Allt er gott þá frítt er

Stúdentablaðið/Elín Edda

Stúdentablaðið/Elín Edda

Hugsar þú stundum um allt það sem þú gætir gert ef þú ættir pening? Langar þig til þess að gera eitthvað skemmtilegt án þess að eyða peningum sem þú þarft í leigu og mat? Stúdentablaðið tók saman ókeypis hluti sem hægt er að gera í Reykjavík fyrir utan það að læra (sem þú ert hvort sem er að borga fyrir). Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir að ókeypis skemmtun fyrir líkama og sál.

Á Swap ‘til you drop á Loft Hostel getur þú skipt út gömlu fötunum þínum fyrir ný án þess að eyða krónu. Þessi mánaðarlegi viðburður er ekki aðeins góður fyrir fataskápinn heldur er hann umhverfisvænn líka! Þú veist aldrei hvaða gersemar leynast í fataskápum annarra. Kannski toppurinn sem þú sást einhvern tímann á Instagram og þig langaði í eða peysa sem er svo mjúk að þig langar aldrei úr henni.

Á Listastofunni eru oft áhugaverðar sýningar. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Á Listastofunni eru oft áhugaverðar sýningar. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ef þú hefur áhuga á list eru mörg krúttleg gallerí sem hægt er að heimsækja þér að kostnaðarlausu. Í Marshall húsinu er að finna þrjú spennandi gallerí undir einum hatti: Nýlistasafnið, Gallerí Kling & Bang og stúdíó Ólafs Elíassonar. Á Listastofunni eru oft áhugaverðar sýningar auk þess sem Ásmundarsalur opnaði nýlega þar sem Listasafn ASÍ var áður til húsa.

Fyrir upprennandi listafólk er vatnslitakvöld á Loft Hostel öll þriðjudagskvöld klukkan 8. Boðið er upp á vatnsliti og pappír ásamt ráðgjöf og kennslu um vatnslitun ef áhugi er fyrir hendi. Það er tilvalið að nýta sköpunarkraftinn í góðum félagsskap!

Kjallaradjass á Stúdentakjallaranum er ókeypis skemmtun þó það sé ekki verra að njóta hans með rauðvínsglas eða sódavatn í hönd.

Kjallaradjass á Stúdentakjallaranum er ókeypis skemmtun þó það sé ekki verra að njóta hans með rauðvínsglas eða sódavatn í hönd.

Langar þig í bíó en vilt ekki eyða 1500 krónum í miða og meira en það ef þú vilt kaupa popp með myndinni? Sunnudagsbíó á Stúdentakjallaranum kostar ekkert og boðið er upp á frítt popp líka. Í kjallaranum eru reglulega haldnir tónleikar og aðrir viðburðir. Einn af þeim er Kjallaradjass þar sem barinn breytist í djassklúbb í eitt kvöld. Kíktu við og láttu ljúfa tónana leika við eyrun.

Það eru margir staðir í borginni þar sem hægt er að stunda jóga en það er ekki alltaf ódýrt. Ef þú ert ekki of þunn/ur á sunnudagsmorgnum getur þú skellt þér í Sunnudagsjóga á Loft Hostel klukkan 12. Þá býður Indverska sendiráðið í Reykjavík einnig upp á ókeypis jógatíma alla daga vikunnar. Tímarnir eru tvisvar á dag, að morgni til eða kvöldi til, og henta bæði byrjendum og lengra komnum.

Fyrir fjölskyldur sem leita að einhverju að gera með börnunum sínum er til dæmis hægt að kíkja á fjölskyldumorgna í Andrými á sunnudögum. Frá 10 -13 er þar boðið upp á ýmislegt skemmtilegt fyrir börn og foreldra þeirra ásamt kaffi, tei og nasli fyrir þau litlu. Á Borgarbókasafninu Grófinni er einnig boðið upp á fjölskyldustundir alla fimmtudaga frá klukkan 10:30 - 11:30 þar sem í boði eru þroskaleikföng, bækur og bangsar fyrir lítil kríli, samsöng og gítarspil.

Pop Quiz á Stúdentakjallaranum.

Pop Quiz á Stúdentakjallaranum.

Fyrir eldri börn og aðra sem hafa gaman af bjóða Spilavinir reglulega upp á spilakvöld í verslun sinni og kostar ekkert að taka þátt. Tilvalið fyrir einstaklinga eða hópa sem vilja skemmta sér með fólki sem hefur sömu áhugamál. Pop Quiz á Stúdentakjallaranum er líka tilvalinn viðburður til þess að fara á með vinum. Það kostar ekkert inn og vinningsliðið fær ókeypis drykki á barnum svo það er skynsamlegt að taka gáfuðustu vini sína með sér.

Skemmtun þarf ekki alltaf að kosta hálfan handlegginn. Þessi listi er ekki tæmandi og margir staðanna sem nefndir eru hér að ofan bjóða upp á aðra ókeypis viðburði. Hvort sem að áhugamál þín eru plöntur, DnD, ruslarót, dans eða rómantískar skáldsögur getur þú fundið hóp eða viðburð fyrir þau á Facebook.