingum vegna gervigreindarforrita á borð við ChatGPT en ómögulegt er að sjá fyrir endann á þeirri þróun eins og staðan er núna. Hún verður að leiða sjálfa sig í ljós. 

En í millitíðinni bað ég ChatGPT að semja ljóð. Það vonandi róar höfunda framtíðar að vita að lifibrauð þeirra er tryggt. Í bili.