Listræn stjórnmál og alltumlykjandi þjáning

Gullfalleg uppreisn ungmenna um allan heim er birtingarmynd gremjunnar, kvíðans og jafnframt vonarinnar sem ungt fólk finnur fyrir hvað varðar þau málefni sem eru því hugleikin – tjáning þessara tilfinninga er oft táknræn og tilfinningaþrungin og birtist í átakanlegum ljóðum, ástarbréfum og smásögum. 

Ólga af mótmælum og samtakamætti ungdómsins, knúin áfram af loftslagsbreytingum, hefur vissulega vakið athygli sjónarspilsins (e. spectacle), en þrátt fyrir það er lítið um viðbrögð í formi raunverulegra aðgerða og mótmælin sem slík eru talin sérstæð – sérstaklega í ljósi þess að ungmenni eru útilokuð (af hálfu laga eða hefðar) frá því að vera fullgildir þátttakendur í stjórnmálum. Þegar uppi er staðið hvílir ábyrgðin táknrænt á breiðum herðum fullorðinna, sem bregðast yngri kynslóðinni trekk í trekk – en við höldum enn í vonina um að valdhafar muni snúa atburðarásinni við og endurskrifa í senn söguna og aðferðafræði sína. Í sögulegu samhengi sem og nýlega hefur ungt fólk átt veigamikinn þátt í aðgerðum og byltingarkenndum atburðum eins og Maí '68, Occupy og arabíska vorinu með því að taka höndum saman og standa með öðrum jaðarhópum. Þessi sameiginlega og listræna nálgun á aktívisma virðist vera áhrifaríkasta leiðin til að brjóta á bak aftur ríkjandi stöðnun (og í sumum tilfellum, afturför) stjórnmála sem hverfast um rík, vestræn lönd og eru uppblásin af skrifræði, innanhússátökum og kapítalisma.

Þegar núverandi kynslóð ungmenna verður fullorðin og fær loks umboð til að axla ábyrgð í pólitískum embættum og öðrum valdakerfum, verður það allt of seint ef horft er til eyðileggingarinnar sem blasir við viðkvæmustu hópum samfélagsins af hálfu heimsveldisstríðs, byssu- og lögregluofbeldis, haturs í garð hinsegin fólks (sérstaklega trans einstaklinga) bæði í orðræðu og löggjöf, og yfirvofandi loftslagsbreytinga. Ungt fólk er þó ekki sameinað í loftslagsmálum – eða öðrum málefnum, ef út í það er farið – en sú sundrung kemur betur í ljós eftir því sem við (sérstaklega vestræn ungmenni) eldumst. Af þessum sökum er vandkvæðum bundið að fagna æskunni um of, sérstaklega ef það rýrir vægi annarra mikilvægra aðgerðasinna og jaðarhópa. Svo er mikilvægt að nefna að þó að við værum sameinuð og þrátt fyrir að við búum yfir tækni til að hægja á eyðileggingu umhverfisins, verðum við að taka til greina þjáningu annarra og tryggja samkomulag um það sem okkur finnst mikilvægt og eiga við um okkur öll ef við ætlum að búa til heim sem er uppbyggjandi frekar en eyðileggjandi – annars verður veruleiki okkar áfram sundraður og við sitjum áfram föst hvert í sínu horni á samfélagsmiðlum, og óréttlætið mun áfram ríkja.

Í bók sinni Enjoyment Right & Left (2022) leggur Todd McGowan til að nýr grundvöllur hins félagslega ætti að hefjast með því að viðurkenna þá hugmynd að við þjáumst öll og upplifum það að við tilheyrum ekki. Í annarri grein fullyrðir McGowan (2019) að í þessari skilgreiningu felist eins konar sátt fyrir okkur öll, því að samfélagslegar skilgreiningar á ánægju og sátt (sérstaklega samkvæmt lacanískri sálgreiningu) nái ekki utan um vandann. Ánægja verkar eins og afskipti (e. intrusion) þegar við upplifum hindranir sem standa í vegi fyrir henni, hvort sem það er ánægja viðfangsefnisins eða ánægja einhvers annars sem viðfangsefnið útilokar með vísvitandi útskúfun og afneitun. Til dæmis er ánægja fólgin í því að véfengja tilvist lofstlagsbreytinga fyrir loftslagsafneitendur - og sátt fólgin í því að hindra sína eigin langtímaánægju og flýta fyrir sameiginlegri dauðahvöt á vegferð sem leiðir til algjörrar sjálfseyðingar. Á hinn bóginn felst umhverfissinnaða sjónarmiðið í því að andmæla hinum illu mengunarvöldum og efasemdarfólki og njóta þess að fórna því sem talið er tengjast græðgi  – í þessu tilviki, efnislegum þægindum hins vestræna heims. Enn sem komið er eru þessar fórnir án efa ófullkomnar ef þeim fylgir ekki neins konar skipulagsbreyting, og þar með þjóna þær aðallega þeim tilgangi að finna til sáttar frekar en að leggja eitthvað af mörkum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þessa rökfræði er hægt að yfirfæra á nánast hvaða pólitíska málstað nútímans sem er, og rétt eins og umhverfisverndarstefnan er studd af afstöðu afneitarans, þá er hver aðgerðasinni studdur af andstæðu sinni.  

Opna úr Mémoires (Debord 1957)

Sá listræni ásetningur sem ég set fram hér er alls ekki til þess ætlaður að hampa ímynd þjáða listamannsins, heldur er ég frekar að halda því fram að við búum öll yfir anda listamanna, aktívista eða stjórnmálamanna og hæfileikanum til að skapa (þó ekki nema til að njóta afrakstursins), og séum þeim eiginleikum gædd að geta tjáð okkar eigin þjáningu – í þessu gætum við tekið til greina (endur)sköpunarverk (sjálfs)eyðingarsinna sem nýta sér aðferðir eins og útúrsnúning  (f. détournement):

„samþættingu núverandi eða fyrri listsköpunar sem er til staðar í ríkjandi samfélagsumhverfi[...], aðferð sem varpar ljósi á úreldingu og dvínandi mikilvægi þess kerfis“, og sálarlandafræði (e. psychogeography), „rannsókn á nákvæmum lögmálum og sértækum áhrifum landfræðilegs umhverfis, hvort sem þau áhrif eru meðvituð eða ekki, á tilfinningar og hegðun einstaklingsins.“

Sálarlandafræðilegt kort af París – rauðu örvarnar gefa til kynna áhrifastyrk tilfinninga milli afbyggðra og samhengislausra hverfa borgarinnar (Debord 1955)

Þjáning sem byrjunarreitur færir okkur ekki beint á núllpunkt, en með henni sleppum við allavega við það að gera stigveldislegan greinarmun á mismunandi stigum þjáningar, eða að dæma orsakir hennar sem misverðugar. Stjórnmálaáætlunin sem ég er að leggja til á rætur sínar að rekja til samstarfsfyrirtækja eins og Occupy Wall Street. Hinn stórkostlegi David Graeber heitinn, sem var einn af höfuðpaurunum á bak við Occupy og hina víðtækari alter-hnattvæðingarhreyfingu, lýsti því hvernig hin alþjóðlega Occupy hreyfing væri byggð af sameiginlegu, siðferðislegu markmiði: 

„[...] að búa til og koma á fót láréttu kerfi í stað uppbyggingar að ofan af hálfu ríkis, aðila eða fyrirtækja; tengslanet sem byggja á meginreglum um dreift, óhefðbundið samstöðulýðræði.“

Andbygging (e. anti-structure) eins og lýst er hér að ofan byggir á grunni samvinnu í báðar áttir, jafnræði lausu við sýndaraðgerðir (e. tokenism), þekkingarmiðlun og innbyggðri ábyrgð þar sem markmiðið er ekki að starfa fyrir hönd hinna undirokuðu, heldur að tryggja það að raddir hinna undirokuðu hafi vægi. Ef við (yngri kynslóðin þar meðtalin) komum til með að verða höfundar okkar eigin hnignunar (verknaðs sem dreifist misjafnlega í vil hins hnattræna norðurs), hlýtur að liggja beint við að leyfa þeim sem hafa ekkert ákvörðunarvald yfir eigin framtíð hvort sem er að skrifa eins og eina blaðsíður eða tvær áður en bókin verður brennd.

Sem aktívistar (sérstaklega hvað ungt fólk varðar), munu tilraunir okkar til að vera skapandi og bjartsýn oft mistakast, einkennast af sjálfseyðingarhvöt og koma til með að móðga aðra í leiðinni – í stuttu máli munum við halda áfram að skapa list með gjörðum okkar (hvort sem við erum sjálf meðvituð um það eða ekki). Þannig að við gætum alveg eins verið meðvituð um listformið stjórnmál sem afl sköpunar og eyðileggingar, svo við getum upplifað afleiðingar eigin mistaka í sameiningu, frekar en að þær séu á kostnað annarra. Hér er ég ekki að tala fyrir því að stuðla að aukinni þjáningu, heldur að andmæla því að fyrri þjáning og misgjörðir séu notaðar sem réttlæting til að útiloka aðra frá borgaralegu og pólitísku samfélagi. Ég viðurkenni að það sem hér er rætt kann að hljóma óhlutbundið og útópískt, en mörg grasrótarsamtök á Íslandi (m.a. REC Arts Reykjavik, Andrými, fyrrum Besti flokkur Jóns Gnarr, og Pírataflokkur Íslands) starfa nú þegar í anda margra þessara kenninga með aðgerðum sínum og áherslu á valdeflingu þeirra sem þjást - en við verðum samt að vera stórtækari. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa orð Felix Guattari í huga: 

„Maður gæti mótmælt því að umfangsmikil barátta sé ekki endilega í takt við vistfræðilegar venjur og míkrópólitík löngunarinnar, en það er einmitt málið: það er mikilvægt að skeyta ekki saman mismunandi stigum iðkunar eða gera leiðréttingar þeirra á milli með einhvers konar yfirskilvitlegu eftirliti, heldur ættum við að virkja misleitni þeirra[…]. Finna ætti leiðir til að virkja hið einstæða, óvenjulega, sjaldgæfa, og gera því kleift að lifa í samlyndi við ríkisskipulag sem er sem minnst íþyngjandi.“

Fagnaðu mótsögnunum og hafðu þessar meginreglur í huga þegar þú beitir þér í listrænum aktívisma í þágu þeirra málstaða sem skipta þig máli, án þess að gera lítið úr öðrum málefnum sem eru til staðar í kringum þig og án þess að gleyma því hversu mikilvæg róttæk og uppbyggileg stjórnmál eru í heimi fullum af tortímandi nei-um.

Heimildir

Debord, Guy. „Definitions.“ Internationale Situationniste #1, 1958. 

Debord, Guy. „Introduction to a critique of urban geography.“ Les lèvres nues 6, no. 2, 1955.

Debord, Guy. Society of the Spectacle. Detroit, MI: Black and Red, 1977. 

Douglas Kellner og Roslyn M. Satchel. „Resisting Youth: From Occupy through Black Lives Matter to the Trump Resistance.“ The SAGE Handbook of Critical Pedagogies, 2020, 1329–42.

Graeber, David. „The New Anarchists.“ New Left Review. New Left Review LTD, 2002.

Guattari, Félix. The Three Ecologies. London: Bloomsbury Academic, 2014. 

Silvan S. Tonkin. Affect Imagery Consciousness. London, UK: Tavistock, 1962.

Todd McGowan. „The Lust for Power and the Logic of Enjoyment.“  Crisis and Critique 6, no. 1, 2019.